Álag á óunninn fisk til útflutnings
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Hv. 11. þm. Reykn. Hreggviður Jónsson spyr hvort utanrrh. telji að þau ákvæði í 5. gr. laga nr. 3 frá 8. jan. 1988, efnislega að sjútvrh. geti ,,ákveðið að afli á ákveðnum fisktegundum, sem fluttur er óunninn á erlendan markað, skuli reiknaður með allt að 15% álagi þegar metið er hversu miklu aflamarki eða aflahámarki skips er náð hverju sinni``, hvort þetta ákvæði samrýmist samningum Íslands við GATT, EFTA eða Evrópubandalagið.
    Í tilefni af þessari fsp. vil ég taka fram eftirfarandi:
    Reglur um álag á óunninn fisk til útflutnings byggjast á lögum nr. 3/1988, um stjórn fiskveiða, sem kveða m.a. á um sérstakt álag á afla sem fluttur er óunninn á erlendan markað þegar meta skal hversu mikið er nýtt af kvóta skipa. Tvær ástæður eru fyrir þessu álagi og þær varða báðar sanngjarna skiptingu veiðiheimilda milli íslenskra fiskiskipa en ekki utanríkisviðskipti sem slík. Þannig væri það jafnað út ef þau kynnu nú eða síðar að vilja landa heima. 25%-hlutfallið var í upphafi einkum byggt á athugunum á frátöfum ísfisktogara frá veiðum vegna siglinga.
    Í fyrsta lagi var við upphaf kvótakerfis í ársbyrjun 1984 ákveðið að reikna þann afla sem landað hafði verið sem ísfiski erlendis með 25% álagi, einfaldlega til þess að gæta sanngirni gagnvart þeim fiskiskipum sem siglt hefðu með afla sinn til útlanda á viðmiðunartíma kvótakerfisins, þremur árum, og hefðu því haft minni afla en ella.
    Þá var það í öðru lagi ástæða fyrir því að ákveða álag á afla ákveðinna fisktegunda sem fluttar eru óunnar úr landi að þessi fiskur er ekki veginn hér á landi. Reynslan hefur sýnt að verulegur munur er á vigtun afla hérlendis og erlendis. Þar kemur einkum til rýrnun á fiski við geymslu og mismunandi vigtunaraðferðir. Álag á afla sem landað er erlendis stuðlar þannig að því að þeir sem landa afla sínum til vinnslu hér á landi sitji við sama borð og þeir sem landa afla sínum erlendis.
    Frá því að 25%-álagið var ákveðið var síðar ákveðið að lækka það í 15% en í raun eru að mínu mati gild rök til þess að halda því í 25%. Ákvæði 5. gr. laga nr. 3/1988 varða því fyrst og fremst skiptingu á kvóta til fiskveiða og felur ekki í sér mismunun á stöðu innlendra og erlendra kaupenda á fiski erlendis. Niðurstaða mín sem svar við þessari fsp. er því sú að umrætt lagaákvæði brjóti ekki í bága við alþjóðlegar samningsskuldbindingar okkar Íslendinga.