Frestun virðisaukaskatts
Mánudaginn 13. nóvember 1989


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Það er ástæða til að fagna því að hv. 2. þm. Norðurl. e. hefur vakið máls á því máli sem hér er til umræðu utan dagskrár. Það er athyglivert hvernig hæstv. fjmrh. lýsir yfir vandræðum sínum og kvartar undan því að hv. sjálfstæðisþingmenn skuli taka upp hvert málið á fætur öðru til þess að benda á samstöðuleysi ríkisstjórnarinnar. Og það var enn athygliverðara fyrir þá sem horfðu á sjónvarp í gærkvöldi að horfa á hæstv. utanrrh. koma hér upp í ræðustól eins og barinn hund og nánast segja það hér að hann þurfi ekki að fara eftir því sem flokkurinn hans samþykkti eftir þær skýringar sem hæstv. fjmrh. hefur gefið hér á málinu.
    Aðalatriði málsins er þetta: Alþfl. fékk bréf frá hæstv. fjmrh., fsp. um það hvernig hann vildi standa að vissum álitamálum og ágreiningsmálum varðandi virðisaukaskatt. Svarið er ótvírætt. Alþfl. vill fresta gildistöku málsins um hálft ár. Almenningur hlýtur því að álykta sem svo, virðulegur forseti, að það sé ekki hægt að koma þessum málum í kring fyrir áramót vegna ósamstöðu innan hæstv. ríkisstjórnar og þetta samstöðuleysi í hæstv. ríkisstjórn hefur þess vegna drepið þetta mál og skapað þá óvissu sem við stöndum núna frammi fyrir.
    Að lokum hljótum við að vekja athygli á því að enn bólar ekki á frumvarpi til breytinga á virðisaukaskattslögunum þó til jóla lifi ekki nema örfáar vikur. Þess vegna, virðulegur forseti, held ég að það sé fullkomin ástæða til þess að fá hér skýr svör frá hæstv. ráðherrum um þetta mál og tek heils hugar undir það sem kom fram frá hv. málshefjanda.