Greiðslur til framfærenda fatlaðra
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Spurt er á hvern hátt ákvæði 2. málsgr. 4. gr. reglugerðar um fjárhagslega aðstoð við framfæranda fatlaðra hefur verið beitt. Í 1. mgr. 4. gr. er heimilað að greiðsla vegna óhagræðis framfæranda t.d. vegna óreglulegs vistunartíma hins fatlaða á þjónustustofnun sé hækkuð. Í 2. mgr. 4. gr. er heimilað að hækkun slíkrar greiðslu geti farið upp í hámarksgreiðslu í báðum tilvikum, er átt við að um óreglulegan vistunartíma hins fatlaða sé að ræða. Í 2. mgr. er hins vegar gerð krafa um brýna nauðsyn sem er í samræmi við heimildina í þeirri grein til að hækka greiðslu allt að hámarki.
    Eins og að framan greinir er hér einungis um heimildarákvæði að ræða en ekki rétt. Þessu heimildarákvæði hefur verið beitt í tilvikum í samræmi við það sem ég greindi frá hér að framan svo og þegar rökstuðningur svæðisstjórnar felur í sér að um brýnar ástæður sé að ræða. Nefna má dæmi í þessu sambandi: Barn sem er ófært um að sækja skóla nema stopult vegna fötlunar og sjúkdóma og þar sem augljóst er að annað foreldrið er bundið umönnun barnsins og gæslu. Í slíkum tilvikum hafa greiðslur verið hækkaðar. Hins vegar er rétt að hér komi fram að þar sem einungis er um heimildarákvæði að ræða hefur ráðuneytið reynt að fara eftir þeirri reglu að túlka þetta ákvæði nokkuð þröngt og beita því aðeins í undantekningartilvikum. Ástæðan er fyrst og fremst sú að útgjöld vegna 10. gr. hafa vaxið gífurlega undanfarin ár og ávallt farið fram úr þeirri fjárveitingu sem er á fjárlögum hverju sinni.