Lífeyrisréttindi heimavinnandi fólks
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Guðmundur G. Þórarinsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins taka undir með hv. fyrirspyrjanda og lýsa þeirri skoðun minni að hér er um mjög mikilvægt mál að ræða. Það er auðvitað óviðunandi og óréttlátt, þegar atvik haga því þannig að annað hjóna vinnur úti, þá njóti það lífeyrisréttinda en hitt ekki. Í lífsins ólgusjó geta auðvitað margir hlutir skeð þannig að annar aðilinn að heimilinu getur staðið uppi án allra réttinda eins og ítrekað hefur skeð. Það má vera að það sé flókið að skipta lífeyrisréttindum milli hjóna, ég hygg þó að það sé réttindamál, en vegna hins litla tíma sem ég hef hér vil ég aðeins ljúka þessum orðum með því að hvetja fjmrh. til að vinna að lausn á þessu sanngirnismáli og það hið fyrsta.