Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Í þeirri fsp. sem hér er til umræðu er spurt um upphæð greiðslna skv. 10. gr. laga um málefni fatlaðra á ákveðnu tímabili annars vegar og hins vegar um greiðslu skv. 8. taxta verkamannafélagsins Dagsbrúnar á sama tímabili. Ég hygg að það sem fyrir fyrirspyrjanda vakir sé að fá fram hvort greiðslur skv. 10. gr. til framfærenda fatlaðra hafi verið í samræmi við 8. taxta verkamannafélagsins Dagsbrúnar. Skv. þeirri athugun sem ráðuneytið hefur gert á þessu máli munu greiðslur fram til 1. sept. 1984 hafa tekið mið af 8. taxta Dagsbrúnar. Breyting virðist hafa orðið á þessu frá 1. sept. 1984 og þegar leitað er skýringa á þeirri breytingu, þá er sú skýring gefin að breyting hafi orðið á launatöxtum Dagsbrúnar þannig að 8. taxti Dagsbrúnar, sem þessar greiðslur voru miðaðar við, var felldur niður. Svo virðist sem sú ákvörðun hafi verið tekin í framhaldi af þessu að miða hækkun á greiðslum til framfærenda fatlaðra við hækkun á bótum hjá Tryggingastofnun ríkisins. Sjálfsagt geta verið um það deildar meiningar hvaða viðmiðun ætti að taka í staðinn, en svo virðist að rökin á bak við þessa ákvörðun hafi verið þau að 8. taxti Dagsbrúnar hafi verið felldur úr gildi og því viðmiðun skv. ákvæðum laganna ekki lengur fyrir hendi.
    Ég tel einnig rétt að draga inn í þessa mynd tvo aðra þætti sem ég tel að skipti máli í þessu sambandi. Í fyrsta lagi er það meðferð skattyfirvalda á þessum greiðslum og þá sú spurning hvort hér hafi verið um ígildi launagreiðslna að ræða, sem þar með voru skattskyldar, eða bótagreiðslur Tryggingastofnunar sem ekki voru skattskyldar. Meðferð skattyfirvalda hefur verið á þann veg að greiðslur skv. 10. gr. hafa ekki verið skilgreindar sem laun af skattgreiðendum og því ekki verið greiddur skattur af þessum greiðslum. Á þetta virðist því hafa verið litið sem bætur vegna aukinnar framfærslubyrði og voru því, eins og greiðslur vegna barnaörorku, skattfrjálsar. Aftur á móti hafa bætur vegna taps á vinnutekjum almennt verið skattlagðar. Vera má að þetta hafi átt sinn þátt í þeirri ákvörðun sem á sínum tíma var tekin, árið 1984, að miða hækkanir á þessum greiðslum við almennar hækkanir í almannatryggingakerfinu og bótagreiðslum þar.
    Ljóst er einnig að ef fundin hefði verið út ný viðmiðun við launataxta Dagsbrúnar, þá hefðu þessar greiðslur verið í miklu ósamræmi við aðrar bætur Tryggingastofnunarinnar, svo sem lífeyrisgreiðslur og örorkubætur og einnig eitthvað hærri en atvinnuleysistryggingabætur. Líklegt verður einnig að telja að skattaleg meðferð á þessum greiðslum hefði verið með öðrum hætti ef um svo háar greiðslur hefði verið að ræða sem vafalítið hefði þá verið litið á sem bætur fyrir tap á vinnutekjum sem almennt eru skattlagðar. Því má vera að ávinningurinn hefði ekki orðið eins mikill og virðist mega ætla þegar bornar eru saman greiðslur til framfærenda fatlaðra á umræddu tímabili og greiðslur skv. taxta Dagsbrúnar

sem ég mun hér gera grein fyrir.
    Af athugun sem ég hef látið gera í tengslum við endurskoðun sem fram fer nú á þessari reglugerð og hefur staðið yfir á þessu ári, hefur komið í ljós að svo virðist sem nokkuð hafi verið farið út fyrir ramma laganna, þannig að hópurinn sem fær þessar greiðslur er mun stærri en ætla má af greinargerð með frv. til l. um málefni fatlaðra á sínum tíma, eða frá 1984, að löggjafinn hafi ætlast til þegar frv. varð að lögum. Í greinargerð með frv. segir:
    ,,Börn og unglingar sem haldin eru tímabundnum sjúkdómum eða gangast undir læknismeðferð og læknast falla ekki undir þessi lög. Sama gildir um þá einstaklinga sem eru með sjúkdóma af þeirri tegund að hægt er að halda þeim niðri með lyfjameðferð.
    Ef hins vegar afleiðing sjúkdóms eða slysa leiddi af sér varanlega skerðingu í þroska sem útheimtir sérstaka aðstoð og þjónustu ættu þau rétt á þjónustu skv. þessum lögum.``
    Framkvæmd laganna hefur hins vegar verið með þeim hætti að börn sem haldin eru tímabundnum sjúkdómum hafa einnig fengið greiðslu skv. ákvæðum 10. gr. Hér er um að ræða 10--11% af heildinni eða 50--60 börn. Þessir einstaklingar eiga að falla undir bætur almannatrygginga og er það nú í sérstakri skoðun hjá heilbr.- og félmrn. hvernig haga megi greiðslum til þeirra einstaklinga og framfærenda þeirra sem ekki falla undir 10. gr. laga um málefni fatlaðra. Einnig virðist svo að í greiðslum, sem geta tekið til frá 20 klst. til 175 klst. á mánuði, hafi ekki verið nægjanlega vel tekið tillit til þjónustuþarfar og þar með þyngdar- eða fötlunarstigs. Þannig var í mörgum tilfellum um að ræða að mikið fatlað barn sem naut þjónustu á stofnunum fyrir fatlaða á daginn fékk enga greiðslu nema barnaörorkustyrk, þar sem dregin var frá greiðslunni þjónusta veitt utan heimilis, jafnvel þó um mikið fatlaðan einstakling væri að ræða sem þyrfti á umönnun og þjónustu að halda nánast allan sólarhringinn. Úr þessu er verið að bæta í þeirri endurskoðun sem nú fer fram. Tekið er tillit til þess hve fötlun er mikil og þar með þörf fyrir þjónustu og umönnun.
    Greiðslur skv. 10. gr. laga um málefni fatlaðra hafa verið með eftirfarandi hætti frá 1. sept. 1984, og er þá miðað við hámarksgreiðslur eða 175 klst. en
þær geta farið niður í 20 klst. Það skal tekið fram að reynt hefur verið að teygja sig til hins ýtrasta í greiðslum til framfærenda með því að beita efri mörkunum í tímum talið í þessari viðmiðun, en allt að áttfaldur munur er á hæstu og lægstu greiðslum. Þannig hafa lægstu greiðslur aldrei verið minna en fjórðungur af hámarksgreiðslu þó heimilt sé að fara alveg niður í 20 klst.
    1. sept. 1984 voru greiðslur 34.492 kr. miðað við hámark, 175 klst. 1. sept. 1986 30.379, 1. sept. 1988 30.569, 1. sept. 1989 28.399. Hér eru allar upphæðir tilgreindar á verðlagi 1. sept. 1989 og skýringin á lækkuðum greiðslum á þessu tímabili er að árið 1984 er miðað við 8. taxta Dagsbrúnar sem síðan er felldur úr gildi eins og áður er sagt. Skýringin á lægri

greiðslum 1989 en 1986 er að tekjutrygging hefur hækkað meira en grunnlífeyrir almannatrygginga á þessu tímabili. Sé miðað við launataxta í almennri verkamannavinnu í dag væru greiðslur eftirfarandi: 1. sept. 1984 35.899, 1. sept. 1986 39.427, 1. sept. 1988 44.271, 1. sept. 1989 41.162. Allar upphæðir eru hér einnig tilgreindar á verðlagi 1. sept. 1989.
    Ég hef í svari mínu við þessari fsp. reynt að skýra hvers vegna þessi breyting hafi orðið á viðmiðun greiðslna 1984, en engar staðfestar upplýsingar liggja þar um í ráðuneytinu. Ég vil jafnframt upplýsa að í þeirri endurskoðun sem ég hef getið og nú fer fram á þessari reglugerð hefur sú viðmiðun sem greiðslurnar taka mið af verið til sérstakrar athugunar. Það er einnig rétt að geta þess að þrátt fyrir greiðslur skv. 10. gr. sem framfærendur fatlaðra einstaklinga njóta hefur það ekki skert neinn rétt til ýmissar annarrar þjónustu eða greiðslna sem síðar hafa komið, svo sem þjónustu við stuðningsfjölskyldur, skammtímavistunar 1--2 vikur í senn, fæðingarorlofs og bílastyrks og fleiri þátta í þjónustu við fatlaða.
    Einnig er rétt í lokin að geta þess að þessar greiðslur hafa vaxið gífurlega á undanförnum árum. Á árinu 1985 nutu 292 framfærendur fatlaðra greiðslu skv. 10. gr. sem var veruleg aukning í fjölda frá 1984 en heildargreiðslur á árinu 1985 skv. 10. gr. á verðlagi í september 1989 voru um 42 millj. í samanburði við 15 millj. á árinu 1984 reiknað á sama verðlagi. Í dag eru inntar greiðslur af hendi vegna 546 barna og heildargreiðslur áætlaðar fyrir yfirstandandi ár um 110 millj. Frá árinu 1985 hefur þeim einstaklingum sem greitt er fyrir fjölgað úr 292 í 546 eða um 87%.