Samningaviðræður við EB
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Anna Ólafsdóttir Björnsson:
    Virðulegi forseti. Mig langar í framhaldi af ræðu fjmrh. að varpa fram þeirri spurningu hvernig ríkisstjórnin ætli að koma í veg fyrir að erlendir aðilar fái aðgang að íslenskum auðlindum. Ef Íslendingar gerast aðilar að innri markaði Evrópubandalagsins, eins og nú er stefnt að að því er virðist, hafa fróðar konur sagt mér það að ekki verði hægt að halda auðlindum í hafinu utan við samningana. Eftir því sem þrengir að öðrum þjóðum og færri fiskimið eru nýtileg, hrein og ómenguð, eykst þrýstingur þeirra ríkja sem veiða vilja í lögsögu okkar. Hér er stórmál á ferðinni. Við megum ekki rasa um ráð fram og því ber ég fram þessa fyrirspurn.