Frumvörp um umhverfismál
Miðvikudaginn 08. nóvember 1989


     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að mótmæla þeirri málsmeðferð sem hér á að knýja í gegn með því að taka þetta mál, málefni um umhverfisráðuneyti, á dagskrá með afbrigðum.
    Ég tel, eins og fram kemur reyndar í þskj., að hér standi flokkar ekki jafnt að vígi. Stjórnarflokkarnir ásamt Kvennalista hafa setið í nefnd sem hefur fjallað um þetta mál. Frjálslynda hægriflokknum var ekki boðin þátttaka í þessu nefndarstarfi og eftir því sem ég best veit ekki heldur Sjálfstfl., en það skiptir Frjálslynda hægriflokkinn reyndar engu máli. Við höfum því ekki haft tök á því að fylgjast neitt með málinu og við höfum ekki vitað af því fyrr en þskj. var dreift í dag. Ég tel það algjöra lágmarkskröfu að þingflokkar fái í það minnsta tíma til að lesa þingskjölin áður en þau eru knúin hér á dagskrá. Ég tel þetta ólýðræðislega að hlutum staðið og ekki þinglegt og bæði þinginu og 1. flm. til vansa. Ég fer því fram á að þetta mál verði ekki tekið á dagskrá fyrr en á næsta fundi þessarar deildar.