Lífeyrisréttindi heimavinnandi fólks
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Fyrirspyrjandi (Málmfríður Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Árið 1983 var fyrst hreyft hér á hinu háa Alþingi málum heimavinnandi fólks og borin fram þáltill. um lífeyrisréttindi því til handa. Síðan hefur þessum málum verið hreyft á hverju þingi og komið fram fleiri tillögur og frv. í þá veru að rétta þessi mál. Árið 1987 lágu fyrir bæði frv. og till. um lífeyrisréttindi og endurmat á störfum heimavinnandi fólks. Félmn. Sþ. sameiginlega, sameinaði þau mál sem fyrir lágu og gerði um þau tillögu sem var samþykkt. Þáltill. um lífeyrisréttindi fjallaði um að fela ríkisstjórninni að undirbúa tillögur um lífeyrisréttindi handa þeim sem sinna heimilis- og umönnunarstörfum og leggja þær fyrir ekki seinna en 1. nóv. 1987. Þessar tillögur hafa ekki sést enn og því hef ég leyft mér á þskj. 16 að bera fram fsp. til hæstv. fjmrh.: ,,Hvað líður framkvæmd þingsályktunar um lífeyrisréttindi þeirra sem eingöngu sinna heimilis- og umönnunarstörfum sem samþykkt var á Alþingi 19. mars 1987?``
    Ég vil aðeins árétta mikilvægi þessa máls með því að taka það fram að því verður ekki á móti mælt að heimavinnandi fólk, og þá einkum húsmæður, á drjúgan þátt í þeirri verðmætasköpun sem fram fer í þjóðfélaginu og því er hart fyrir það fólk að búa við slíkt vanmat og lítilsvirðingu sem á þeim störfum er. Þau eru yfirleitt metin lægra en önnur við viðmiðun í tryggingagreiðslum og lífeyrisrétt hefur þetta fólk ekki.