Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir greinargóðar upplýsingar. Þó er eitt sem mig langar til þess að fá aðeins skýrari svör við og það er hvernig því víkur við að skv. hennar máli voru greiðslur 1. sept. 1989 skv. 10. gr. 28.300, en skv. þeim upplýsingum sem ég hef fengið hefur meginþorri þeirra sem taka þessar greiðslur fengið skerðingu á þessu tímabili umfram það sem hér er greint. En það er annað atriði.
    Megintilgangur þessarar fsp. var að sjálfsögðu sá, eins og hæstv. félmrh. gat um, að fá að kynnast þeirri þróun sem orðið hefur á þessum greiðslum og hver viðmiðunin hefur verið eftir að 8. taxti Dagsbrúnar var ekki lengur til eftir 1984. Það kemur mjög skýrt fram í þeim tölum sem hæstv. félmrh. nefndi að þarna hefur dregið mjög í sundur. Hér er um það lágar upphæðir að ræða að jafnvel þó þær séu skattlausar, þá eru þær fjarri því að nálgast skattleysismörkin. Ef við metum það svo að sá einstaklingur sem tekur að sér umönnun fatlaðs barns í heimahúsi sé þarna að taka við tekjum, en ekki bótum eins og ég tel að margir skilgreini 10. gr., þá hefur hér orðið mikill munur á og mikil tekjuskerðing.
    En félmrh. gat endurskoðunar á reglugerð um 10. gr. og það væri forvitnilegt að vita hvenær sú endurskoðun kemur. Það hefur heyrst að hún væri á leiðinni. Í þessari endurskoðun er að vísu ekki, eftir skilgreiningu hæstv. félmrh., tekið nákvæmlega á því máli sem ég er hér að hreyfa, þeirri tekjuskerðingu sem þeir sem sjá um umönnun fatlaðra í heimahúsum hafa orðið fyrir, heldur er, að mér skilst, vegna þess að ákvæði 10. gr. hafa verið túlkuð vítt, um þrengingu að ræða. En forvitnilegt væri einnig að vita hvort þessi nýja reglugerð mundi jafnframt leiðrétta þann tekjumun sem orðinn er síðan þessi stefna var mörkuð um að greiðslur skv. 10. gr. samsvöruðu lágmarkslaunum á vinnumarkaði.