Álag á óunninn fisk til útflutnings
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessu mjög mikilvæga máli vegna þess að það er túlkun margra að ef við semjum um fríverslun með fisk, eins og við höfum reyndar gert innan EFTA og einnig gagnvart Evrópubandalagi, þá sé okkur ekki stætt á því að vera með neinar hömlur á útflutningi á ferskum fiski. Þess vegna tek ég undir það síðasta sem hv. 11. þm. Reykn. sagði að það verður að kanna þetta mál mjög nákvæmlega áður en farið er út í það að semja um frekari fríverslun með fisk þannig að við vitum hver staða okkar er. Það er ekki nóg þó að við teljum okkur eiga rétt á að leggja álag á fiskinn eða hefta útflutning. Það verður að vera öllum öðrum ljóst, okkar samningsaðilum, að það er okkar túlkun og þeir verða að sjálfsögðu þá að fallast á þá túlkun.