Björgunarþyrla
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Hv. 5. þm. Vesturl. hefur beint til mín fsp. á þskj. 95 sem hljóðar svo:
    ,,Hvað líður framkvæmd ályktunar Alþingis frá 11. maí 1988 um athugun á kostnaði við kaup og rekstur á björgunarþyrlu?``
    Eins og fram kom í máli hans flutti hv. fyrirspyrjandi þessa þáltill. á sínum tíma ásamt tveimur þingmönnum Borgfl., þeim Aðalheiði Bjarnfreðsdóttur, hv. 11. þm. Reykv. og Guðmundi Ágústssyni, hv. 5. þm. Reykv. Það var leitað til Landhelgisgæslunnar til þess að fá svör við þeirri spurningu sem fram er borin. Þær upplýsingar sem ég mun hér gefa um þetta efni eru því frá Gunnari Bergsteinssyni, forstjóra Landhelgisgæslunnar, en í greinargerð með þál. á sínum tíma var getið um tvö atriði sem björgunarþyrla þarf að uppfylla:
    1. Þyrlan þarf að geta flogið um eða yfir 300 sjómílur frá eldsneytisstað á haf út og geta flutt allt að 20 manns miðað við þá fjarlægð.
    2. Það er grundvallaratriði að þyrlan sé búin afísingarbúnaði.
    Þessi atriði munu nánast einskorða val á þyrlu við gerðina Aero Spatiale AS-332 L Super Puma, sem þykir hafa frábæra flugeiginleika. Á undanförnum árum hafa flest ef ekki öll þyrlufyrirtæki við Norðursjó endurnýjað eða bætt við flugflota sinn þyrlum af þessari gerð sem hafa svipaða flutningsgetu og Sikorsky S-61, sem þó er einna mest notuð, bæði til flutninga og björgunarstarfa. Þyrlur af gerðinni S-61 eru án afísingarbúnaðar og eru ekki framleiddar lengur nema sérstök afbrigði til hernaðarþarfa. Breska strandgæslan notar tvær eða þrjár björgunarþyrlur af gerðinni S-61 við Shetlandseyjar og Ermarsund. Þyrlurnar eru leigðar með áhöfn frá bresku þyrlufyrirtæki fyrir um það 100 millj. kr. á ári fyrir hvert tæki.
    Til að afla upplýsinga um rekstrar- og viðhaldskostnað stórra þyrla leitaði Landhelgisgæslan m.a. til norska fyrirtækisins Helikopter Service sem á yfir 60 þyrlur, þar af 19 S-61 og 13 Super Puma. Þá var einnig könnuð reynsla þeirra á afísingarbúnaði þyrla. Fyrirtækið á 4 eða 5 Super Puma þyrlur sem höfðu í byrjun verið búnar afísingartækjum er höfðu þó verið tekin úr sambandi, m.a. vegna galla sem fram höfðu komið á búnaði stélspaða, en ekki síst vegna þess að ísingarhætta væri tiltölulega lítil á athafnasvæði þeirra við Stavanger og þar í grennd. Afísingarbúnað á aðalspöðum þyrlunnar sögðu þeir hafa reynst vel og þyrluframleiðandi hefði þegar gert nauðsynlegar endurbætur á búnaði stélspaða. Ekkert væri því til fyrirstöðu að taka afísingarbúnaðinn í notkun aftur ef ástæða þætti til þegar flug þeirra ykist við Norður-Noreg. Norska flugmálastjórnin heimilar þyrluflug með afísingarbúnað í ísingarhættu við sjó, en mun ekki heimila slíkt flug yfir landi fyrst um sinn við sömu skilyrði fyrr en meiri reynsla er fengin.
    Afísingarbúnaður mun vera talsvert viðhaldsfrekari heldur en venjulegur búnaður, en þess mun ekki gæta

verulega við rekstur björgunarþyrlu hér á landi vegna þess hve flugtímar eru miklu færri hér en hjá flutningafyrirtæki sem talið er vera um það til 1 / 4 til 1 / 3 hluti. Til samanburðar má geta þess að venjulegt þyrlublað á Super Puma mun kosta um 5 1 / 2 millj. kr. en með afísingarbúnaði nær 7 millj.
    Heildarverð nýrrar vel útbúinnar björgunarþyrlu með afísingarbúnaði og nauðsynlegum varahlutum, sem áætlaðir eru um 20% af stofnkostnaði, er á bilinu 750--900 millj. kr. Verð það sem hér er nefnt fer eftir gerð og tækjabúnaði þyrlunnar. Miðað við reynslu þyrlurekstraraðila er viðhaldskostnaður stórrar þyrlu um 50 þús. kr. á flugtíma eða um 25 millj. kr. á ári miðað við 500 flugstundir. Að vísu er erfitt að gera fullnægjandi samanburð á viðhaldsvinnu hjá flugrekstraraðila í atvinnuflugi og þjónustuflugi eins og hjá Landhelgisgæslunni. En ætla má að bæta þyrfti við einum eða tveimur flugvirkjum hjá Landhelgisgæslunni ef stór þyrla bætist í flugflotann. Þá þyrfti einnig að fjölga flugmönnum. Húftryggingariðgjald nýrrar þyrlu má búast við að yrði um 8% af tryggingarverðmæti eða um 50--60 millj. á ári eftir því hvaða tegund á í hlut. Með tilliti til þessa er ekki óvarlegt að áætla hækkun fastakostnaðar flugdeildar Landhelgisgæslunnar um 60--70 millj. kr. á ári vegna trygginga og fjölgunar starfsmanna og hækkun breytilegs kostnaðar um rúmar 20 millj. við tilkomu stórrar björgunarþyrlu. Til samanburðar má geta þess að í frv. til fjárlaga fyrir næsta ár eru áætlaðar 170 millj. til fluggæslu.