Stjórnarráð Íslands
Miðvikudaginn 08. nóvember 1989


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Örstutt vegna spurninga hv. síðasta ræðumanns. Í forsætisráðherratíð Geirs Hallgrímssonar, á árunum 1974--1978, var með bréfi forsrh. Gunnari Thoroddsen félmrh. falið að fara með umhverfismál fyrir hönd ríkisstjórnarinnar allrar. Ég dró þetta til baka og fól hæstv. ráðherra Hagstofu Íslands að fara með umhverfismál, gerði það bréflega, en að sjálfsögðu nær það ekki til þeirra atriða sem eru með sérstökum lögum falin öðrum, t.d. með lögum um hollustuvernd þar sem mikilvæg málefni eru falin heilbrrh. eða lögum um landgræðslu sem fela landbrh. meðferð þeirra mála. Að sjálfsögðu var tekið fram að það væri innan þess ramma sem lög leyfa.
    Ég er nú líklega einn af þeim sem hafa lesið Brundtland-skýrsluna. Það er að vísu dálítið síðan. Ég tel nefnilega að þetta frv. sé nákvæmlega í samræmi við það sem Brundtland-skýrslan leggur til, að það sé farinn þessi gullni meðalvegur, að viðkomandi atvinnuvegur og ráðuneyti viðkomandi atvinnuvegar séu inni í þessum málum áfram eins og frekast er unnt.
    Ég skal vissulega koma á framfæri við hæstv. landbrh. spurningum sem hér komu fram en ég vil hins vegar taka það fram að þetta er að sjálfsögðu lagt fram í fullu samráði við landbrh. og í skýringum við ákvæði til bráðabirgða koma fram viðbætur við álit nefndarinnar. Skýringar við ákvæði til bráðabirgða voru ekki í álitum nefndarinnar þannig að þar er það skilgreint nokkuð nánar.
    Lengi má um það deila hvar skiptingin á að vera milli eðlilegra umsvifa landbrn. Ég held að allir hljóti að vera sammála um það að eðlilegt sé að landbrn. hafi eitthvert tæki til að bæta gróður þar sem landbúnaður telur það nauðsynlegt, ekki vegna gróðureyðingar, heldur vegna bætts búskapar. Ef Landgræðslan væri öll flutt er það spurningin, á að koma upp þar einhvers staðar einhverju slíku tæki eða á að vera samstarf þaðan yfir til umhverfisráðuneytisins sem slíks? Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að mér finnst að með því samkomulagi, sem varð eftir allítarlega athugun, eftir að nefndin hafði skilað áliti um þá skilgreiningu sem kemur fram í ákvæðum til bráðabirgða, hafi verið farin mjög vel ásættanleg leið og ég vona nú að hv. þm. geti sameinast um hana.