Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Hv. 14. þm. Reykv. spyr:
    ,,Hvernig ganga viðræður utanríkisráðherra við Mannvirkjasjóð Atlantshafsbandalagsins um hugsanlega aðild sjóðsins að byggingu fullkomins varaflugvallar fyrir alþjóðaflug yfir Norður-Atlantshafi?``
    Ég vil fyrst benda hv. fyrirspyrjanda á að engar viðræður hafa farið fram milli Íslendinga og Mannvirkjasjóðsins um þetta mál. Varaflugvallarmálið hefur verið rætt ítarlega áður á Alþingi utan dagskrár í febrúar og apríl 1989 og ég tel rétt og skylt af þessu tilefni að rifja upp meginatriðin í því sem fram hefur komið í umræðum um þetta mál hér á Alþingi.
    Hugmyndin um að byggja varaflugvöll á Íslandi eða Grænlandi sem að verulegu leyti væri fjármagnaður af Mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins mun upphaflega hafa komið fram í nóvembermánuði árið 1985. Þáv. yfirmaður flotastjórnar Atlantshafsbandalagsins lýsti áhuga sínum á því að láta fara fram forkönnun á möguleikum á byggingu varaflugvallar á flugstjórnarsvæði Íslands sem mundi þjóna flugumferð á svæðinu öllu.
    Hinn 2. jan. árið 1986 ákvað þáv. ríkisstjórn að teknar yrðu upp viðræður varnarmálaskrifstofu og samgrh. við flotamálayfirvöld Atlantshafsbandalagsins og varnarliðið og hófust þær viðræður í desember 1986 en lauk í janúar 1987. Í þeim viðræðum kom fram að varaflugvöllur yrði að nýtast fyrir allt flug er um Keflavíkurflugvöll fer nú og að öll umsjón yrði í höndum Íslendinga og að nýting varnarliðs á vellinum yrði aðeins í neyðartilvikum þegar Keflavíkurflugvöllur væri lokaður.
    Í febrúar 1987 ákvað þáv. samgrh. að íslensk forathugun yrði gerð á hugsanlegum möguleikum fyrir varaflugvöll. Skýrsla þessa efnis var birt opinberlega og er líklegt að hún geti komið að verulegu gagni ef forkönnun á vegum eða í samvinnu við Atlantshafsbandalagið yrði leyfð.
    Ég hef í starfi mínu sem utanrrh. fjallað ítarlega um þetta mál við yfirmann
flota Atlantshafsbandalagsins við þrenn tækifæri, síðast í tilefni af heimsókn Kelso aðmíráls til Íslands í septembermánuði sl. Auk þess átti ég ítarlegar viðræður við aðalframkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins í nóvember og desember á sl. ári. Í þeim viðræðum hef ég mótað þær kröfur eða þau skilyrði sem ég álít rétt að gera um undirbúning og framkvæmd forkönnunar. Í framhaldi af þessum viðræðum hefur framkvæmdastjóri staðfest skriflega, og hér vitna ég til bréfs hans, ,,að flugvöllur sá sem tillaga liggur fyrir um muni á engan hátt gegna hernaðarhlutverki á friðartímum og yrði mannaður og starfræktur af óbreyttum borgurum``. Þar lýkur tilvitnun í bréf framkvæmdastjórans. Jafnframt segir í bréfinu að slíkur flugvöllur eigi að þjóna hvers konar flugi þegar veður eða neyðarástand krefji. Bréf þetta birtist í heild í Alþingistíðindum 20. febr. sl. ásamt minnisblaði mínu til ríkisstjórnar þar sem raktar eru þarfir alþjóðlegs farþegaflugs á Norður-Atlantshafi.

    Í viðræðum mínum við forsvarsmenn Atlantshafsbandalagsins og yfirmann flota Atlantshafsbandalagsins hefur það komið skýrt fram að forkönnun felur ekki í sér neinar skuldbindingar af hálfu íslenskra stjórnvalda um byggingu varaflugvallar. Hitt er einnig augljóst að niðurstöður ítarlegrar úttektar á mögulegri staðsetningu fullkomins alþjóðlegs flugvallar eru íslenskum stjórnvöldum mikils virði alveg án tillits til þess hvort endanlega yrði tekin ákvörðun um að reisa mannvirkið sjálft. Sams konar könnunar var óskað á Grænlandi. Hún hefur þegar farið fram og niðurstöður lágu fyrir í ágústmánuði sl. en eru enn trúnaðarmál á vegum Atlantshafsbandalagsins og danskra stjórnvalda, en Atlantshafsbandalagið greiddi allan kostnað við þá könnun.
    Enn hefur ekki verið tekin endanleg afstaða til óska um heimild til íslenskra stjórnvalda til þess að forkönnun vegna hugsanlegs varaflugvallar hér á landi verði gerð á vegum Atlantshafsbandalagsins. Forræði þessa máls er í höndum utanrrh. eins og upplýst hefur verið og um það segi ég það eitt á þessu stigi málsins að ég mun taka mínar ákvarðanir að athuguðu máli, könnun á öllum staðreyndum og málsatvikum, þegar ég tel það tímabært.