Innheimta söluskatts af tryggingaiðgjöldum
Mánudaginn 13. nóvember 1989


     Jóhann Einvarðsson:
    Hæstv. forseti. Það er nú að verða hálfur mánuður síðan ég bað um utandagskrárumræðu um þetta málefni. Þá var mér að sjálfsögðu ekki kunnugt um þá umræðu sem fer fram hér á eftir um frestun eða ekki frestun á gildistöku virðisaukaskattslaganna þannig að þessi umræða er alveg sjálfstæð burtséð frá þeirri umræðu sem hér fer fram á eftir.
    Á miðju ári 1988 voru sett hér á Alþingi lög um virðisaukaskatt. Skýrt er tekið fram í 2. gr. þeirra laga að eftirtalin vinna, þjónusta og vara er undanþegin virðisaukaskatti og í 9. tölul. er talað um vátryggingarstarfsemi. Gildistöku þessara laga er síðan frestað til 1. jan. nk. en eins og segir í gildistökuákvæði þessara laga: ,,Lög þessi öðlast þegar gildi, en skattheimta skv. þeim kemur eigi til framkvæmda fyrr en 1. júlí 1989`` sem síðan er breytt í 1. jan. 1990. ,,Frá þeim tíma falla úr gildi lög nr. 10/1960, um söluskatt, með síðari breytingum. Ákvæði þeirra laga skulu þó gilda um söluskatt af sölu til og með 31. des. 1989.``
    Í greinargerð með lögunum um virðisaukaskatt segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Skv. 9. tölul. 3. mgr. er vátryggingarstarfsemi undanþegin skattskyldu. Aðalástæðan fyrir því að undanþiggja vátryggingarstarfsemi er að hún er í eðli sínu alþjóðleg og er undanþegin víðast hvar erlendis. Undanþágan er því nauðsynleg af samkeppnisástæðum, enda er óframkvæmanlegt að skattleggja einstakar tryggingar sem innlendir aðilar kunna að kaupa af erlendum vátryggingarfélögum.
    Enn fremur eru oft vissir tæknilegar örðugleikar á því að reikna virðisaukaskatt í þessari grein. Þá styðja félagsleg sjónarmið þessa niðurstöðu þar sem ekki þykir eðlilegt að heimta virðisaukaskatt af ýmsum tryggingum, svo sem líftryggingum og slysatryggingum, sem atvinnurekendum er skylt að kaupa fyrir starfsmenn sína skv. kjarasamningum.``
    Eins og hv. þm. er kunnugt, þá er tryggingaárið dálítið misjafnt í hinum ýmsu flokkum trygginga og gilda þær yfirleitt eitt ár í senn. Ýmsir aðilar kaupa sér t.d. bifreiðatryggingar, við skulum segja 1. mars sl., og verða þá að borga eitt ár í einu sem þýðir það að þeir borga söluskatt eða virðisaukaskatt í raun fram á árið 1990. Ég tel að það sé mjög ljóst að ákvörðun okkar hér í Alþingi var sú að skattskylda af þessu skyldi falla niður frá n.k. áramótum.
    Skv. þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér má ætla að af hinum ýmsu tryggingariðgjöldum sé þegar búið að innheimta um 100 millj. kr. eða liðlega það fram á næsta ár í söluskatti. Allt frá því í ársbyrjun núna hafa forsvarsmenn tryggingarfélaganna gert tilraun til þess að fá úr því skorið hjá ríkisskattstjóraembættinu eða fjmrn. hvernig skuli haga endurgreiðslu af þessum lið eða á hvern hátt skyldi meðhöndla það. Það hefur ekki enn komið skýrt svar við því hvort þetta er skattskylt skv. þeirra skilningi eða ekki. Ég tel að lögin eða lagasetningin sé alveg klár í þessu sambandi. Þetta á að vera skattfrjálst frá

næstu áramótum. Þá er um tvennt að velja, annars vegar að allir tryggingartakar óski eftir því við tryggingarfélag sitt að tryggingartímabil þeirra verði stytt og þeir fái endurgreiðslu á þessum ofgreidda söluskatti og þá um leið þau tryggingariðgjöld sem þeir þurftu að inna af hendi vegna ársins 1990. Það er náttúrlega mikið mál og flókið og krefst mikillar vinnu hjá tryggingarfélögum og næsta víst að ekki munu allir tryggingartakar vera meðvitaðir um þennan rétt sinn, að óska eftir styttingu á tryggingartímabilinu, sem þýðir einfaldlega það að þeir sem hafa tíma og vitneskju um þetta munu fá endurgreitt, en þeir sem ekki átta sig á þessu eru kannski skilvísastir í raun, þeir munu ekki ná þessari endurgreiðslu til baka.
    Hin aðferðin, sem er miklu eðlilegri er náttúrlega sú að fjmrn. og ríkisskattstjóraembættið geri sér grein fyrir því hver staða þessara mála er og gefi fyrirmæli til tryggingarfélaganna um að endurgreiða þann söluskatt sem oftekinn er af þessum tryggingum. Þetta er mjög einfalt mál að gera gegnum það tölvukerfi sem er hjá tryggingarfélögunum. Það kemur mér á óvart að skv. blaðaviðtölum við ýmsa aðila, m.a. í fjmrn., virðist sem þeim sé þetta vandamál ekki ljóst og í öðru lagi að þeir telji sig ekki hafa fengið neina ósk um athugun á þessu máli. Það má að vísu til sanns vegar færa að tryggingarfélögin hefðu kannski ekki átt að innheimta þennan skatt þegar þau tóku trygginguna af neytendunum þar sem raunverulega var engin lagasetning sem mælti fyrir um það. Ég tel hins vegar að tryggingarfélögin hafi gert rétt í því að leita strax ásjár hjá ríkisskattstjóraembættinu og fjmrn., bæði munnlega og skriflega, en hafi ekki enn fengið skýr svör um hvernig skuli meðhöndla þetta mál. Ég óska því eftir að hæstv. fjmrh. geri Alþingi grein fyrir því á hvern hátt hann lítur á þetta mál, en ég tel að jafnvel þó hægt væri að finna einhver lagatæknileg rök fyrir því að innheimta gjaldið svona fram í tímann, þá séu í raun engin siðferðileg rök til þess og í reynd engin lagarök til þess heldur.