Launaskattur
Miðvikudaginn 08. nóvember 1989


     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil fá að lýsa andstöðu Frjálslynda hægriflokksins við þetta frv., jafneinfalt og það í rauninni er. Í fyrsta lagi vegna þess að Frjálslyndi hægriflokkurinn er alfarið á móti skattlagningu launa eins og launaskatturinn er og telur það reyndar hlálegt í ljósi þeirra yfirlýsinga sem berast frá forsrh. og öðrum hæstv. ráðherrum um stöðu verslunar og þjónustu og atvinnuvega yfir það heila í landinu að slík skattlagning skuli eiga sér stað. Það er reyndar þekkt að launatengd gjöld eru núna ekki undir 30% og menn geta rétt ímyndað sér hversu mjög íþyngjandi það er fyrir íslenskt atvinnulíf, enda tel ég það vera eina af meginástæðum þess að fyrirtæki virkilega halda að sér höndunum með að ráða starfsfólk, einfaldlega vegna þess að þau hafa ekki efni á að standa undir slíku. Má þá vissulega segja allt eins að ríkisstjórnin sé að stuðla að auknu atvinnuleysi með skatti sem slíkum.
    Auðvitað er það fáránlegt að fyrirtæki skuli vera skattlögð fyrir það að taka menn í vinnu og reyndar, eins og hv. síðasti ræðumaður kom inn á, þyrfti að taka alveg sérstaka umræðu um það. Það væri fróðlegt að heyra hæstv. fjmrh. sökstyðja hver skynsemin á bak við slíka skattlagningu er í raun og veru. Og það er kannski ástæða til að spyrja aftur, eins og undir síðasta dagskrárlið, hv. 16. þm. Reykv. Ásgeir Hannes Eiríksson, hver hans afstaða er til slíkrar skattlagningar. Það var ekki nokkur einasta leið að fá þm. til að svara hér spurningu varðandi skattlagningu á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Það er kannski allt í lagi að gera tilraun undir þessum lið, hver hans afstaða er til skattlagningar sem þessarar.
    Það kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns að þetta er verulega íþyngjandi fyrir allan rekstur. Þarna er verið að taka fjármagn út úr veltunni sem ekki skilar sér annars staðar en hvar --- væntanlega í hækkuðu vöruverði. Má þá enn á ný beina orðum til Borgaraflokksins hvort það fellur nú vel að baráttu hans fyrir lækkandi matarverði í landinu.
    Hæstv. forseti. Ég lýsi andstöðu Frjálslynda hægriflokksins við þetta frv. og boða að við munum leggja fram brtt. við það.