Sakadómur í ávana- og fíkniefnamálum
Miðvikudaginn 08. nóvember 1989


     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég á sæti í allshn. sem fær þetta mál til meðferðar, en vegna þeirrar beiðni sem kom fram hjá hæstv. ráðherra um að þetta mál fengi greiða meðferð í nefndinni og hér í þinginu vildi ég lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að þetta sé mál þess eðlis, eitt af stærstu vandamálum sem flæðir nú inn í landið, þ.e. dreifing, sala og neysla fíkniefna, og það sé vissulega ástæða til að auðvelda dómstólum að taka þannig á þessum málum að þau fái sem besta og hraðasta málsmeðferð. En það er einmitt það sem þetta frv. fjallar um og því vildi ég lýsa því frá hendi okkar þingmanna Sjálfstfl. sem eigum sæti í allshn. að við munum greiða fyrir því að málið fái sem skjótasta meðferð.