Greiðslur til framfærenda fatlaðra
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Framkvæmd á þessu ákvæði er þannig háttað að það eru svæðisstjórnir sem meta þær umsóknir sem fram koma þegar óskað er eftir því að ákvæði þessarar greinar sé beitt og síðan er það félmrn. sem tekur ákvörðun í þessu máli. Mér er ekki nákvæmlega kunnugt um það í hve mörgum tilvikum umsóknum hefur verið hafnað en þá hefur það verið vegna þess að mat ráðuneytisins og svæðisstjórnar hefur verið á þann veg að tilvikið rúmist ekki innan þessarar greinar. En eins og ég mun koma að í svari mínu við fsp. sem fram verður borin hér á eftir, þá er þessi reglugerð í endurskoðun og í mörgum tilfellum, sem ég mun þá koma að í mínu máli, hefur henni verið beitt miklu rýmra en lög gera ráð fyrir.