Sementsverksmiðja ríkisins
Þriðjudaginn 07. nóvember 1989


     Friðjón Þórðarson:
    Herra forseti. Hér er enn á ferð frv. til laga um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins. Flm. er hv. 1. þm. Reykv. Frv. um þetta efni hafa nokkrum sinnum verið flutt á undanförnum árum. Um þau hefur ekki ríkt samkomulag. Þau hafa verið álitamál bæði heimamanna og annarra sem þau hafa skoðað. Hv. flm., 1. þm. Reykv., segir að um frv. í núverandi breyttri mynd ríki víðtækt samkomulag og rétt er það að frv. er nú að nokkru breytt frá því sem verið hefur, þ.e. það mun hafa verið flutt á síðasta þingi þar sem það náði ekki samþykki, á 111. löggjafarþingi, en nú er það flutt í óbreyttri mynd frá því sem þá var.
    Það er rétt að þetta er breytt frv., m.a. hvað það snertir að ákveðið er í 1. gr. að nú verði öll hlutabréf í hlutafélaginu í eign ríkissjóðs. Og í 6. gr. er sleginn sá varnagli að verði hlutabréf ríkissjóðs í Sementsverksmiðjunni boðin til sölu, öll eða að hluta, þá skuli leita samþykkis Alþingis fyrir þeirri sölu.
    Þessu frv. fylgir ítarleg grg. Það er allmikið vitnað í fordæmi um Ríkisprentsmiðjuna Gutenberg þegar henni var breytt í hlutafélag, talið að það hafi reynst vel. En samkvæmt upplýsingum hæstv. iðnrh. hafa ríkisstjórnarflokkarnir ekki náð samkomulagi um að leggja fram frv. um þetta efni að því er Sementsverksmiðjuna varðar þó að þess sé að vænta síðar á þinginu.
    Sannleikurinn er sá að þessi ágæta verksmiðja hefur alltaf stuðst við fremur ófullkomna löggjöf. Með lögum nr. 35/1948 veitti Alþingi ríkisstjórninni heimild til þess að reisa hér á landi verksmiðju til vinnslu sements. Þessi lög, um heimild til að reisa verksmiðjuna, voru samþykkt og eftir þeim hefur Sementsverksmiðjan starfað fram á þennan dag. Sannleikurinn er og sá að þau hafa dugað henni allvel og kemur maður þá að því einkennilega atriði að lög, þótt ófullkomin séu, geta stundum dugað eins vel og þau lög sem eru mjög vel gerð að öllu leyti.
    Á grundvelli þessara laga var Sementsverksmiðja ríkisins reist á Akranesi sem sérstakt fyrirtæki undir yfirstjórn iðnrh. Verksmiðjan tók til starfa árið 1958 og hefur starfað samfellt síðan. Sementsverksmiðjan lýtur fimm manna þingkjörinni stjórn sem kosin er til fjögurra ára í senn. Iðnrh. skipar einn úr hópi stjórnarmanna formann. Þau ár sem ég hef átt sæti í stjórn verksmiðjunnar hefur verið mjög gott samstarf í stjórninni. Það hygg ég að sé alveg óhætt að segja.
    Nú eru starfsmenn Sementsverksmiðjunnar 135 talsins þannig að þetta fyrirtæki skiptir mjög miklu máli í atvinnulífi þess umhverfis þar sem það starfar. Þetta er ekki einokunarfyrirtæki, því að árið 1975 var innflutningur á sementi gefinn frjáls, en hann hefur þó satt að segja verið mjög lítill á undanförnum árum. Verksmiðjan greiðir nú landsútsvar í stað aðstöðugjalds og fasteignaskatta. Rekstur verksmiðjunnar hefur gengið vel undanfarin ár og eiginfjárstaðan hefur batnað verulega. Ég fullyrði að rekstur hennar hefur aldrei verið blómlegri en nú og

fer batnandi. Hún er að losna við allar erfiðar skuldir og sér fram á bjarta daga og bættari hag, ef ekki neitt sérstakt kemur fyrir.
    Það segir hér í greinargerðinni að þegar hlutafélag hafi verið stofnað um verksmiðjuna taki lög um hlutafélög sjálfkrafa gildi um fyrirtækið og ætla ég að íslensk hlutafélagalöggjöf sé nokkuð vel úr garði gerð. Það eru svo hér upplýsingar um það að flest ríkisfyrirtæki á Norðurlöndum séu rekin sem hlutafélög. Mér er ekki fullkunnugt um þetta atriði, en skal þó ekki draga það í efa, þar sem það er fram borið af merkum og trúverðugum mönnum. Hér er talað um kosti þess að reka verksmiðjuna í hlutafélagsformi og talið að það geri reksturinn sveigjanlegri. Það má vel vera að svo sé. Reynslan sker auðvitað úr um þetta atriði eins og fleiri.
    Það er rétt að taka það fram að Sementsverksmiðjan hefur ekki fengið framlög úr ríkissjóði þau ár sem hún hefur starfað fyrir utan stofnframlag í upphafi sem var svo lágt að það er ekki ástæða til þess að nefna þá fjárhæð. Hún skiptir nákvæmlega engu máli og hefur aldrei gert, þannig að þetta fyrirtæki hefur staðið á eigin fótum. Það hefur oft gengið erfiðlega. Það hefur haft storminn í fangið eins og fleiri góð fyrirtæki, en núna er rekstur þess og hagur í góðu lagi að mínum dómi.
    Hæstv. ráðherra minntist sérstaklega á þrjú atriði sem hann vildi leggja áherslu á í því frv. sem væntanlegt er frá hans hendi síðar á þinginu. Það fyrsta að lögheimili verksmiðjunnar verði áfram á Akranesi. Það er auðvitað algert skilyrði. ( Viðskrh.: Það er í frv.) Og er í frv., ég veit það. ( Viðskrh.: Ég vitnaði til frumvarpsgreinarinnar með þrjú atriði. Síðan nefndi ég önnur fjögur.) Ég ætla aðeins, ef ég má spjalla svolítið lengur um þetta fyrir þessum ágætu áhugamönnum sem bera hag verksmiðjunnar svo mikið fyrir brjósti, að ræða þetta ögn nánar.
    Hlutverkið er skilgreint rúmt svo sem vera ber og ákvæði 6. gr. hygg ég að
sé mjög mikilvægt í augum heimamanna og annarra sem láta sig hag þessa fyrirtækis nokkru skipta. Það er svo vitanlega alveg sjálfsagt sem hæstv. ráðherra tók fram að það þurfi að kynna þetta frv. rækilega og ná um það sem víðtækustu samkomulagi í bæjarstjórn Akraness og svo þarf þetta auðvitað að ræðast betur í stjórn verksmiðjunnar sjálfrar og að sjálfsögðu í ríkisstjórninni, því að væntanlega er þetta ekki eina frv. sem hæstv. ráðherra greinir á um að einhverju leyti.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. að sinni. Mér finnst sjálfsagt að taka því með opnum huga, skoða það frá öllum hliðum og athuga eins og vera ber, vitanlega með hagsmuni fyrirtækisins fyrir augum, með hagsmuni heimamanna á Akranesi og Vesturlandi fyrir augum og landsmanna allra þar sem hér er um opinbert fyrirtæki að ræða sem vinnur í þágu alþjóðar. Um skipulag, rekstur og allt fyrirkomulag þessa fyrirtækis þarf að nást og ríkja víðtækt og gott samkomulag svo sem verið hefur.