Jóhann Einvarðsson:
    Hæstv. forseti. Það er dálítið einkennilegt stundum hvernig umræður um fyrirspurnir fara fram hér í þinginu. Þær enda sem almennar stjórnmálaumræður eða eldhúsdagur. Kannski þyrftum við að gefa okkur stundum meiri tíma til að gera slíkt hérna, að ræða almennt um hlutina. En í þessu máli er það alveg ljóst í mínum huga að það er í forræði utanrrh. að heimila eða ekki heimila að þessi forkönnun fari fram. Við getum síðan metið stöðuna þegar slík forkönnun hefur farið fram. Ég get tekið undir það með hv. 2. þm. Austurl. að í stjórnarsáttmálanum stendur að ekki skuli ráðast í nýjar hernaðarframkvæmdir hér á landi ... (Gripið fram í.) Meiri háttar. Þakka þér fyrir leiðréttinguna. Það er hins vegar alveg ljóst að slík forkönnun fellur ekki undir hernaðarmannvirki. (Gripið fram í.) Hún gerir það ekki og ef utanrrh. eða einstökum ráðherrum er ekki heimilt að láta fara fram könnun á ákveðnum málaflokkum sem þeir telja nauðsynlegt upp á framtíðina er öruggt mál að hv. 2. þm. Austurl. verður að standa við orð sín sem hann hefur haft í frammi áður í þinginu, að hér verði ekki reist ný álverksmiðja. Þar er búin að vera í gangi forkönnun í langan tíma og ef við ætlum að rjúka svona upp til handa og fóta ef ráðherrar eru að vinna að verkefnum sem tilheyra þeirra málaflokki og ef forkannanir á ýmsum vettvangi fara fram, þá verður framhaldið ekki beysið hjá okkur yfirleitt. Og ég held að það liggi líka fyrir að hæstv. forsrh. hefur lýst því yfir hér í þinginu að forræði þess að láta slíka forkönnun fara fram er í höndum fagráðherra, í þessu tilfelli hæstv. utanrrh.