Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil bara staðfesta það sem kom fram hér hjá hv. þm., 2. þm. Austurl. og 1. þm. Norðurl. v., að það var gengið frá því að það yrðu engin hernaðarmannvirki byggð, sem ekki væri byrjað á, í þessari stjórnartíð. Ef ekki verður við það staðið eru það brigður á því samkomulagi sem gert var að mínu mati. Það er alveg furðulegt að hlusta á þessar umræður hér. Það er eins og menn geri sér ekki grein fyrir að það er verið að tala um allt annan hlut, flugvöll fyrir okkar flug eða hernaðarflugvöll. Ég hef átt þess kost að láta menn sem þekkja til segja mér hve munurinn er mikill. Það er ekkert sambærilegt. Ég verð að segja að það er merkilegt að mönnum skuli detta þetta í hug á þessum tíma sem nú er.