Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Ég sé ástæðu til að skora á hæstv. utanrrh. einu sinni enn að drífa í að láta þessa forkönnun fara fram. Hann fer með þessi málefni sem heyra undir utanríkismál og hefur sem ráðherra sem fer með slík mál fullt vald til þess að láta slíka könnun fara fram. Það er hans vald samkvæmt stjórnskipun landsins og það getur enginn sagt neitt við því nema þá að menn vilji koma honum úr embætti. Það er hans hlutverk að gera þetta og það er líka hans hlutverk vegna þess að við erum aðilar að NATO. NATO er nokkurs konar lögregla lýðræðisskipulagsins. Já, sumir hlæja að því. (Gripið fram í.) Sem betur fer eru afvopnunarmál á réttri leið, en það þýðir ekkert að lýðræðisþjóðirnar eigi að lina á öryggisgæslu varðandi flugumferð í lofti. Ég vil meina það að öryggisgæslu með hernaðarumsvifum eigi einmitt að halda áfram þrátt fyrir afvopnunarviðræður. Ég sé enga ástæðu til þess að við séum svo bláeyg, af því að menn tala um blá augu, að við treystum einræðisskipulaginu með bundið fyrir augun. Það er sjálfsagt að fylgjast með flugumferð í lofti.
    Það er líka rétt að minna á að Alþingi samþykkti fyrir rúmum 40 árum varnarsamninginn milli Íslands og Bandaríkjanna með 37:13 atkv. og tveir sátu hjá. Ég tel að einn stjórnmálaflokkur sem á aðild að þessari ríkisstjórn hafi engan rétt til þess að segja að það skuli ekki farið að vilja meiri hluta Alþingis. Það er bara fráleitt. Ég held að okkur beri auðvitað skylda til þess að virða skoðanir þeirra sem eru á móti þessu hernaðarbrölti eins og þeir kalla það. En þeim ber líka skylda til þess að virða skoðanir meiri hluta þjóðarinnar og meiri hluta Alþingis, ekki síður. Ég held að við þurfum einmitt, nú á tímum erfiðs atvinnulífs á Íslandi, að fá fullkominn varaflugvöll sem stenst kröfur framtíðarinnar með öryggisgæslu, slökkvibúnað og fleira í þeim dúr. Ég vil meina að sameiginlegir hagsmunir okkar og NATO sé einmitt flugumferð í lofti og ég skora á hæstv. ráðherra að láta þessa könnun fara fram sem fyrst.