Fjáraukalög 1989
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Sighvatur Björgvinsson:
    Herra forseti. Það gefur auðvitað auga leið að ástæðan fyrir því að fjáraukalagafrv. er flutt er sú að fjárlagaáætlun hefur ekki staðist. Það þarf ekkert langt mál til að leggja út af því. Ef áætlun fjárlaga hefði staðist hefði að sjálfsögðu ekkert fjáraukalagafrv. þurft að leggja fram.
    Ég man nú ekki eftir því ári í starfi Alþingis Íslendinga, a.m.k. ekki síðan ég fór að fylgjast með því, að ekki hafi þurft á því að halda að afgreiða fjáraukalög á Alþingi. Með öðrum orðum, ég man ekki eftir ári þegar fjárlagaáætlun Alþingis og ríkisstjórnar hefur staðist. Það er að sjálfsögðu ekkert nýmæli að svo hafi ekki heldur gerst fyrir árið 1989.
    Það sem er hins vegar nýmæli og er tímamótaviðburður er að nú gerist það í fyrsta skipti um áratuga skeið að ríkisstjórn leggur fyrir Alþingi frv. til fjáraukalaga á fjárlagaárinu. Og við skulum muna eftir því, alþingismenn, að það er ekki lengra en eitt ár síðan að verið var að leggja fram hér á þingi ríkisreikninga og fjáraukalög allt aftur til ársins 1979. Ef menn velkjast í einhverjum vafa um það hvort þetta séu tímamót eða ekki ættu menn að hugsa til þeirra atburða. Þetta getur ekki aðeins markað tímamót í samskiptum ríkisstjórnar við Alþingi og fjárveitingavaldið, heldur getur þetta einnig, ef Alþingi tekur með réttum hætti á málunum, markað tímamót í störfum Alþingis að fjárlagagerð. Það er undir okkur komið, alþingismönnum, hvort svo verður eða ekki. Hæstv. fjmrh. hefur með frv. gefið okkur tækifæri til þess að marka slík tímamót og spurningin er auðvitað sú, hvernig við nýtum það tækifæri okkar.
    Það er undarlegt til þess að vita, þegar menn hugsa til baka til alls þess tíma og allrar þeirrar fyrirhafnar sem farið hefur árlega á Alþingi í það að afgreiða fjárlög, afgreiða áætlunina um fjárhagsbúskap ríkisins og stofnana ríkisins á komandi ári, hversu lítinn áhuga menn hafa haft á því, bæði í stjórnkerfinu og hér á hinu háa Alþingi, hvernig reyndin hefur svo orðið af þessari áætlanagerð. Það eru ekki bara ríkisstjórnir sem hafa látið sig það litlu skipta, heldur Alþingi ekki síður. Menn hafa verið hér að vinna, eins og t.d. í fjvn., undanfarin ár og áratugi, dag með nóttu, við að ganga frá þessum áætlunum. Síðan, þegar fyrir Alþingi hafa verið lagðar niðurstöðurnar í fjáraukalögum og ríkisreikningi, má heita að það hafi vart alþingismaður haft fyrir því að stíga í ræðustól. Svo lítill virðist áhuginn hafa verið á hvernig áætlunargerðin hefur fram gengið í reynd. Og ég held að það hafi aldrei gerst, sem náttúrlega er hægur vandi ef Alþingi vill koma fjáraukalögum til umræðu eða alþingismaður hefur áhuga á því að koma fjáraukalagafrv. til afgreiðslu á Alþingi með hraðari hætti en ríkisstjórn, þá hefur hver þingmaður að sjálfsögðu fullan rétt til þess að leggja fram þmfrv. til fjáraukalaga, þó ekki væri nema um eitt einasta atriði, sem mundi þýða af hálfu þingsins og þingmanns þess sem fram legði slíkt frv. kröfu um að þingið tæki fjáraukalög til afgreiðslu til þess að fjalla um hvernig

áætlunarbúskapur í fjárlagagerð hefði staðist í reynd. Það hefur aldrei gerst að alþingismaður hafi látið sér til hugar koma að flytja þmfrv. til fjáraukalaga, og er það þó hægur vandi. Með því móti hefði þingmaður, sem áhuga hefði á eða hugkvæmni til, mætavel getað tekið þessi mál inn á Alþingi til umfjöllunar.
    Þetta sýnir bara, herra forseti, að það hefur ekki verið meiri áhugi hjá Alþingi að fjalla um niðurstöðu áætlanagerðarinnar en áhuginn hefur verið hjá þeim ríkisstjórnum sem hér hafa setið um margra ára skeið, og eru þar allir flokkar samsekir nema þeir sem aldrei hafa átt aðild að ríkisstjórn. Og það er furðulegt til þess að vita líka, ef maður fer yfir umræður hér á Alþingi um fjáraukalög og ríkisreikning, hversu kastað er höndunum til þeirrar afgreiðslu af hálfu Alþingis samanborið við hversu mikla vinnu og hversu mikið málaskraf fer hér á Alþingi í undirbúning fjárlagagerðar. Það er eins og að þegar fjárlögin hafa verið afgreidd sé málið búið og allt of margir, bæði í stjórnkerfinu og hér á þingi, kæra sig kollótta um hvernig áætlunin stenst síðan í reynd. Þess vegna er það tímamótaviðburður þegar hæstv. fjmrh. leggur fram á Alþingi fjáraukalagafrv. á sama fjárlagaári. Það er tímamótaviðburður af hálfu fjmrh. og ríkisstjórnar og eins og ég sagði hér áðan getur það einnig orðið tímamótaviðburður í meðferð Alþingis á slíkum málum ef Alþingi þá rís undir því að taka á þeim eins og vert er og það er næsta spurning sem við þurfum að svara sem hér erum inni.
    Auðvitað má margt að frv. þessu finna. Þetta er frumsmíð og eins og hefur komið fram bæði hjá fjmrh. og öðrum þá er margt í frv., framsetningu þess og uppsetningu sem hefði mátt betur fara og mun sjálfsagt betur fara í framtíðinni. En það er smáatriði. Það er minni háttar atriði hjá því að frv. skuli vera lagt fram með þeim hætti sem hér er gert og að Alþingi takist á við úrlausn frv. til fjáraukalaga með þeim hætti sem Alþingi á að gera. Það er meginatriði málsins. Hitt er minni háttar atriði, og menn eiga ekki að fela kjarna málsins, meginatriði málsins, með því að reyna að þyrla upp moldviðri um smærri atriði eða aukaatriði. Og ég sé ekkert eftir því, þótt ég sé ekki flokksbróðir hæstv. fjmrh., að hann fái rós í sitt hnappagat fyrir það
frumkvæði sem hann hefur að því haft og kæri mig ekkert um að reyna að hafa þann heiður af honum. Hann má eiga þann heiður. Hann er vel að honum kominn. Það er hins vegar einnig, eins og ég segi, atriði fyrir okkur alþm. að kunna að taka á þeim hlutum sem fyrir okkur eru lagðir með réttum hætti.
    Fyrst vil ég varpa fram til umhugsunar: Frv. heitir frv. til fjáraukalaga og er það í samræmi við hefðbundið orðalag og við orðalag í stjórnarskrá lýðveldisins. Það er hins vegar spurning, m.a. vegna þeirra atriða sem hér hefur verið rætt um, hvort frv. ætti ekki fremur að nefna frv. til aukafjárlaga. Orðið fjáraukalög felur það í sér að eingöngu sé verið að leggja fyrir Alþingi tillögur um aukafjárveitingar, um hækkaðar fjárveitingar og þá aðeins tillögur er varða útgjaldahlið frv. Hér hafa hins vegar, eins og frá frv.

er gengið af hálfu hæstv. fjmrh., verið lagðar fyrir breytingar við 1. gr. fjárlaga þar sem koma fram yfirlit, ekki bara yfir gjöld, heldur einnig yfir tekjur og lánahreyfingar. Hér hefur það einnig komið fram hjá hv. þm. Pálma Jónssyni, og raunar hæstv. ráðherra líka, að ástæða væri til að skoða hvort ekki ættu einnig að vera inni í fjáraukalagafrv., e.t.v. ekki fjáraukalagafrv. sem lagt er fram á því hinu sama þingi og fjárlög fjalla um, þá alltént lokafrv. sem lagt er fyrir Alþingi til lokaafgreiðslu, tillögur og yfirlit um þær ráðstafanir B-hluta fyrirtækja sem óskað er staðfestingar á. Í tilbót finnst mér einnig rétt að í slíku frv. yrði a.m.k. gerð grein fyrir nýtingu sjöttugreinarheimilda sem framkvæmdarvaldinu hafa verið veittar af Alþingi.
    Þetta eru ekki fjáraukalög í þrengri merkingu þess orðs, heldur aukafjárlög. Það er spurning hvort ekki ætti með einhverjum hætti að reyna að staðfesta þá merkingu orðsins.
    Ég vil einnig taka það fram að það hefur verið nokkuð á huldu hvernig menn vilja skilgreina annars vegar aukafjárveitingar og hins vegar verðuppfærslur vegna breytinga á verðlagsforsendum. Fjármálaráðherrar, ekki aðeins sá sem nú situr, heldur allir fjármálaráðherrar, hafa hneigst til þess að vilja túlka orðið aukafjárveiting mjög þröngt og nota það aðeins um viðfangsefni sem Alþingi hefur annaðhvort ekki fjallað um en hefur verið veitt fé til eða um viðbótarfjárveitingar til viðfangsefna sem Alþingi hefur um fjallað, en kalla allt annað verðlagsuppfærslur. Ef menn hugsa sig eilítið betur um komast menn auðvitað strax að raun um það að orðið aukafjárveiting getur ekki verið réttnefni yfir þær greiðslur sem eiga sér stað utan fjárlaga vegna þess að enginn getur veitt fjárveitingu nema fjárveitingavaldið og enginn getur veitt aukafjárveitingu nema fjárveitingavaldið. Greiðslur umfram fjárlagaheimildir geta því aldrei kallast aukafjárveitingar, heldur heita allar slíkar greiðslur eðli sínu samkvæmt greiðslur án heimilda, þ.e. greiðslur úr ríkissjóði án þess að Alþingi og fjárveitingavaldið hafi heimilað slíkar greiðslur.
    Í sambandi við það sem hæstv. fjmrh. nefndi hér áðan um nýjar verklagsreglur vil ég aðeins staðfesta það að unnið hefur verið að því í sumar af hálfu fjvn. Alþingis, eða réttara sagt undirnefndar á hennar vegum, að skoða þau mál sérstaklega, og er sú nefnd langt komin í sínum störfum og mun gera grein fyrir þeim áður en langt um líður.
    Ég vil svo aðeins, herra forseti, gera nokkrar athugasemdir í sambandi við frv. það sem hér liggur fyrir, en ítreka það að þær athugasemdir sem ég geri við framsetningu og uppsetningu eru í mínum huga algert aukaatriði hjá því meginatriði málsins að hér erum við í fyrsta skipti að takast á við frv. til fjáraukalaga á sama ári og fjárlögin eru í gildi. Það er meginatriðið þannig að athugasemdir mínar um uppsetningu og fleira ber ekki að skoða svo að ég sé með neinum hætti að draga úr mikilvægi þeirra tímamóta.

    Í fyrsta lagi vil ég taka undir þær athugasemdir sem hafa verið gerðar við III. kafla, bls. 7, þar sem rætt er um fyrirsjáanlegan greiðsluhalla stofnana. Þar er lagt til að fjmrn. fái í þessu skyni 800 millj. kr. aukagreiðsluheimild. Við skulum gera okkur það fyllilega ljóst að frv., eins og það liggur núna frammi, er af hálfu fjmrn. og fjmrh. og ríkisstjórnar síður en svo sú endanlega gerð sem þeir hafa áform um að verði lögð fyrir þingið til samþykktar. Frv. sem hér liggur fyrir er aðeins sú aðferð sem hæstv. fjmrh. og ríkisstjórn hafa kosið að hafa til að koma málinu til þingsins. Þingið og fjvn. munu síðan að sjálfsögðu skoða hvern einstakan kafla og þátt í þessum tillögum og gera við þær þær breytingar sem fjvn. og Alþingi telja eðlilegt. Því finnst mér ekki á rökum reist sú gagnrýni sem höfð er uppi hér í umræðunum að það sé ætlast til að Alþingi afgreiði frv. grein fyrir grein nákvæmlega eins og það er fram lagt af hæstv. ráðherra. Slíkt gerist t.d. ekki um fjárlagafrv. sjálft. Fjvn. og Alþingi greiða atkvæði um einstakar greinar fjárlagafrv., mjög verulega breyttar í allri uppsetningu og framsetningu frá því sem frv. gerir ráð fyrir þegar það er fram lagt. Ég minni í þessu sambandi á skipti á flestöllum framkvæmdafjárliðum, svo sem eins og framkvæmdum til hafna, til sjúkrahúsa og annarra slíkra framkvæmdaliða sem settir eru fram í einni tölu í frv. en fjvn. skiptir síðan upp og gerir tillögu til Alþingis um hvernig skipta skuli. Flm. frv. til fjárlaga, hæstv. fjmrh. í nafni
ríkisstjórnarinnar, gengur alls ekki út frá því þegar hann leggur fjárlagafrv. fyrir að þessar greinar séu samþykktar og afgreiddar af þinginu eins og þær eru í fjárlagafrv., þ.e. óskiptar. Þvert á móti er hefð fyrir því í þinginu að þessar greinar séu teknar til sérstakrar skoðunar og framsetningu og uppsetningu þeirra breytt. Að sjálfsögðu gildir það sama um það frv. sem hér er lagt fram. Hæstv. ráðherra kemur hér fram með tiltekna aðferð, tiltekna hugmynd um hvernig leggja skuli málið fyrir þingið og að sjálfsögðu mun fjvn. skoða atriði eins og þau sem fjallað er um í III. kafla, kalla eftir upplýsingum um launa- og verðlagsmál og rekstrarhalla ríkisstofnana og mun síðan leggja fyrir Alþingi þá sundurgreiningu sem fjvn. telur eðlilegt að fyrir Alþingi sé lögð til þess að þingið viti betur en hér er gerð grein fyrir hvað er verið að afgreiða á hverja einstaka stofnun fyrir sig. Þannig að ég tel ekki réttmætt að gagnrýna hæstv. fjmrh. þó að hann hafi þennan hátt á í frv. Að sjálfsögðu má skoða það síðar hvort ekki eigi að sundurliða þetta eitthvað frekar í þeim frumvörpum sem eftir eiga að koma ef aðrir fjármálaráðherrar fylgja þessu fordæmi, en ég ítreka, þetta er ekkert til þess að gagnrýna vegna þess að fjvn. fyrir hönd Alþingis hefur að sjálfsögðu fullan rétt og mun taka sér tíma til að fjalla um þessi mál.
    Með sama hætti held ég að menn verði að hugsa mjög vel þær athugasemdir sem gerðar hafa verið við IV. kaflann á bls. 7 um skattkerfisbreytingarnar, uppgjör á endurgreiðslu söluskatts vegna upptöku virðisaukaskatts. Þessi endurgreiðsla sem hér er um að ræða, greiðslutími hennar er einu ári síðar en tilefni

verður til. Þetta er eins og í því tekjuskattskerfi sem við þekktum áður en staðgreiðslan kom upp. Þá fór greiðslan fram einu ári síðar en
greiðslutilefnið átti sér stað. Sumir gátu fengið neikvæðan skatt út úr því uppgjöri þótt ekki væru þeir margir. Þegar skipt var yfir í staðgreiðslufyrirkomulagið, þá datt engum í hug að það ætti að sameina á fyrsta ári staðgreiðslutímabilsins hina nýju staðgreiðslu og síðasta árið í gamla kerfinu, enda var það ekki gert. Það sem gerist við upptöku virðisaukaskattsins er að sú tilfærsla sem menn hafa verið að gera við endurgreiðslu söluskatts tekur við á sama árinu eins og tilefni verður til en ekki árinu síðar, þannig að þetta er nákvæmlega sama eins og í staðgreiðslunni. Greiðslutímabilið er flutt á það ár þegar greiðslutilefnið verður til í stað þess að vera árinu á eftir. Það gefur auðvitað auga leið að menn geta ekki á einu og sama árinu verið að gera upp, í fyrsta lagi ,,staðgreiðsluárið`` og í öðru lagi síðasta greiðsluárið þar á undan. Þetta liggur svo í augum uppi að menn þurfa ekki að vera að velta vöngum yfir þessu. Þetta er sambærilegt við það sem gerðist þegar staðgreiðslan tók við af eftirágreiðslunni í tekjuskattinum.
    Frú forseti. Við munum að sjálfsögðu kalla eftir þeim hugmyndum sem á bak við ákvæði 4. gr. liggja, þar sem óskað er heimilda til fjmrh. að lækka gjöld skv. 2. gr. fjárlaga fyrir árið 1989 um allt að 650 millj. kr. Ég get alveg fallist á að þetta er ekki góð fjármálapólitík hjá ríkissjóði eða hjá fjárveitingavaldinu. En ég get ekki fallist á að þetta sé einsdæmi vegna þess að menn hafa oft áður gert svona afgreiðslu. Menn hafa oft áður gert þá afgreiðslu að heimila fjmrh. og ríkisstjórn ýmist að skera niður framkvæmdir ellegar að skera niður í rekstri og breyta ákvörðun þingsins í þessu sambandi, jafnvel án þess að þingið hafi haft hugmynd um það fyrir fram hvernig ætti að beita þessum heimildum. Stundum hefur Alþingi meira að segja gefið fjmrh. svona heimildir í fjárlagaafgreiðslunni sjálfri, þannig að á 6. gr. fjárlaga hafa menn, um leið og þeir hafa afgreitt fjárlögin og kveðið á um rekstrarumfang hverrar stofnunar og hvers viðfangsefnis fyrir sig og útgjöld hvort heldur er til vegamála, skóla eða hafna, haft þann hátt á að afgreiða jafnhliða heimild til fjmrh. um að breyta þessu. Öllu vitlausari getur nú ekki ein fjárlagaafgreiðsla verið en að Alþingi, fjárveitingavaldið, samþykki sjálft á sömu stundu og það ákveður útgjöldin að heimila handhöfum framkvæmdarvaldsins að breyta því, án þess að hafa hugmynd um hvernig sú breyting muni eiga sér stað. Ég held að það sé lítill vandi að finna dæmi slíks og ég held að enginn þingflokkur á Alþingi sem setið hefur í ríkisstjórn geti fríað sig ábyrgð af slíkri afgreiðslu og er þetta lýsandi mynd af því hversu Alþingi eða fjárveitingavaldið virðir stundum lítils sitt fjárveitingahlutverk.
    Frú forseti. Fyrir liggur samþykki þingflokka ríkisstjórnarinnar fyrir þessu. Auðvitað geta menn deilt um einstök atriði í þeirri framkvæmd og munu

sjálfsagt gera það. Sjálfsagt er að óska eftir því við hæstv. fjmrh. að hann leggi fram hugmyndir um þennan niðurskurð, hverjar þær eru. Ef fjvn. sýnist svo getur hún tekið þá ákvörðun að leggja það í einstökum atriðum fyrir þingið og láta greiða atkvæði um hvern og einn þátt í þeim niðurskurði. Og það sem meira er, frú forseti, það þarf ekki atbeina fjvn. til því hver einasti þm. gæti knúið fram atkvæðagreiðslu um hvern einasta þátt þessa fyrirhugaða niðurskurðar með breytingartillögum við fjárlagafrv. Það þarf aðeins einn þm. hér inni til að láta ganga atkvæði um hvert einasta atriði í þessum 650 millj.
kr. niðurskurði sem verið er að tala um. Það er eins og menn geri sér ekki grein fyrir því að þau tímamót sem hér eru orðin gera það einmitt að verkum að það stenst ekki sem hv. þm. Málmfríður Sigurðardóttir var að segja hér áðan, að ríkisstjórnin væri endanlega búin að taka allar þessar ákvarðanir, vegna þess að það þarf ekki nema einn þm., hana sjálfa t.d., hv. þm. til þess að flytja hvert smáatriði í þessum afgreiðslum hér inn á Alþingi og láta ganga hér atkvæði um það lið fyrir lið til þess að Alþingi þurfi sjálft að segja sitt síðasta orð um hvern þátt þessara mála.
    Þm. sem talar eins og hún talaði hér áðan gerir sér ekki grein fyrir hversu mikil þessi breyting er sem verið er að gera. Og svo dæmi sé tekið af stærstu viðfangsefnunum í þessari aukafjárlagasmíð eins og niðurgreiðslunum, þá er það alveg á valdi Alþingis hvort Alþingi samþykkir þær eða ekki. Ef Alþingi ekki samþykkir, þá falla niðurgreiðslur niður á íslenskum landbúnaðarafurðum frá og með þeim degi sem sú samþykkt er gerð. Þó að það sé vissulega búið að binda ýmsar útgjaldaákvarðanir nú þegar, þá eru mjög stórar útgjaldaákvarðanir sem ekki er búið að setja í framkvæmd og Alþingi getur breytt. Og það þarf ekki fjmrh. til að flytja það fyrir Alþingi, það þarf ekki fjvn. til að gera það. Hver einasti þm. getur látið ganga atkvæði um slíkt mál. Menn hljóta að sjá hvílík tímamót eru að gerast hér, ef menn hugleiða það. Menn hljóta að sjá það. ( Fjmrh.: Útflutningsuppbætur.) Menn hljóta að sjá það. --- Já, útflutningsuppbætur. Menn geta látið ganga atkvæði um það hér þannig að menn fái að taka afstöðu með eða móti hverjum einasta slíkum þætti og auðvitað verður það gert. Það getur enginn komið í veg fyrir það ef áhugi er fyrir því hjá einum einasta þm. Það þarf ekki fleiri til.
    Virðulegi forseti. Menn hafa rætt hér nokkuð, eins og eðlilegt er, að hve miklu leyti við eigum að geta lært af því frv. til fjáraukalaga sem hér er lagt fram. Og vissulega er það svo að Alþingi og fjárveitingavald, fjvn. og ríkisstjórn geta ýmislegt af þessu lært ef menn vilja læra. Ef við lítum á þá töflu sem hér hefur oft verið í vitnað, töflu á bls. 14 og menn spyrja sig eins og menn gerðu hér áðan: Hvað af þessu hefðum við átt að geta séð fyrir, þá er það auðvitað alveg ljóst að við áttum að geta séð fyrir að sú áætlun um niðurgreiðlsu matvæla sem var í fjárlagafrv. þegar það var afgreitt væri óraunhæf. Það

er alveg ljóst. Hvort hún var óraunhæf um 700 millj., 500 millj. eða 800 millj., um það geta menn deilt. Það er alveg ljóst að sú áætlun var ekki raunhæf.
    Menn geta einnig sagt sér það sjálfir að jarðræktarframlögin eins og þau voru áætluð i fjárlagafrv. voru ekki raunhæf. Sömuleiðis skuldauppgjör vegna sjúkratrygginga, sömuleiðis framlag vegna ríkisábyrgðar á laun. Þannig að það eru ýmsir þættir í þessu fjáraukalagafrv. sem eiga að geta sýnt mönnum fram á það að áætlanir okkar í fjárlagaafgreiðslunni á síðasta ári, þegar hún fór fram, voru ekki raunhæfar. Þetta eiga menn að viðurkenna. Menn eiga ekki að láta ,,bóndafanga`` sig í því, ef ég má nota slíkt orð, ár eftir ár að vera með vísvitandi rangar áætlanir í fjárlagagerð m.a. í skjóli þess að þm. virðast engan áhuga hafa á niðurstöðunum heldur bara áætlunum, og þess vegna sé allt í lagi að áætla rangt vegna þess að það nenni enginn að gera veður út af því þegar niðurstaðan kemur, eins og raunar verið hefur undanfarin ár.
    Það sem við eigum auðvitað að gera núna er að nota það frv. til fjáraukalaga sem hér er lagt fram og ríkisreikning og frv. til fjáraukalaga fyrir sl. ár sem grundvöll undir þá áætlanagerð sem er verið að vinna núna af hálfu fjvn. og Alþingis um fjárlög fyrir komandi ár, fyrir árið 1990. Nú fyrst, eftir að hæstv. fjmrh. hefur gripið til þess ráðs sem hann hefur gripið til með þessu frv., nú fyrst er hægt að smíða slíkan grundvöll að raunhæfri fjárlagagerð þegar allar nýjustu upplýsingar um útgjöld liggja fyrir. Þá reynir á okkur þm., ekki bara ríkisstjórnina, ekki bara meiri hlutann heldur á þm. alla, þá reynir á okkur að svara þeirri spurningu: Hafa menn þá bein í nefinu til þess að takast á við þann vanda sem þannig er upplýstur eða ætla menn að halda áfram að afgreiða fjárlög með óraunhæfum áætlunum um ýmsa stóra útgjaldaliði?
    Í þessu sambandi vil ég enn vekja athygli á því sem kom hér fram, hjá að mig minnir hæstv. fjmrh. eða hv. 2. þm. Norðurl. v., að á síðustu tveimur árum hefur dagvinnustöðugildum hjá ríkinu fjölgað um milli 1000 og 1300 stöðuígildum. Með öðrum orðum, ef stæði starfsmaður einn á bak við hvert stöðuígildi, sem vissulega má draga í efa vegna þess að þessi stöðuígildi eru stundum notuð af ýmsum stofnunum ríkisins til þess að fela þær viðbótarlaunagreiðslur sem stofnanirnar telja sig þurfa að greiða til þess að fá menn til starfa, en svo hefur verið á þeim uppgangstímum sem verið hafa undanfarin ár, en væri einn slíkur einstaklingur á bak við hvert eitt stöðuígildi, þá þýðir þetta það að á aðeins tveimur árum hefur mannafli í þjónustu ríkisins aukist um 1000--1300 einstaklinga. Og við skulum líka huga að því að á hverju ári, svona síðustu þremur árum, á verðlagi ársins í ár, hefur kostnaður við heilsugæslu aukist á föstu verðlagi um 400--600 millj. kr. á ári, 1000--1300 nýir starfsmenn á ári og bara heilsugæsluþátturinn 400--600 millj. kr. á ári á föstu verðlagi. Það sér það auðvitað hver maður að þetta
getur ekki gengið svona í mörg ár í viðbót. Við getum ekki tekið við, hvort sem heldur er dulbúin

launahækkun eða raunveruleg mæling á starfsmannafjölda ríkisins og stofnana þess, við getum ekki tekið við á tveimur árum 1000--1300 einstaklingum í viðbót í vinnu hjá ríkinu og stofnunum þess. Þrátt fyrir mikilvægi heilsugæsluþjónustunnar, þá getur íslenskt þjóðfélag ekki risið undir því að útgjöld hennar vegna vaxi um 400--600 millj. kr. á ári. Og hversu heitt sem við unnum íslenskri menningu, þá getum við ekki heldur haft það viðhorf sem þáv. menntmrh. hafði þegar Listasafn Íslands var opnað að það skipti engu máli hvað það hefði kostað. ( BÍG: Þetta er rangt með farið.) Þetta er ekki rangt með farið. Menn verða að gera sér grein fyrir því að ef menn ætla að ná árangri til þess að draga úr útgjöldum í ríkisrekstri, þá gerist það ekki öðruvísi en í fyrsta lagi að menn stöðvi þessa þenslu, menn stöðvi fjölgun mannaráðninga og menn dragi úr sífelldum kostnaðarhækkunum, jafnvel í jafnvinsælum og þörfum málaflokkum eins og skólamál, menningarmál og heilbrigðismál eru.
    Ég er þeirrar skoðunar, virðulegi forseti, að íslenska þjóðin hafi ekki fengið á ári hverju svo mikið bætta heilbrigðisþjónustu að það réttlæti 400--600 millj. kr. árlegan kostnaðarauka. Ekki held ég að landsmenn finni fyrir því í ár að þeir hafi á föstu verðlagi fengið bætta heilbrigðisþjónustu sína sem svarar 400--600 millj. í viðbótarútgjöld. Það er þessi þensla sem verður að stoppa vegna þess að hún skilar sér ekki í bættri þjónustu við landsmenn. Þetta er útgjaldaþensla sem ekki skapast af auknum verðmætum eða þjónustu heldur aukinni eyðslu. Þetta er það fyrsta sem við þurfum að gera til
að ná árangri. Það er að stöðva þessa þenslu. Og það er erfitt, það kostar sitt. Það kostar m.a. það að menn verða að tileinka sér þveröfug viðhorf á við þau að það skipti ekki máli hvað góðar framkvæmdir eða góð verk í þágu menningar og mennta eða heilsugæslu kosti.
    Næsta skrefið er svo að sjálfsögðu að menn geri sér grein fyrir því að það er ekki hægt að draga úr útgjöldum ríkissjóðs svo neinu nemi nema með því annaðhvort að draga úr þjónustunni sem ríkið og stofnanir þess veita ellegar með hinu að þeir sem þjónustunnar njóti borgi í auknum mæli fyrir þá þjónustu sem þeir fá. Vegna þess að menn hafa ekki verið tilbúnir til þess að taka þannig á málum, horfumst við nú í augu við það að framkvæmdir í hafnamálum eru skornar niður í fjárlagafrv. um 75 millj. kr. Framkvæmdir í sjúkrahúsmálum eru látnar vera óbreyttar í krónutölu frá sl. ári. Framkvæmdageta hins íslenska ríkis er smátt og smátt að verða að engu. Framkvæmdaféð minnkar og minnkar og menn geta ekki ráðið við nauðsynlegustu framkvæmdir sem eru bæði atvinnu- og tekjuskapandi. Af hverju er þetta? Þetta er af því að menn eru ekki reiðubúnir til þess að taka á því sem raunverulega getur skilað árangri sem er annars vegar þenslan í ríkisbúskapnum og hins vegar sú staðreynd sem ég var að lýsa hér áðan að útgjöld vegna stórra málaflokka eins og skólamála, heilbrigðismála og annarra slíkra vinsælla

viðfangsefna hækka um hundruð millj. á föstu verðlagi á hverju einasta ári án þess að almenningur verði þess var að sú þjónusta, sem þessi kerfi veita dag frá degi og síst skal vera til að gera lítið úr, án þess að hún hafi á nokkurn hátt reynst öllum almenningi betri í ár heldur en hún var á sl. ári.