Karl Steinar Guðnason:
    Virðulegi forseti. Ég tel að nauðsynlegt sé að utanrrh. láti umrædda forkönnun fara fram. Við erum aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Mikill meiri hluti Íslendinga styður það og það á ekki að láta minni hlutann þvælast allt of mikið fyrir í þessu máli. Við eigum að standa við okkar skuldbindingar gagnvart þeim sem við erum í bandalagi við. Þess vegna er ekki óeðlilegt að þetta verði gert. Ég bendi á að forkönnun á svona verkefni er ekki hernaðarframkvæmd heldur aðeins könnun, og ég skora á hæstv. utanrrh. að láta að henni verða.
    Mér þykir miður að sá utanrrh. sem fyrst kom að málinu, Matthías Á. Mathiesen, hv. 1. þm. Reykn., heyktist á því að gera þetta. Hvers vegna veit ég ekki en ef hann hefði gert þetta værum við ekki að ræða þetta nú. Hann hafði fullt vald til þess en treysti sér ekki til þess.