Fjáraukalög 1989
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Ég tek undir það með hv. síðasta ræðumanni að hér er á ferðinni ágætis mál, en mér finnst satt að segja eitt einkennilegt við það. Það er að hv. formaður fjvn. taldi hér að þessi ríkisstjórn ætti einhvern sérstakan heiður af því að þetta skuli líta hér dagsins ljós, og það kemur reyndar fram í máli fleiri manna sem styðja þessa hæstv. ríkisstjórn að þeir telja sér einhvern sérstakan heiður að þessu. Ég spyr: Hvað með skyldurnar? Væri ekki nær að spyrja að því? Mér finnst það frekar á lágu plani þegar menn telja sér það sérstakan heiður að virða stjórnarskrá landsins. Og manni finnst það svona frekar einkennilegt að það skuli ekki hafa verið gert í þessi 67 ár. Það finnst mér furðulegt.
    En forsaga þessa máls er sú, eins og ég upplýsti hæstv. fjmrh. um um daginn, að ég gerði athugasemdir við Ríkisendurskoðun í fyrra, fyrir meira en ári síðan, um það hvers vegna þessi fjáraukalög hefðu ekki verið lögð fram eða hvar þessar heimildir væru. Ríkisendurskoðun veit ég að ráðlagði hæstv. fjmrh. að leggja þetta fram og þannig fór þetta allt saman af stað. Það er nú sannleikurinn í málinu. Og ég tel mér engan sérstakan heiður að því. Ég tel hins vegar að þingmenn séu skyldugir að virða það drengskaparheit sem þeir hafa undirritað að stjórnarskrá landsins og ég hef nokkrum sinnum minnt á hér. Hæstv. fjmrh., sem telur þetta mikinn heiður fyrir sig, hefur undirritað þetta drengskaparheit líka.
    Ég verð að segja það að þær tölur sem koma hér fram í frv. til fjáraukalaga sýna að það verður halli á fjárlögum upp á 8 milljarða 152 millj. kr. Ég vil meina að þessi halli verði kannski meiri. Ég hefði óskað eftir því að hæstv. fjmrh. svaraði þessari spurningu: Hvað með neikvæða stöðu Verðjöfnunarsjóðs upp á 1 1 / 2 milljarð? Ég spurði hann að því hér í umræðum um fjárlögin um daginn. Það komu ekki nein svör við því. Er hægt að bóka þetta sem eign ríkissjóðs og sem tekjur hjá fiskvinnslunni? Ég vil meina að þetta eigi að færast til gjalda í ríkisreikningi og hæstv. fjmrh. er að ég best veit að hluta til sammála því sjálfur vegna þess að hann talaði um það við umræðu um fjárlögin í fyrra að hann ætlaði að nota hagnaðinn af fjárlögunum til þess að fylla upp í þetta gat ef ég man rétt. Sá hagnaður varð hins vegar ekki að 800 millj. kr. hagnaði eða tekjuafgangi heldur 8 milljarða halla eins og kunnugt er. Það hefur raunverulega engan tilgang að vera að skammast mikið út í fortíðina. Það er nær að huga að framtíðinni og ég vona að þessi breyting sem hér er orðin í meðferð þingsins varðandi fjármálastefnu ríkisvaldsins verði til góðs. Mér hefur að mörgu leyti fundist Alþingi frekar undirokað af framkvæmdarvaldinu og það er tími til kominn að það verði tekið svolítið í taumana í þeim málum og að þjóðþingið verði sjálfstæðara í vinnubrögðum og þetta getur orðið liður í því.
    Ég verð að segja að frv. hefði mátt líta fyrr dagsins ljós því að nú á það eftir að fara fyrir nefnd

og koma síðan aftur þaðan, og hvað verður þá mikið eftir af árinu þegar það er komið? Verður þá ekki bara búið að eyða þessu öllu þegar búið er að samþykkja þetta? Þá er þetta að vísu aðeins í áttina, en þetta hefði mátt leggja fram strax í upphafi þings eins og búið var að fara fram á.
    Það vantar enn fremur fjáraukalögin fyrir 1988. Vill hæstv. fjmrh. vera svo vænn að svara því hvenær stendur til að leggja þau fram? ( Fjmrh.: Alveg á næstunni.) Alveg á næstunni, segir hann. Þá fáum við að sjá hvernig síðasta ár kom út. En ég verð að segja það og ítreka það að Alþingi sem löggjafarsamkoma þjóðarinnar þarf að taka framkvæmdarvaldið fastari tökum í framtíðinni, bæði hvað snertir fjármál og ýmislegt fleira. Ég ætla að láta þau orð verða mín síðustu orð í þessari umræðu.