Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Miðvikudaginn 08. nóvember 1989


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég hef þegar talað tvisvar við þessa umræðu og skal ekki vera langorður. Það hlýtur að teljast nokkuð athygli vert að hæstv. ráðherra sér ekki ástæðu til þess að koma hér í pontu aftur til að svara fsp. sem til hans var beint. Sjálfsagt er ástæðan sú, sem maður hefur frétt af, að enn hafa stjórnarflokkarnir ekki komið sér saman um þau frv. sem fylgja þurfa fjárlagafrv., sem þýðir auðvitað það að fjárlagafrv. og öll tekjumál ríkissjóðs standa á brauðfótum, þótt það brauð sé nú kannski ekki gróft brauð, það veit maður ekki, en manni skilst að þá sé aðalíhugunarefni hjá ríkisstjórninni hvort gróft brauð eigi að njóta þeirrar náðar að af því skuli söluskattur endurgreiddur að hluta.
    En aðalerindi mitt, auk þess að benda á þá staðreynd að hæstv. ráðherra virðist ekki ætla að koma meira í stólinn, er að þakka hv. 11. þm. Reykv. fyrir að koma hér upp og gera grein fyrir sinni sérstöðu í þessu máli á undanförnum árum. Það ber að rifja upp þegar talað er um afstöðu til þessa skatts að hann var 1,1% á sínum tíma þegar Sjálfstfl. fór með stjórnartaumana, en á síðasta þingi hækkaði þáv. ríkisstjórn skattinn upp í 2,2%, en féllst síðan á, í tengslum við kjarasamninga, að lækka skatthlutfallið í 1,5%. Ég má til með að geta þess að Sjálfstfl. gekk ekki lengra á síðasta þingi en að gera tillögu um lækkun skattsins niður í 0,5% en ekki afnám hans þá.
    Vík ég þá sögunni að hv. þm. Ásgeiri Hannesi Eiríkssyni og öðrum hv. borgaraflokksmönnum sem sitja hér í hv. deild. Ég sá reyndar hæstv. dómsmrh. rétt í mýflugumynd. Hann virtist ekki tolla hér mjög lengi, sjálfsagt vegna þess að hér var verið að ræða þetta mál. ( PP: Hann er að mæla fyrir frv. í Ed.) Er hann að mæla fyrir frv.? Það kemur fram hér hjá einum hv. þm. að hann sé að mæla fyrir frv. í Ed. og skal þá hafa það sem sannara reynist að sjálfsögðu og ekki að gera mönnum upp sakir.
    En ég sný máli mínu til hv. 16. þm. Reykv., ekki síst vegna þess að hann hefur verið einn þeirra hv. þm. sem telja sig vera sérstaka fulltrúa verslunar- og þjónustustarfa. Nú liggur það fyrir að hæstv. forsrh. hefur sagt hér í umræðu fyrir ekki löngu síðan að einmitt þessar greinar hafi farið einna verst út úr þeim vandamálum sem hrjá atvinnugreinarnar hér á landi. Í ljósi þess er full ástæða til að spyrja hv. þm. hvort hann sé sömu skoðunar og hv. 11. þm. Reykv. sem hér hefur þegar tekið til máls. Finnst mér nú kominn tími til að hv. þm. geri þingheimi og þjóð grein fyrir því hver sé efnisleg afstaða hans til þessa frv. sem hæstv. ríkisstjórn stendur að, þó þannig ef ég skildi hv. 11. þm. Reykv. rétt, að frv. hafi legið fyrir þegar Borgfl. ákvað að ganga til samstarfs við ríkisstjórnina. (Gripið fram í.) Ég skildi það svo, eins og ég var að segja, að þetta frv. hefði legið fyrir þegar þingflokkur Borgfl. gekk til samstarfs við ríkisstjórnina. (Gripið fram í.) Það virðist vera rangt skilið. Þá virðist það vera þannig að Borgfl. beri ábyrgð á framlagningu frv. eins og það liggur fyrir núna og þá fýsir mig að vita

hvort það sé rétt að hv. þm. Ásgeir Hannes Eiríksson styðji þennan skatt eins og hann liggur fyrir í ljósi afstöðu annarra hv. borgaraflokksþingmanna en hv. 11. þm. Reykv., sem nú þegar hefur gert grein fyrir sinni sérstöðu, --- ég segi sérstöðu vegna þess að hv. 11. þm. Reykv. greiddi ekki atkvæði eins og aðrir hv. borgaraflokksþingmenn á síðasta þingi.