Fjáraukalög 1989
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Þessi ræða sem ég ætla að flytja nú er ekki flutt vegna fjölmennis í salnum eða í þeirri von að hún hafi áhrif á þá sem hér eru inni sérstaklega, en hún er flutt til að undirstrika það að hér er að gerast sögulegur atburður. Hér er að gerast sá sögulegi atburður að fjmrh. er að skila aftur valdi til Alþingis Íslendinga sem framkvæmdarvaldið var búið að hirða í 66 ár. Raunverulega hafði íslenskt framkvæmdarvald í 66 ár bara beðið um eitt, að hér væru samþykkt fjárlög með heimildum til þess að greiða fé, en það tók sér það vald að breyta þeim fjárlögum með aukafjárveitingum eins og framkvæmdarvaldinu sýndist.
    Við skulum ekki gleyma því að átökin um það hvort framkvæmdarvaldið eða þjóðþingið ætti að hafa skattlagningar- og fjárveitingavaldið eru elstu átökin á milli þessara tveggja stofnana, elstu átökin sem kostuðu dauða kónga og kostuðu það einnig að konungar urðu að kalla þingin saman, þing sem þeir voru búnir að senda heim og vildu ekkert hafa með að gera.
    Við Íslendingar höfum búið við það, sögulega séð, að annars vegar höfðum við hér þing án framkvæmdarvalds og það endaði með ósköpum eins og við vissum. Við höfum líka búið við hitt, að við höfum haft hér framkvæmdarvald án þess aðhalds frá þinginu sem nauðsynlegt var.
    Ég hygg að tveir stærstu stjórnmálaflokkar þessa lands horfi með virðingu á ýmsa af sínum fjármálaráðherrum sem hafa setið á þessu tímabili. Ég hygg að það fari ekki á milli mála að Sjálfstfl. metur Magnús frá Mel. Það geri ég einnig, Magnús Jónsson. Ég hygg að það fari ekki á milli mála að Framsfl. metur Eystein Jónsson, fyrrv. ráðherra. Það geri ég einnig. En það verð ég að játa hér og nú að hæstv. núv. fjmrh. hefur stigið feti framar en þeir báðir vegna þess að hann hefur þorað að leggja það á sig að skila aftur valdi til þingsins sem þingsins er og taka hér við skömmum sem hinir létu tímans tönn jarða, þ.e. ríkisreikningurinn kom seint og illa, málið var ekki spennandi til umræðu lengur þó að einhverjum hefði verið rétt upphæð sem nam nokkrum milljónum til þess að flokkur hans stæði kannski betur í kosningum. Þetta eru hinar köldu staðreyndir þessa máls og ég ætla að láta það fara til hliðar hvort ég er á þessari stundu með þessum orðum að veita Alþb. stuðning í kosningum eða ekki. Ég ætla bara að hafa það hér á hreinu að ég met menn í stjórnmálum eftir því hvað þeir gera og prinsipákvarðanir eins og þessar eru þess eðlis að það er ekki hægt annað en viðurkenna þær.
    Ég ætla aftur á móti að bæta því við að þessi ákvörðun er í tveimur skrefum. Fyrri ákvörðunin fjallar um það að fjáraukalögin séu lögð fram á sama ári og ætlað er að inna ákveðna greiðslu af hendi. Seinna skrefið fjallar um það að það gerist ekki oftar á Íslandi, gerist ekki í framtíðinni, að menn greiði úr ríkissjóði fyrst og mæti svo til þingsins í von um að

þingið samþykki, vitandi samt að það er landsdómsatriði ef það er fellt sem greitt hefur verið út án samþykkis þingsins. Og mér er ljóst að miðað við ástand þessara mála þá hefur trúlega ekki verið hægt að standa öðruvísi að þessu en að taka þetta í tveimur skrefum. En ég mælist til þess að hæstv. ráðherra hafi þau ekki fleiri. Og þegar ég segi það, þá á ég við þá staðreynd að við búum við það sérstæða ástand í þessu landi að almenn virðing fyrir lögum er sennilega flestum þjóðum fremur í blóð borin en okkur Íslendingum. Hluti af því vandamáli er það að á sínum tíma var virðing fyrir lögum um leið virðing fyrir dönsku valdi og erlendu valdi yfir okkur Íslendingum. Og það sem Einar Benediktsson orðaði svo vel í Haugaeldi:

Þeir heiðruðu rétt, ---
en þeir hötuðu valdið;
þá æðri stétt,
allt sem ofar var sett,
því eðlið var baldið
með ofstopa, en ekki með prett.

    Ég hygg að Íslendingseðlinu verði ekki betur lýst á annan veg en þar kemur fram. Og það segir kannski sitt um virðingu fyrir lögum að þegar ónafngreindur sýslumaður vill segja frá skemmtilegum atvikum í lífi sínu, þá tekur hann það fram að hann hafi eitt sinn verið eltur af bíl þar sem hann var á akstri og hafi sjálfur bætt við upp í 115 km hraða, en talið að hann kæmi þá druslunni ekki hraðar og valið hinn kostinn að stöðva og búa sig undir það að taka þann sem ætlaði fram úr miðað við þessar aðstæður. Hámarksökuhraði á þeim tíma mun trúlega hafa verið 70 km. Samkvæmt þessu er yfirvaldið, sem á að framfylgja lögunum, komið meira en 50% fram úr löglegum hraða og óvíst hvort þá hefði verið látið staðar numið hefði bíltegundin sem hann ók dugað. Segir þetta okkur ekki dálítið um það hvernig hugsunin er hvað þetta snertir? Ég segi fyrir mig, mér finnst þetta kannski lýsa nokkuð vel hinum dæmigerðu vinnubrögðum sem vilja ríkja í þessum efnum.
    Þegar menn keyra fram úr fjárlögum eins og forstjórar ríkisstofnananna gera, þá er það fyrsta yfirlýsingin að fjárlögin eru vitlaus, þetta er vitlaust
áætlað, segja þeir. Eitt af því sem ég man að sá mæti stjórnmálaskörungur, Bjarni heitinn Benediktsson, sagði var að lýðræðið byggðist á því að meiri hlutinn hefði rétt til að hafa rangt fyrir sér. Og það er grundvallaratriði að gera sér grein fyrir þessu. Hafi Alþingi Íslendinga samþykkt vitlaus lög, þá hafði það rétt til að samþykkja vitlaus lög. Svo einfalt er það mál. Meðan hin vitlausu lög voru í gildi, þá er bara að virða þau. Þess vegna er það sennilega eitt af því torveldasta sem hæstv. fjmrh. verður að taka sig til og reyna að kenna stjórnendum stofnana á Íslandi að fjárlög eru ákvörðun, vafalaust ekki skynsamleg í mörgum tilfellum, en engu að síður tekin af þeirri samkomu sem á að taka þá ákvörðun, af þeim fulltrúum sem til þess voru kjörnir að taka

ákvörðunina. Frammi fyrir þessu verða stjórnendur stofnananna að standa og fara eftir því. Hitt er svo annað mál, og þar verða menn að setjast niður og skoða taflið í grunn, að við höfum útbúið stjórnkerfi sumra ríkisstofnana þannig að það virðist nánast vonlaust að stjórnandinn hafi þau stjórntæki í höndunum að hann geti stjórnað þeim. Þetta er álíka eins og ef maður er á ferðalagi á bíl niður brekku og bremsurnar eru farnar, þá er kannski hægara sagt en gert að gefa honum fyrirmæli um að hann eigi að stöðva. Ég verð að segja eins og er að það er alveg furðulegt stjórnkerfi sem við höfum útbúið á sumar stofnanir. Við höfum t.d. það stjórnkerfi yfir Borgarspítalanum, svo við tökum dæmi, að þeir tveir aðilar sem eiga að bera fjárhagslega ábyrgð á spítalanum, þ.e. ríkið og Reykjavíkurborg, meiri hluti Reykjavíkurborgar, þeir hafa tvo fulltrúa, en hinir hafa þrjá í stjórnkerfi spítalans, minni hlutinn í borgarstjórn einn og fulltrúar starfsliðs tvo.
    Ég verð nú bara að segja eins og er að mér sýnist að það sé erfitt að halda um pyngjuna undir þeim kringumstæðum, enda eins og frægt var þegar samþykkt var að senda fulltrúa til Ástralíu hér um árið frá þessum spítala, þá greiddi fulltrúi borgarsjóðs, sem átti að borga, þ.e. meiri hlutinn greiddi atkvæði gegn því og ég held sömuleiðis fulltrúi ríkisins, sá sem átti að borga, en hinir þrír voru sammála um að það bæri að gera þetta. Svona stjórnkerfi gengur ekki upp. Og við þurfum náttúrlega að setjast niður og hugleiða það í fullri alvöru hvort það þurfi ekki að endurskoða margt í stjórnkerfi hjá íslenskum ríkisstofnunum.
    Ég ætla að bæta því við af því að einn þingmaður hefur setið lengur í fjvn. en nokkur annar hér á Alþingi þó að hann sé hættur þar störfum í dag að í einni af sínum seinustu ræðum, ég man ekki hverri, um fjárlagafrv. mun hann hafa bætt við ágætan málshátt nokkrum orðum: Dag skal að kveldi lofa og mey að morgni, en fjárlög ei fyrr en að ári. Ég hef nefnilega hlustað á svo marga fjármálaráðherra flytja hér ákaflega lofsamlegar tölur um það frv. sem þeir hafa verið að leggja fram og fengið svo að skoða ríkisreikninginn seinna og fundist að það hefði verið betra að þeir hefðu fylgt frumvörpunum eftir með hógværari orðum.
    Þetta segi ég hér og nú, m.a. vegna þess að jafnánægður og ég er með það að þetta fjáraukalagafrv. skuli hafa verið lagt fram, jafnsleginn er ég yfir því eins og vafalaust margir aðrir þegar ég sé framan í hvaða upphæðir menn þurfa að horfa til þess að komast að niðurstöðu, eðlilegri niðurstöðu með greiðslur á þessu ári. Ég held að það sé mikið alvöruefni hjá okkur Íslendingum, og get þar tekið undir margt í ræðu hv. 5. þm. Vestf., hvað við höfum forðast að horfast í augu við þá staðreynd að við hrúgum fram góðum málum, bæði hér á Alþingi og annars staðar, og hikum ekki við að verja til þeirra fjármunum án þess að hafa til þess þrek að innheimta þá fjármuni hjá þjóðinni sem duga fyrir þessum útgjöldum. Ef við teljum að við getum ekki gengið

lengra á skattheimtubrautinni, og vissulega eru hart rekin tryppin í þeim efnum, það sjá menn ef þeir skoða bæði stöðu fyrirtækja í landinu og einnig þann mikla fjölda einstaklinga sem gerðir hafa verið gjaldþrota, þá verðum við að snúa við og segja: Þetta er gott málefni en við höfum ekki efni á því að framkvæma það strax. Ég held aftur á móti að líka sé óhjákvæmilegt að taka undir það hjá hv. 2. þm. Norðurl. v. að það er ekki skynsamlegt og brýtur réttlætisvitund manna, þegar menn horfa á jafnstórar tölur og lagðar eru hér fram til fjáraukalaga, að vera þá jafnframt að skera niður smátölur í fjárlögunum sem
snerta litlar framkvæmdir sem eru stórar á þeim stöðum þar sem ætlunin var að þær yrðu framkvæmdar.
    Herra forseti. Ég ætlaði mér ekki að flytja hér langa ræðu og er sennilega búinn að tala of lengi og lýk hér máli mínu.