Guðmundur G. Þórarinsson:
    Virðulegi forseti. Ég stend bara upp til að ítreka þá skoðun mína að varaflugvöllur sé alveg nauðsynlegur fyrir Íslendinga við þær aðstæður sem nú eru. Það hygg ég að flestum sé ljóst. En í því sambandi verða menn sérstaklega að hafa í huga að það er gríðarleg breyting að verða á millilandaflugi Íslendinga. Við erum í vaxandi mæli að fljúga hér yfir hafið á tveggja hreyfla vélum, e.t.v. innan skamms tíma eingöngu á tveggja hreyfla vélum. Að gera það án góðs varaflugvallar er mikill ábyrgðarhluti og ég verð að segja það að ég er dálítið undrandi að okkar stærstu flugfélög skuli ekki við þessar breytingar í sinni starfsemi leggja ríkari áherslu á þennan þátt við stjórnvöld.
    Þegar kemur að afvopnun og friðarmálum og hernaðarmannvirkjum vil ég aðeins segja þetta: Ég hef verið mikill talsmaður afvopnunar á Norður-Atlantshafi. Reyndar hef ég haldið að ég hafi fyrstur flutt hér inni á Alþingi Íslendinga hugmyndir um frumkvæði Íslendinga í þeim málum. ( Gripið fram í: Það er rétt.) E.t.v. eru meiri möguleikar nú, eins og ástand er í heimsmálum, til að ná tökum á þeim málum en nokkru sinni áður. En ef það tækist, þá á öll heimsbyggðin allt undir því að eftirlit yfir þessu hafsvæði sé gott. Ég hygg að nánast öll heimsbyggðin mæni þá til þeirrar sérstöðu sem Íslendingar hafa og afvopnun yrði lítils virði ef enginn treystir á hana og ekki er unnt að koma við víðtæku og öflugu eftirliti.
    Það er þess vegna mín skoðun að Íslendingar hljóti að kanna það hvort hinir gríðarlegu hagsmunir þeirra varðandi varaflugvöll og samvinna við Atlantshafsbandalagið kunni að vera Íslendingum til hagsbóta. Á þessu stigi vil ég ekki kveða upp úr um það. Viðræður hljóta að verða að skýra það og þegar mál liggja nánar og ljósar fyrir verða menn að draga ályktanir af þeim staðreyndum sem fyrir liggja.