Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Málefni varahernaðarflugvallar sem hér eru rædd varða það stjórnarsamstarf sem nú er við lýði í landinu. Það er tvímælalaust í mínum huga svo að forkönnun á þessu máli eða annar undirbúningur vegna varahernaðarflugvallar væri brot á samningi ríkisstjórnarflokkanna, ef í hann yrði ráðist með heimild hæstv. utanrrh.
    Ég tók eftir því í máli hæstv. ráðherra að hann orðaði það svo að ekki hefði verið tekin endanleg afstaða til óska íslenskra stjórnvalda um forkönnun og þá hjá Atlantshafsbandalaginu ef ég hef skilið hæstv. ráðherra rétt. Ég tel þetta mál mjög alvarlegt, eins og það kemur hér fram frá hæstv. ráðherra, þar sem hann gefur til kynna að hann íhugi það að leyfa þessa forkönnun. Ég vænti þess að ráðherrann íhugi mál þetta vel og lengi og átti sig á því hvernig það tengist því samstarfi sem hann er í við aðra flokka í ríkisstjórn.