Frestun virðisaukaskatts
Mánudaginn 13. nóvember 1989


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. lét sig hafa það hér áðan í upphafi síns máls að svara fyrirspyrjanda, hv. Halldóri Blöndal, með skætingi. Það er óvirðing við fyrirspurn hv. þm. og einnig er það náttúrlega eins og allir hv. þm. vita háttur hrokafullra valdamanna að tala eins og hæstv. fjmrh. gerði.
    Það er greinilega aukaatriði hjá hæstv. ráðherra hvernig veigamikil atriði í virðisaukaskatti verða framkvæmd. Það skiptir hæstv. ráðherra engu máli hvernig virðisaukaskattur lendir á atvinnuvegunum eða fólkinu í landinu. Framkvæmd laganna er ekki aðeins tæknilegt atriði eins og hæstv. fjmrh. hélt fram í ræðu sinni áðan. Eftir er að fjalla um veigamikil pólitísk atriði. Það eru tillögur til breytinga á lögunum, svo sem varðandi tvö þrep, skattaprósentu, frestun á innheimtu vegna innflutnings á vörum og einnig mjög veigamikið atriði sem lýtur að útflutningsatvinnuvegunum sem er endurgreiðsla á virðisaukaskatti í sambandi við fiskvinnsluna.
    Hæstv. fjmrh. talar um það eitt að gefa út reglugerðir. Og hann ætlar sér að innheimta 26% virðisaukaskatt í stað 22% eins og ráð var fyrir gert í upphafi. Nú ætlar ríkisstjórnin að bæta 6 milljörðum kr. ofan á þá 7 milljarða sem hún hefur þegar hækkað skattana á fólkinu í landinu. Á rúmu einu ári stefnir núv. hæstv. ríkisstjórn í það að auka skattabyrði á fólkinu í landinu og atvinnuvegunum um hvorki meira né minna en 13 milljarða kr.
    Það eru ófyrirleitnir menn við völd á Íslandi, virðulegi forseti. Þeir hirða ekkert um stöðu atvinnuveganna. Þeir hirða ekkert um fólkið. Kjörorð þessara manna er: Allt fyrir völdin. Því mótmælum við hv. þm.