Frestun virðisaukaskatts
Mánudaginn 13. nóvember 1989


     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ástandinu á stjórnarheimilinu má sennilega líkja núna við jarðhræringar á Kröflusvæðinu sem oftast nær hafa endað með gosi. Við verðum vitni að því trekk í trekk að ráðherrar lenda í hári saman. Við höfum hlustað hér á hagstofuráðherra ásaka sjútvrh. um að vilja skipasmíðaiðnaðinn dauðann. Við höfum heyrt hótanir Alþb. um stjórnarslit ef farið verður í framkvæmdir á varaflugvelli. Við höfum heyrt hæstv. utanrrh. blása á það og nú eru þeir enn einu sinni komir í hár saman hæstv. utanrrh. og hæstv. fjmrh. og nú vegna virðisaukaskatts og frestun á honum.
    Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. málshefjanda þessa máls að það eru mörg álitamál sem þarf að fá svar við. Það er fjöldinn allur af reglugerðum sem eiga eftir að koma út og stórpólitísk ágreiningsefni eru óleyst. Því hlýtur það að vera krafa atvinnulífsins og almennings í landinu að þeirri spurningu verði svarað, sem allra fyrst og helst hér og nú, hvort það á í raun og veru að fresta upptöku skattsins eða ekki.