Fjármál og fjárveitingar ríkisstofnana
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Fyrirspyrjandi (Guðmundur G. Þórarinsson):
    Virðulegi forseti. Aðeins örstutt. Ég verð að játa að þær upplýsingar sem fjmrh. hefur birt hér koma mér mjög í opna skjöldu. Ég hygg að fjármálastjórn ríkisspítalanna sé með því besta sem gerist á landinu. Þar er ákaflega öflugt kerfi til fjármálastjórnunar, öflugt eftirlit og starfsmenn Hagsýslunnar tjáðu mér nú nýverið í umræðum um þessi mál að áætlanir ríkisspítalanna væru þær bestu sem þeir fengju í sínar hendur. Fjármálaskrifstofa ríkisspítalanna hefur tjáð mér að ríkisspítalarnir hafi verið 30 millj. undir fjárlögum á árinu 1988 eða um 0,7%. Nú upplýsir fjmrh. annað og gerir hér grein fyrir því í nokkrum tölum hvað um er að ræða. Ég mun að sjálfsögðu taka þessi orð hans til athugunar og þær tölur sem hann hefur hér varpað fram og óska eftir því að fjármálastjórn ríkisspítalanna fari yfir þær og geri við þær sínar athugasemdir. En ég endurtek: Það kemur mér mjög í opna skjöldu ef tölur fjmrh. eru réttar. Það kann að vera að inngangsorð hans hér í byrjun við svari á fsp. þurfi að hafa sérstaklega í huga, að þarna geti flókin atriði unnið saman og séu eitt af því sem þurfi að hafa í huga. Um þetta vil ég ekkert fullyrða á þessari stundu, en mun að sjálfsögðu taka til skoðunar.