Sementsverksmiðja ríkisins
Þriðjudaginn 07. nóvember 1989


     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð um þetta mál og þá kannski helst að koma hér upp og lýsa stuðningi við málið. Ég gat reyndar ekki heyrt annað en hæstv. iðnrh. lýsti í raun fullum stuðningi við það sem slíkt en einhverra hluta vegna telur hann nauðsynlegt að það komi frekar úr herbúðum ríkisstjórnarinnar en frá óbreyttum þm.
    Ég á nú, líkt og síðasti ræðumaður, hv. þm. Friðjón Þórðarson, sæti í stjórn Sementsverksmiðjunnar. Þar hefur þetta mál lítillega komið til umræðu en engin afstaða verið tekin. Ég get þó upplýst það eftir viðræður mínar við framkvæmdastjóra verksmiðjunnar sem eru tveir, að þeir munu báðir vera sammála þessu frv. og tilgangi þess.
    Einnig er það af prinsipástæðum sem ég styð málið sem slíkt, þar sem ég tel að ríkið eigi ekki að vera að vasast í almennum atvinnurekstri og alls ekki þar sem einkaframtakið getur gert jafn vel eða hugsanlega betur.
    Haldinn var fundur þm. Vesturlands með bæjarstjórn Akraness fyrir nokkru þar sem þessi mál voru mikið rædd og m.a. þau þrjú ágreiningsatriði sem ráðherra kom hér inn á áðan og eru nú öll komin inn í frv. Virtist bæjarstjórnarfulltrúum létta mikið við það og er skemmst frá því að segja að eftir að hafa hlustað á bæjarfulltrúa, þá er nokkuð ljós meirihlutavilji þar fyrir þessari breytingu þó að hann sé náttúrlega ekki alger.
    Ráðherra kom hér inn á örfáa punkta sem hann vildi skoða betur, svo sem eins og að gefa starfsmönnum möguleika á að eiga þátt í stjórnarsetu sem er vissulega hið besta mál og þvælist sjálfsagt ekki fyrir flm. að taka undir slíka hugmynd. Að hafa samstarf við bæjarstjórnina varðandi stjórnarsetu eða rekstur, það hlýtur að vera mál sem má líka taka upp og skoða með jákvæðu hugarfari. Síðan kom ráðherra inn á það að hann hygðist ræða við stjórnina um þróunarverkefni. Því fagna ég náttúrlega og vona að það verði sem allra fyrst, enda komum við lítillega hér inn á slíkt mál í umræðunni í gær um atvinnumál þar sem var spurningin um þilplötuverksmiðju uppi á Akranesi sem væri þá í samstarfi við Sementsverksmiðjuna og Sérsteypuna.
    Ég hef í sjálfu sér ekki mikið um þetta mál frekar að segja annað en það að ég ítreka það að ég styð þetta mál og mun gera það í Sementsverksmiðjustjórninni. Ég lít á þetta, og ætla ekkert að fara dult með það og fór ekkert dult með það á fundi með bæjarstjórn, sem fyrsta skref í áttina að einkavæðingu þessa fyrirtækis sem ég tel að sé vel og ég tel að 6. gr. segi að það sé verið að stíga fyrsta skrefið í þá átt. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Verði hlutabréf ríkissjóðs í Sementsverksmiðjunni boðin til sölu, öll eða að hluta, skal leita samþykkis Alþingis fyrir þeirri sölu.``
    Ég tel að þetta hljóti að mega túlka sem fyrsta skref í átt að einkavæðingu vegna þess að ég sé ekki

tekið fyrir þann möguleika að þriðja aðila séu síðan seld skuldabréfin. Við getum stillt því þannig upp að hér kæmi beiðni frá bæjarstjórn Akraness um að fá að kaupa t.d. 10% af hlutabréfum verksmiðjunnar, sem ég reikna nú alveg með að yrði samþykkt hér í sölum Alþingis, þá sé ég ekki neinn vara á því að bæjarstjórnin gæti síðan selt einhverju fyrirtækinu á Skaga eða einhvers staðar annars staðar þessi hlutabréf o.s.frv. Þannig að ég hlýt að túlka þetta sem svo að þetta sé fyrsta skrefið í þessa átt og ég fagna því.