Greiðslur til framfærenda fatlaðra
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson):
    Virðulegi forseti. Fsp. sú er ég ber fram varðar hag þeirra er hafa fatlaða einstaklinga undir 18 ára aldri á framfæri sínu. Fatlaðir einstaklingar þurfa oft mjög mikla umönnun og það er afskaplega misjafnt hve mikla aðstoð foreldrar fá t.d. við umönnun fatlaðra barna og unglinga og takmarkast það einkum að tvennu: Hve fatlað barnið eða unglingurinn er og hvaða þjónusta stendur til boða hverju sinni. Þar á ég t.d. við dagvistun, skólagöngu, þjálfun í umsjón fagmenntaðs fólks og annað sem boðið er upp á fyrir fötluð börn og ungmenni. Þess má geta að dagvistun fyrir fötluð börn fullnægir alls ekki eftirspurn og verið er að athuga það mál sérstaklega samkvæmt þál. sem samþykkt var hér á Alþingi.
    Reglugerð sú sem hér er spurt um tekur einkum til þess hóps sem á kost á minnstri þjónustu, jafnvel engri stundum, eins og segir í upphafsorðum reglugerðarinnar, með leyfi forseta:
    ,,Fatlaðir að 18 ára aldri sem dvelja í heimahúsum eða njóta takmarkaðrar þjónustu, en þarfnast sérstakrar umönnunar og gæslu að dómi svæðisstjórnar, eiga rétt á aðstoð. Aðstoð sú sem hér um ræðir er í formi fjárhagslegs stuðnings við framfærendur hins fatlaða svo sem nánar er kveðið á um í 3. gr. reglugerðar þessarar.``
    Í 3. gr. segir m.a. í fyrsta lið: ,,Hámarksgreiðslu samkvæmt 3. málsgr. 10. gr. fyrir 175 klst. á mánuði samkvæmt 8. taxta verkamannafélagsins Dagsbrúnar skal greiða fyrir fatlaðan einstakling að 18 ára aldri dvelji hann eingöngu í heimahúsum og njóti ekki þjónustu af hendi hins opinbera að undanskilinni heilbrigðisþjónustu og ýmiss konar heimangönguþjónustu sem ekki hefur í för með sér vistun að neinu tagi, t.d. ráðgjöf.``
    Fyrirspurn mín varðar heimildarákvæði í 2. málsgr. 4. gr. reglugerðarinnar en þessi málsgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Félagsmálaráðuneyti er heimilt, að fenginni rökstuddri umsögn svæðisstjórnar, að hækka greiðslur allt að hámarki, sbr. 1. tölulið 3. gr., mæli brýnar ástæður með.``
    Það er þetta sem ég er að vísa til í fsp. minni.