Sementsverksmiðja ríkisins
Þriðjudaginn 07. nóvember 1989


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Reykv. og flm. þess frv. sem hér er til umræðu spyr um afstöðu mína og Alþfl. til þessa máls og reyndar ríkisstjórnarinnar. Mér er ljúft að verða við þeirri ósk hans að gefa við þessari fyrirspurn nokkur svör, mun þó hafa að því nokkurn aðdraganda.
    Það frv. sem við ræðum í dag er reyndar samhljóða frv. sem hv. 1. þm. Reykv. flutti á 111. löggjafarþinginu, en náði þá ekki fram að ganga. Frv. er reyndar einnig samhljóða frv. sem var samið í iðnrn. á þeirri tíð sem hann var iðnrh. Ég minni á að það náðist ekki samstaða um flutning frumvarpsins sem stjórnarfrumvarps í tíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar. Eins og hv. þingdeild er kunnugt ... ( FrS: Það var ekki sama frv.) Það var ekki samstaða um flutning frumvarps um þetta efni sem stjórnarfrumvarps í tíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar, svo að ég leiðrétti orð mín, hv. 1. þm. Reykv. --- Eins og hv. þingdeildarmönnum er kunnugt varð frv. sem er að ýmsu leyti sambærilegt um Ríkisprentsmiðjuna Gutenberg að lögum á sl. vori og það var stofnað hlutafélag um rekstur ríkisprentsmiðjunnar í lok september sl. Nýtt hlutafélag, Prentsmiðjan Gutenberg hf., mun taka við rekstri ríkisprentsmiðjunnar 1. jan. 1990. Ég mun hér á eftir vitna nokkuð til reynslunnar af þeirri lagasetningu og framkvæmd hennar.
    En víkjum nú aftur að frv. um Sementsverksmiðjuna. Það hefur komið fram, eins og hv. flm. mun kunnugt, að það er ekki samstaða í bæjarstjórn Akraness um afstöðu til þessa frv. Í frv. hefur þó sýnilega verið reynt að koma til móts við sjónarmið sem fulltrúar bæjarins hafa sett fram og ég hef reyndar átt viðræður við bæjarstjórn Akraness um málið. Ég nefni hér þrjú atriði: Að lögheimili félagsins verði lögákveðið á Akranesi, sbr. 3. gr. frv., sem að sjálfsögðu er af hinu góða, í öðru lagi að hlutverk félagsins verði skilgreint fremur rúmt, eins og fram kemur í 2. gr. frv., og loks að ekki verði heimilt að selja hluti í félaginu nema samþykki Alþingis liggi fyrir, eins og skýrt kemur fram í 6. gr. Þetta eru allt saman skynsamleg ákvæði, en ég minni á að enn hefur ekki náðst um þetta samstaða í bæjarstjórn Akraness og reyndar hefur þetta frv. ekki fengið lokaumfjöllun í stjórn verksmiðjunnar.
    Ég vil ítreka það sem reyndar hefur komið fram áður og kom fram í umræðum um frv. hv. 1. þm. Reykv. í fyrra um þetta efni að ég styð meginmarkmið frv. og tel reyndar að reka megi flest atvinnufyrirtæki ríkisins sem hlutafélög eða sem félög með takmarkaðri ábyrgð þótt heiti þeirra kynni að vera eitthvað annað. En það þarf hins vegar að fjalla mun nánar um málefni Sementsverksmiðju ríkisins áður en Alþingi tekur afstöðu til málsins og mig langar að nefna í þessari hv. þingdeild nokkur sjónarmið sem ég tel að þurfi að fjalla ítarlega um áður en þetta mál er tekið til endanlegrar meðferðar.
    Í fyrsta lagi nefni ég að það væri æskilegt að bæta

við greinar frv. ákvæði um stjórnarkjör sem veiti starfsmönnum aðild að stjórn fyrirtækisins. Við stofnun hlutafélags um Ríkisprentsmiðjuna Gutenberg bauð ég reyndar starfsmannafélagi fyrirtækisins að tilnefna mann í stjórn þótt ráðherrann sé formlega sá sem nefnir í stjórnina. Vegna Sementsverksmiðjunnar kynni að vera æskilegt að binda þetta í lög með sérstöku ákvæði um stjórnarkjör.
    Í öðru lagi vil ég nefna að vegna þess hversu mikilvæg Sementsverksmiðjan er fyrir Akranes og grannbyggðir tel ég nauðsynlegt að ræða stofnun hlutafélagsins ítarlega við fulltrúa bæjarins og kanna hvort grundvöllur er til samstarfs um stofnun þessa félags. Í því sambandi mætti hugsa sér að bæjarstjórnin tilnefndi mann í stjórn eða að um einhvers konar lögbundið samráð við Akraneskaupstað yrði að ræða við rekstur verksmiðjunnar.
    Í þriðja lagi sem ég vil nefna er það álit mitt að eitt mikilvægasta markmiðið með setningu nýrra laga um Sementsverksmiðjuna sé að gera félaginu fært að eiga aðild að nýjum þróunarverkefnum og aðild að nýjum fyrirtækjum. Ég tel nú brýnt að skýra þau áform nánar í viðræðum við verksmiðjustjórnina áður en frv. er lagt fram.
    Ég nefni í fjórða lagi, vegna fenginnar reynslu af stofnun hlutafélags um Ríkisprentsmiðjuna Gutenberg, að rétt sé að athuga tvö framkvæmdaratriði í fyrirliggjandi frv. nánar.
    Í fyrsta lagi virðist mér geta verið skynsamlegt að kveða skýrar á um það mat sem fram skal fara á eignum verksmiðjunnar skv. b-lið í 1. gr. Við mat á eignum Ríkisprentsmiðjunnar Gutenberg var sú leið valin að biðja yfirborgardómarann í Reykjavík að tilnefna oddamann, en Félag löggiltra endurskoðenda tilnefndi einn og Fjárlaga- og hagsýslustofnun tilnefndu annan. Þetta var ákvörðun mín til þess að tryggja að nefndin hefði sem óháðasta stöðu og ekki risu síðar deilur vegna matsins. Með þetta í huga virðist mér hyggilegt að það sé skýrt í lögunum og mætti bæta við ákvæði í 1. gr. eða ákvæði til bráðabirgða þess efnis að óháður aðili, t.d. bæjarfógetinn á Akranesi, skipaði matsnefndina og þá þannig að einn nefndarmanna skuli vera löggiltur endurskoðandi.
    Þá nefni ég í öðru lagi sem reynslulærdóm af einni slíkri
hlutafélagsbreytingu um aðra aðferð varðandi þann stofnfund sem ákvæði eru um í 7. gr. frv. Það þarf að huga að þessu, m.a. með hliðsjón af ákvæðum hlutafélagalaga um innborgun hlutafjár vegna skráningar hlutafélagsins. Hugsanlega væri heppilegra að skipa undirbúningsnefnd sem undirbyggi félagsstofnunina og annaðist samningsgerð fyrir hönd væntanlegs hlutafélags en að hlutafélagið yrði formlega stofnað á þeim degi sem yfirtakan á rekstri verksmiðjunnar á sér stað. Þetta eru auðvitað tæknileg framkvæmdaratriði sem ekki skipta mjög miklu máli, en ég tel þó rétt að athuga þetta nánar áður en fram kæmi stjfrv. um þetta mál. Ég bendi á þetta vegna þess að svona smáagnúar í sambandi við

félagsstofnunina og tengsl hlutafélags af þessu tagi við félagalöggjöfina eru óþarfir --- það er sjálfsagt að draga lærdóm af þeirri reynslu sem fengist hefur.
    Ég vísa til þessara fjögurra meginatriða og annars sem ég hef hér sagt og tel nauðsynlegt að þessa málefni verði könnuð nokkru nánar í iðnrn. og ég mun reyna að ná samstöðu um breytingar á frv. í þessum anda. Ég hyggst síðan leggja fram stjfrv. til laga um að breyta Sementsverksmiðjunni í hlutafélag síðar á þessu þingi takist um það samkomulag innan og milli ríkisstjórnarflokkanna, en hv. flm., 1. þm. Reykv., hefur af því reynslu að það er ekki alltaf auðhlaupið að því að ná slíku samkomulagi eins og reynslan úr ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sýndi. Ég er hins vegar bjartsýnn að upplagi og treysti á að góð samstaða takist um þetta mál þegar þau atriði sem ég hef hér lýst hafa verið skýrð nánar í viðræðum við bæjarstjórn Akraness, verksmiðjustjórnina og fulltrúa starfsmanna.
    Ég endurtek að ég legg mjög ríka áherslu á það að engin breyting verði gerð á formlegri stöðu þessa fyrirtækis nema náið samráð og sem best samkomulag takist við þessa aðila alla sem ég hef nefnt og ég hef reyndar sjálfur haft tækifæri til að kynna þeim þetta mál á fyrri stigum þess.