Ragnhildur Helgadóttir:
    Herra forseti. Nú, þegar umræður fara fram um þetta mál, og það ekki í fyrsta sinn, spretta hér upp ýmsir hv. þm. sem gera sig bera að tvöfeldni í afstöðu. Ég kveð mér hljóðs vegna þess að ég hef stundum látið koma fram mjög eindregna andstöðu við þátttöku útlendinga eða greiðslu varnarliðs á kostnaði við lagningu vegakerfis um landið, en þegar að því kemur að athuga um þátttöku af hálfu Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins í alþjóðlegum millilandaflugvelli finnst mér málið horfa þannig við að þar sé um mál að ræða sem væri ábyrgðarhluti af íslenskum ráðamönnum að láta undir höfuð leggjast að kanna möguleika á. Það er auðvitað sjálfsagt að framkvæma slíka könnun.
    Ýmsir hv. þm. tala um að þetta eigum við ekki að gera því að slíkur flugvöllur mundi teljast hernaðarmannvirki, a.m.k. ef til ófriðar kæmi. Hvað þá um Keflavíkurflugvöll? Ég veit ekki betur en að þessir sömu hv. þm. notfæri sér þann flugvöll þráfaldlega vegna ferða milli landa. Og hvað um Reykjavíkurflugvöll? Hvaða flugvöllur er ekki hernaðarmannvirki ef út í það er farið ef til ófriðar kemur, sérstaklega ef um fullkominn millilandaflugvöll er að ræða? Það er auðvitað algjörlega ljóst og það er frá mínu sjónarmiði ekki annað en hræsni að þvo hendur sínar af þeim möguleika að eiga að standa að slíkum viðræðum því að auðvitað berum við ábyrgð á því að gengið sé frá öllum öryggisatriðum í þágu Íslands og íslenskra borgara og líka í þágu þess samstarfs sem við erum í og viljum vera þátttakendur í. Ég vil ganga lengra en hv. síðasti ræðumaður, formaður utanrmn., þegar hann segir að ef hæstv. utanrrh. hafi ekki heimild til að láta gera slíka könnun sé það auðvitað algjörlega ljóst að hann sé ekki að tala um hernaðarmannvirki, heldur eitthvað miklu saklausara mál. Ég tel að ef hæstv. ráðherra hefur ekki heimild til að láta gera slíka könnun og taka þær ákvarðanir í framhaldi af því sem honum ber embættis hans vegna, þá á hann ekki að vera utanrrh. í þessari ríkisstjórn.