Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit
Miðvikudaginn 08. nóvember 1989


     Ragnhildur Helgadóttir:
    Herra forseti. Hér er eins og með frv. sem við ræddum áðan fáort frv. sem vekur margar spurningar. Í fyrsta lagi er nú það að ég bar þetta saman við lögin nr. 81/1988, sem þessi lög eiga að breyta. Frv. heitir: ,,Frumvarp um breytingu á lögum nr. 81/1988`` og 1. gr. þess hljóðar svo: ,,Nýr tölul. er verði 7. tölul. 29. gr.`` og síðan kemur orðalagið, 29.7, en 29. gr. laga nr. 81/1988 er ekki í neinum töluliðum. Það má segja að þetta sé formsatriði, en hún er einungis svona, með leyfi hæstv. forseta. Það frv., lög nr. 81/1988 fjölluðu um breytingu á lögum nr. 109/1984 og 29. gr. þeirra laga var svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,1. tölul. 29. gr. laganna orðist svo:
    Telji stjórn stofnunarinnar nauðsyn ráðstöfunar samkvæmt lögum þessum og viðkomandi heilbrigðisnefnd lætur ekki málið til sín taka eða gengur ekki nægilega ríkt eftir framkvæmdum þrátt fyrir ábendingar stofnunarinnar skal hún gera tillögur til ráðherra um framkvæmd ráðstöfunarinnar.``
    Þetta var um það að 1. tölul. 29. gr. orðist svo, en þetta frv. er um það að nýr tölul. verði nr. 7. Þetta finnst mér ekki vera alveg nægilega skýrt. Mér sýnist fyrirsögn frv. eiginlega ekki rétt, þannig að ég hygg nú að það ætti e.t.v. að fresta þessari umræðu og prenta skjalið upp þannig að vísað sé í rétt frv. Þetta getur valdið svolitlum ruglingi.
    En þetta vekur hins vegar spurningu um eitt og annað burt séð frá þessu atriði sem er greinilega mistök einungis í frágangi hins endanlega búnings og hlýtur að verða leiðrétt ef athugun leiðir til þess. Það hefur kannski einhver flýtir verið á hæstv. ráðherra við framlagningu þessa frv. og manni gæti dottið í hug að skýringin á þeim flýti lægi á borðinu hjá okkur og hefði einmitt verið útbýtt núna á þessum fundi. Eða hvað? Því að hér hefur verið útbýtt lagafrv. um breytingu á lögum sem fjalla um verkefni umhverfisráðuneytis. Mér hefur ekki gefist tími til að skoða það rækilega. Það er nú svo að stjórnarandstaðan er ekki virt þess að henni sé sýnt stjfrv. af þessu tagi á undirbúningsstigi, þótt mikilvægt sé. Það er í sjálfu sér ekkert nýtt af hálfu þessarar hæstv. ríkisstjórnar. En ef mér missýnist ekki við fljótan yfirlestur á því frv. þá á að flytja þessa starfsemi, þ.e. hollustuvernd og heilbrigðiseftirlit, úr heilbr.- og trmrn. Það er því eðlilegt að hæstv. heilbrrh. vilji hafa hraðar hendur við að breyta lögunum áður en hann sleppir þeim úr sinni umsjá og að nauðsynlegt þyki að koma þessu í gegn fyrir áramót. Ske kynni að hæstv. ríkisstjórn ætlaði sér að koma frv. um umhverfisráðuneyti í gegn fyrir áramót. Ella bresti forsendan fyrir ráðherrasæti eins hæstv. ráðherranna. Það er því töluvert samhengi í þessum hlutum þó að hér sé ekki um eitt og sama frv. að ræða, þessa breytingu á lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit annars vegar og breytingu á lögum sem fjalla um verkefni umhverfisráðuneytis hins vegar. Þetta út af fyrir sig er kannski atriði sem vert er að

ræða þegar að því kemur að fjalla um þetta nýja frv. sem hér hefur verið lagt fram og verður tekið fyrir að því er best er vitað með allnýstárlegum hætti hér síðar í dag.
    En svo að vikið sé að efnisatriði þessa frv. þá vill hæstv. ráðherra með lögum færa visst þvingunarvald, hálfgert lögregluvald, til ríkisstofnunar. Vissulega þurfa að vera fyrir hendi úrræði ef þverskallast er við heilbrigðisfyrirmælum og lögum og reglum um heilbrigðiseftirlit. En ég sé ekki að það sé skynsamlegt að auka á starfsemi ríkisins að þessu leyti. Ef á skortir lagatengingu að þessu leyti við heilbrigðisnefndirnar heima í héraði virðist skynsamlegra að það sé orðað greinilega að Hollustuverndin geti lögum samkvæmt falið heimaaðilum framkvæmdina og ég hafði skilið það svo að ákvæðið um úrskurðarvald ráðherra, þegar svona stendur á eins og nú er í lögunum, gæti falið þetta í sér. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að það mætti hafa þau lagaúrræði skýrari. Mér virðast samt vera öll rök fyrir því að slíkar aðgerðir séu heima á stöðunum úti um landið, það hlýtur að vera hagkvæmara, en hins vegar ef það er ríkisvaldið sem gefur þau fyrirmæli þá hlýtur aðgerðin líka að vera á ábyrgð þess. En eins og þetta frv. er orðað hefði ég haldið að þetta gæfi enn eitt tilefnið til þess að búa til nýtt kerfi innan ríkisins, í þessu tilviki Hollustuverndar. Hlýtur það að verða mjög þungt í vöfum ef aðilar hér syðra eiga að geta framkvæmt ýmsar þvingunarráðstafanir til heilbrigðiseftirlits úti um landið.
    Þetta skýrist nú e.t.v. nánar í meðferð málsins í nefnd. Mér sýnist, eins og ég benti á í upphafi, sem málið sé ekki enn í því formi að það sé hægt að vísa því til nefndar. Ég held að það sé alveg ljóst að það þurfi að prenta upp skjalið en þegar þar að kemur skal ég ekki standa í vegi fyrir því að því verði vísað til nefndar en að því yrði þá vísað til nefndar þegar það hefði verið gert og umræðunni frestað að sinni.