Lyfjadreifing
Miðvikudaginn 08. nóvember 1989


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir er að sumu leyti til bóta fyrir þær stofnanir sem hér um ræðir, en mér finnst vanta inn í þetta, og tala hér af eigin reynslu, stofnanir sem eru að hluta til með mikil lyfjakaup. Ég nefni t.d. Skálatúnsheimilið sem ég var framkvæmdastjóri fyrir um árabil. Lyfjakostnaðurinn er gífurlega mikill við slíkt heimili og ekki heimilt að kaupa þau í lyfjaheildsölu. Þar verður að kaupa lyfin á útsöluverði. Það mundi lækka þennan útgjaldapóst hjá slíkum heimilum ef heimilt væri að kaupa þau í heildsölu. Að sjálfsögðu væri þá lyfjafræðingur og læknir með í ráðum við þau kaup. Ég vil koma þessu á framfæri og óska eftir því að hæstv. heilbrmrh. taki þetta til umfjöllunar.