Fjáraukalög 1989
Fimmtudaginn 09. nóvember 1989


     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja þessa ræðu mikið enda ekki þekktur fyrir það að halda langar ræður. Ég vil kannski koma strax inn á það sem hv. síðasti ræðumaður fjallaði lítillega um, það var 6. greinin, og taka undir þá skoðun sem kom fram hjá fjmrh. að hún ætti helst sem allra fyrst að heyra sögunni til og að við ættum hér að hafa það sem kallast rammafjárlög. Þessu er ég mjög sammála en tel hins vegar að þá beri að gæta að því að fjárveitingar til ráðuneyta og þeirra stofnana sem fá fjárveitingar innan slíkra fjárlaga verði þá nógu rúmar til þess að mæta áföllum. Hins vegar er það mín skoðun að verði um meiri háttar útgjöld að ræða sem ríkið þarf að standa fyrir, þá á skilyrðislaust að kalla þing saman og láta það taka ákvörðun um það mál. Og það hlýtur að mega gera það með skjótum hætti.
    Ég vil nú, eins og aðrir, svona í upphafi fá að þakka sérstaklega tveimur aðilum fyrir það að hér er lagt fram frv. til fjáraukalaga, þó ég persónulega hefði viljað sjá það aðeins fyrr á ferðinni og helst á fyrstu dögum þingsins. Þá vil ég náttúrlega þakka hæstv. fjmrh. fyrir það og tel að þetta sé vissulega skref í rétta átt. Og ég leyfi mér líka að þakka hv. þm. Kristni Péturssyni, sem hefur einarðlega unnið að þessu máli og vissulega hlýtur að eiga sinn skerf í því að það er komið þó þetta langt.
    Á síðasta þingi mælti hæstv. fjmrh. fyrir sínum fjárlögum eins og lög gera ráð fyrir og var nokkuð stoltur af þó hann yrði nú að lækka tekjuafganginn niður í 600 millj. En eins og hv. þm. Geir H. Haarde fór hér yfir þá rökstuddi hann það, eftir því sem nú hefur komið í ljós, með afar veikum rökum. Það vita allir hvernig fór. Það er áætlað að nú verði halli á ríkissjóði sennilega á milli 5 og 6 milljarðar. Útgjöld ríkissjóðs hafa gjörsamlega farið úr böndum. Þannig eru útgjöld umfram fjárlög núna 8,2 milljarðar má segja, og þætti saga til næsta bæjar í almennum atvinnurekstri eða innan stofnana ríkisins ef eitthvað viðlíka ætti sér stað þar. Það er auðvitað réttmæt spurning að spyrja hvers lags fjármálastjórn þetta er eiginlega. Í öllum venjulegum fyrirtækjum væri slíkur fjármálastjóri fyrir löngu fokinn. Það væri fyrir löngu búið að reka hann, enda ætti þessi umræða miklu frekar að standa um það hvort fjmrh. á að sitja áfram eða ekki. Fjmrh. sem leggur á 7 milljarða nýja skatta sl. ár, fjmrh. sem ætlar að skila ríkissjóði með 600 millj. kr. tekjuafgangi en kemur svo hér á fyrstu dögum þingsins með halla, í dag, upp á rúmlega 5 milljarða, hvað sem þeir verða þegar árið er úti. Með umframútgjöld upp á 8,2 milljarða. Það hlýtur að vera spurning: Á svona maður virkilega að vera í þeirri trúnaðarstöðu að fara með fjármál ríkisins? Ég segi alveg hiklaust nei. Svona maður á alls ekki að fara með þau. Og hvað kostar það hinn almenna skattborgara í landinu að hafa slíka fjármálastjórn? Stórfé --- og er hann nú ekki of vel settur þessa dagana.
    Þetta plagg sem hér liggur fyrir er afar óskýrt

plagg. Það er mikið um fyrirsagnir en lítið um skýringar. Það kemur ekki fram hvað er greitt og hvað er ógreitt. Það er frumskilyrði að slíkar upplýsingar liggi fyrir. Það er líka skilyrði, eins og ég hygg að hafi komið fram hjá hv. þm. Pálma Jónssyni, að það þarf að liggja hér listi frammi yfir aukafjárveitingar. Það er athyglisvert þegar maður flettir þessu frv. að þar kemur margoft fram að útgjöld séu vegna kjarasamninga. Ég minnist viðbragða hæstv. fjmrh. eftir að þeir samningar voru afstaðnir þar sem hann sagði að þeir rúmuðust innan ramma fjárlaga. Ég fæ ekki séð að þau orð hafi verið sönn. Það er ekki nokkur einasta leið, bara við það að lesa þetta plagg hér, að ímynda sér að fjmrh. hafi í rauninni haldið að kjarasamningarnir væru innan ramma fjárlaga.
    Nú kemur hæstv. fjmrh. hingað í þingið með þó þetta ágæta frumkvæði og biður þingið að leggja blessun sína yfir það. Hann kemur með skottið á milli lappanna vegna þess að hann missti gjörsamlega stjórn á fjármálum ríkisins. Og nú kemur hann og biður þingið og þingmenn að taka ábyrgð á þessu með sér. Auðvitað ber fjmrh. fyrst og fremst, og náttúrlega ríkisstjórnin í heild, ábyrgð á þessu.
    Þegar maður flettir yfir þetta eru fjölmargir punktar sem má svona hnippa í. Ég ætla nú ekki að fara í þá marga. Mig langar samt að spyrja, af því hér er nú farið víða ofan í jafnvel smæstu liði þó það sé ekki alltaf brotið upp eins og ég kom hér inn á áðan, hvar er t.d. gert ráð fyrir danska sérfræðingnum hans hæstv. hagstofuráðherra? Einhver hlýtur ferðakostnaðurinn að vera fyrir hann. Ég hefði haldið að hann þyrfti að vera þarna inni alveg eins og hér einhvers staðar í plagginu er farið fram á heimild til að greiða fyrir barneignarorlof eða eitthvað slíkt, ekki man ég nú nákvæmlega orðið á því, en ég hygg að ráðherra viti alveg hvað ég er að fara. (Gripið fram í.) Já, hvar sem það nú aftur var í frv.
    Ég, eins og hv. þm. Geir Haarde, rak strax augun í það að það er reikningsskekkja undir liðnum Forsætisráðuneytið 01 sem munar eitthvað um 20 þús. kr. sem í sjálfu sér er ekki neitt og við skulum vona að það verði þá fært á tekjumegin. Ég hlýt hins vegar að vona að slíkar reikningsskekkjur séu
ekki víða í frv. því að þá væri varlegt að treysta því. En þegar því er flett kemur náttúrlega ýmislegt athyglisvert í ljós. Á bls. 9 er talað um 4,8 milljarða rekstrarhalla á ríkissjóði í lok þessa árs. Það er þegar ljóst með framlagningu þessa frv. að þetta er röng tala. Það kemur fram hér í einföldu reikningsdæmi.
    Það sem gerir þm. verulega erfitt fyrir er það að meginhluta þeirra fjárveitinga sem farið er fram á hér er búið að ákveða og verður í sjálfu sér ekki breytt og hitt að þm. vita ekki hvað hefur verið greitt og hvað er ógreitt. Hér kemur fram á bls. 15 undir kaflanum Magnbreytingar vegna samninga, sem mér þótti nokkuð athyglisvert, en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Þyngst vegur 520 millj. kr. aukin fjárhæð til útflutningsbóta en óhjákvæmilegt reynist að flytja út

meira magn kindakjöts en áætlað var.``
    Það sem ég rak augun í þarna var að það skyldi vera svona óhjákvæmilegt að flytja út. Ég fyrir mitt leyti er mjög inni á því að við eigum að setja kraft í okkar útflutning og sérstaklega á landbúnaðarafurðum þó að það sé því miður ekki stjórnarstefnan í dag. Að vísu kom hæstv. hagstofuráðherra inn á það í
sinni ræðu um daginn að hann vildi setja kraft í útflutning á þessum vörum. En hér er þetta sett fram sem einhver afsökun, að því miður urðum við að fara að flytja út.
    Aðeins neðar er komið inn á það en þar segir, með leyfi forseta,:
    ,,Áætlað er að greiðslur ríkissjóðs vegna ríkisábyrgða á launum einstaklinga hjá gjaldþrota fyrirtækjum muni nema um 185 millj. kr. umfram fjárlög.`` Þarna tel ég að stjórnarstefnan komi mjög glögglega og skýrt í ljós. Gjaldþrot fara hér sívaxandi eins og allir vita og það er upplýst nú nýlega í umræðu hér á þingi að að mati forsrh. á verslun og þjónusta sennilega í hvað mestum erfiðleikum. Þar er fólk vissulega að missa vinnu og fyrirtæki að fara á hausinn, verða gjaldþrota í gríð og erg. Og það birtist hér svart á hvítu í frv.
    Síðan er hérna á bls. 17 hluti af reikningnum frá Borgfl. um stofnun umhverfisráðuneytis upp á 8,3 millj. Það er kannski ekki mjög há tala, enda sagði ég það hér í þinginu sl. vetur þegar við vorum að segja skilið við þann flokk að það stæði ekki hátt verð á þeirra verðmiða.
    Ég hef nú ekki setið undir þessum umræðum í allan dag. Ég veit ekki hvort einhver minntist á þátt Helenar Caldicott, en ég get ekki látið hjá líða að koma aðeins inn á það. Hér er farið fram á heimild til að styrkja hóp kvenna sem stóðu fyrir komu þessarar merku konu, Helenar Caldicott. Samkvæmt því sem hér er útlistað, þá er beðið um það sem kallað er gjarnan á mjög slæmri íslensku ,,blanko`` ávísun. Hér kemur engin upphæð fram, heldur aðeins farið fram á heimild til að styrkja þennan hóp kvenna. Það kemur ekki fram hér, hæstv. ráðherra. Ég leyfi mér náttúrlega að spyrja: Get ég átt von á styrk ef ég fengi t.d. Margaret Thatcher til þess að koma hér upp og ræða við okkur ögn, ég tel að Frjálslyndir hægrimenn hafi mjög gott af því. Ég minni þá þingheim á það að Helen Caldicott viðhafði þau orð um Margréti Thatcher að hún væri ekki kvenmaður þannig að það hlýtur að vera mjög forvitnilegt að fá að líta þennan furðugrip augum. ( Fjmrh.: Þetta er nr. 999 192 bls. 4 í frv.) 500 þús. kr.? ( Fjmrh.: 100 þús. kr.) Þá er það upplýst að þessi styrkur sem þarna er verið að óska eftir heimild til er upp á 100 þús. kr.
    Ég gagnrýni líka að styrkja UNIFEM, sem er hjálparstarf Sameinuðu þjóðanna fyrir konur í þróunarlöndum, um 620 þús. kr. Ég er alveg sammála því að styrkja þróunarlönd, en ég sé ekki ástæðu til að styrkja konur þar sérstaklega og þetta lét ég reyndar koma í ljós þegar þeirra ágæti fulltrúi var hér að ræða við okkur.
    Það er búið að koma inn á þær 3,3 millj. sem

veittar voru til Silfurstjörnunnar eða veittar voru til hv. þm. Stefáns Valgeirssonar. Ég hefði nú talið að hann væri orðinn brátt fullmettur úr opinberum sjóðum og vona að þetta verði lokaframlagið í þá áttina.
    Hæstv. forseti. Mér fannst líka allfurðulega til orða tekið hér á bls. 19 undir kaflanum 07 Félagsmálaráðuneyti, þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Vegna aðalskrifstofu er farið fram á 700 þús. kr. til greiðslu á launum starfsmanna á vinnumálaskrifstofu vegna mikils álags við afgreiðslu á launum vegna gjaldþrota.`` Nú skil ég vel að það þurfi að greiða fyrir aukna yfirvinnu, það þurfi að greiða fyrir helgidagavinnu eða eitthvað slíkt. En að þurfa að fara að greiða fyrir aukið álag sem væntanlega er innan venjulegs vinnutíma, ég næ því ekki alveg. Ég óska nú hreinlega skýringar á því. Fáum við þm. kannski hærri laun fyrir aukið álag? Ég hef ekki orðið var við það. Ég hef hvergi orðið var við þetta í almenna launageiranum. Ef þetta þýðir hins vegar aukin vinna, ef þetta þýðir eftirvinna, næturvinna eða eitthvað slíkt, þá skil ég þetta.
    Það kemur á bls. 21 svona áframhald á reikningi Borgaraflokksins til ríkisstjórnarinnar þar sem farið er fram á 1,7 millj. kr. vegna nýrrar stöðuheimildar vegna Hagstofu Íslands. Ég veit nú ekki við hvern þarna er átt. Ég hygg að aðstoðarmaður hagstofuráðherra sé líka framkvæmdastjóri þess flokks
og það er spurning hvort þarna sé átt við hann og hvort nú sé nýr Trausti fæddur. ( Fjmrh.: Ef þm. hefði lesið frv., þá sæi hann að þetta er vegna útreikninga á launavísitölunni.) Ég hef lesið það hér, hæstv. fjmrh., það stendur ekkert nafn við það, hver á að annast það verkefni, hvort það er Dani eða Íslendingur, það hef ég ekki hugmynd um. ( Fjmrh.: Það er starfsmaður Hagstofunnar.)
    Hæstv. forseti. Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. Ég skal endurtaka það að ég fagna því nýja skrefi sem er stigið með framlagningu slíks frv. Ég óska þess hins vegar að það væri fyrr á ferðinni og hendur þm. væru ekki eins bundnar í framtíðinni eins og þær eru í þessu tilfelli í dag.