Björgunarþyrla
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég get að sjálfsögðu ekki og hef enga kunnáttu til að blanda mér í einstök atriði varðandi öryggistæki og hvað sé heppilegast í því efni. Hinu vil ég vekja athygli á að Alþingi hefur um langt skeið nánast sniðgengið sjálfa Landhelgisgæsluna. Fjárveitingar hafa verið skornar þannig við nögl að til vansæmdar er. Og ef það væri nú einvörðungu um peningamál að ræða þá er það líka það heimskulegasta sem við getum gert að láta Landhelgisgæsluna drabbast niður því það er vissulega mikið verkefni fyrir hana. Við eigum t.d. 350 sjómílur á Reykjaneshrygg sem á að verja. Og við þurfum auðvitað að gæta öryggis sjómanna og annars slíks. En ég vek athygli á því að það er alveg með ólíkindum hvað lítið er rætt um Landhelgisgæsluna og þýðingu hennar á Alþingi og hvernig fjárveitingum er hagað til hennar. Hvað sem okkur vantar mikið fé þá eigum við að styrkja Landhelgisgæsluna og gera það myndarlega.