Samningaviðræður við EB
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Aðeins nokkur orð í þessari umræðu um þær mikilvægu samningaumræður sem kunna að fara í hönd. Það sem ég vildi helst ræða um varðar rétt einstakra ríkja í samskiptum við Efnahagsbandalagið eða löndin innan þess. Ég tek dæmi.
    Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur það hlutverk að annast skráningu þeirra efna í markaðsvörum sem eru ýmist sannanlega skaðleg lífi og heilsu manna eða talin líklegir skaðvaldar. Þessari skrá Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar er dreift til aðildarríkja, þar á meðal til ríkja Efnahagsbandalagsins. Á skránni eru á þriðja hundrað efna sem talin eru sannanlega skaðleg. Hins vegar eru aðeins rúmlega 80 þessara efna á skrá Efnahagsbandalagsins. Staðall þess er því mun lægri og frjálslegar farið með þau efni sem skaðað geta líf og heilsu.
    Öll Norðurlöndin hafa strangari kröfur í þessum efnum en Efnahagsbandalagið. Danmörk t.d. sem eitt Norðurlandanna verður þó að láta af þessum kröfum sínum vegna aðildar sinnar í Efnahagsbandalaginu. Þetta er vegna þess að ákvarðanir, reglur og lög Efnahagsbandalagsheildarinnar eru ákvörðunum, reglum og lögum einstakra aðildarríkja yfirsterkari.
    Nú eru til umræðu samskipti EFTA og EB og hvernig skuli haga ákvörðunum milli þessara bandalaga sem er mikil og stór spurning. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra --- og hann þarf ekki að svara því eins og kom fram í máli hæstv. forseta áðan en hann stingur því kannski á bak við eyrað og hugsar um það: Ber hann ekki kvíðboga gagnvart t.d. sameiginlegum dómstóli EB og EFTA með það í huga sem ég hef sagt? Telur hann nauðsyn á því að varðveita neitunarvald einstakra ríkja eins og nú er innan EFTA eða telur hann að taka eigi upp yfirþjóðlegar stofnanir til ákvarðanatöku eins og gerist innan Efnahagsbandalagsins?