Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Vegna orða hv. 2. þm. Austurl. tel ég mjög brýnt að fá að heyra álit formanns Alþb. á þeirri skoðun hv. þm. að hér varði við stjórnarslit og tel alveg nauðsynlegt að þingheimur fái að heyra þá skoðun og stefnu hans alveg skýra.
    Ég fagna hins vegar þessari fsp. og þakka fyrir hana, en beini jafnframt þeim spurningum til hæstv. utanrrh. hvaða kvaðir og hvaða kostnaður mundi fylgja því fyrir Ísland að gerast aðili að þessum Mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins og einnig þá hver yrðu hlutverkaskiptin með því að ganga inn í slíkt samstarf.