Sementsverksmiðja ríkisins
Þriðjudaginn 07. nóvember 1989


     Flm. (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Umræðu um þetta mál var frestað á þeim fundi sem það var tekið fyrir í síðustu viku. Það er óþarfi fyrir mig að endurflytja framsöguræðuna, en ástæðan fyrir því að málinu var frestað var sú að hæstv. iðnrh. var ekki við þá umræðu. Hann var þá staddur erlendis í opinberum erindum, en hann er nú staddur hér í þinghúsinu.
    Frv. er endurflutt nánast óbreytt. Þó hafa verið teknar inn í grg. með frv. nýjar upplýsingar er varða fjárhagsstöðu og rekstur fyrirtækisins. Það kom fram í mínu máli að frv. er nú í því formi að gera má ráð fyrir víðtæku samkomulagi um það.
    Ég lýsti því í minni framsöguræðu að hæstv. ráðherra hefði á síðasta þingi haft áform uppi um að flytja nákvæmlega þetta frv. sem stjfrv. en það fékk ekki stuðning þingflokka hæstv. ríkisstjórnar og varð þá að ráði að ég flytti þetta frv. sem þmfrv. og gerði það eftir að hafa haft um það --- kannski ekki samráð en a.m.k. samband við hæstv. ráðherra.
    Mér er kunnugt um það að einnig nú á þessu þingi er það áform hæstv. ráðherra að ná þessu frv. fram sem stjfrv. Ég tel litlar líkur á því að það takist, en lagði hins vegar spurningar fyrir hæstv. ráðherra í minni framsöguræðu þess efnis hvort ekki megi gera ráð fyrir því að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir að einhverjir þingflokkar hæstv. ríkisstjórnar, t.d. þingflokkur Alþfl., lýsti yfir stuðningi við frv. og gæti þá flutt brtt., t.d. í hv. iðnn. Nd. sem fær frv. væntanlega til meðferðar.
    Ég sé ekki ástæðu til þess, virðulegur forseti, að hafa þessi orð miklu fleiri en óska eftir því að hæstv. ráðherra láti álit sitt í ljós um þetta fyrirliggjandi frv.