Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég veit ekki hverjir eru bláeygðir og hverjir bera einhvern veginn öðruvísi lit augnanna. En ég held að þeir menn séu ekki bláeygðir sem vilja horfa af raunsæi á aðstæður hér á okkar heimssvæði. Það liggur fyrir að þrátt fyrir þíðuna og þrátt fyrir orð Gorbatsjovs og þrátt fyrir allt sem er að gerast, þá er þyngt stanslaust á herbúnaði einmitt á Kólaskaga, næsta nágrenni við okkur. Eigum við Íslendingar ekki að fylgjast með því sem þar er að gerast? Eigum við að láta einhverjum öðrum það eftir: Er það ekki alveg ljóst að við tökum fullan þátt í starfsemi Atlantshafsbandalagsins og forkönnun varðandi milliríkjaflugvöll, þó að hann sé kannski kallaður hernaðarflugvöllur, varaflugvöllur vegna hernaðar, vegna eftirlits á okkar slóðum, er algjörlega sjálfsögð og ég harma það að hæstv. utanrrh. skuli ekki fyrir löngu vera búinn að taka þessa ákvörðun. Því er margyfirlýst hér í þessum sal, sérstaklega þó af hæstv. forsrh. að þessi ákvarðanataka sé á forræði hæstv. utanrrh.
    Ég hef lýst héðan úr þessum stól margsinnis á undangengnum árum að ég hafi vel treyst utanrrh. undangenginna ára, hverjum framar öðrum, og einmitt að því leyti að þeir hafi allir staðið dyggan vörð um hagsmuni okkar bandalags, mikilvægasta bandalags mannkynssögunnar, Atlantshafsbandalagsins, og ég vona að hæstv. núv. utanrrh. geri það. Ég er ekki að reikna með öðru. Ég hygg að hann hafi alveg bein í nefinu, svo að áfram sé nú talað um ýmiss konar líkamshluta andlitsins --- ( Utanrrh.: Þótt bláeygur sé.) Já, bláeygur er hann ekki --- að hann hafi bein í nefinu til að taka þessa ákvörðun, helst í dag.