Guðmundur G. Þórarinsson:
    Hæstv. forseti. Sú þáltill. sem hér liggur fyrir til umræðu er um margt athyglisverð og áhugaverð. Ég hygg að enginn vafi sé á því að aukin umræða um reikningsskil hér á Alþingi sé til góðs og öllum hlýtur að vera ljóst að það er afar mikilvægt að reikningsskil endurspegli hæfi fyrirtækis til að reka sína starfsemi jafnframt því sem þau þurfa auðvitað að sýna sem réttasta niðurstöðu og sambærilegasta niðurstöðu við önnur fyrirtæki.
    Það sem hér er farið fram á er hins vegar mjög vandasamt verk og ber að leggja áherslu á að slíkt verk við endurskoðun, mat og samræmingu sé unnið af vandvirkni og ekki í óðagoti. Raunar eru þau atriði sem flm. benda á e.t.v. af tvennum toga. Annars vegar er um að ræða hreint ósamræmi ef lesið er í þær skýringar sem hér liggja fyrir, hins vegar er um að ræða atriði sem beinlínis leiða af þróun þjóðfélagsins og breytingum sem í þjóðfélaginu hafa orðið.
    Fyrir hinn almenna mann er það auðvitað mjög mikilvægt, ef við tökum fyrirtæki á hlutabréfamarkaði, að hann geti metið og borið saman efnahagsreikninga slíkra fyrirtækja. Þess vegna þurfa reikningsskil að vera með sama hætti hjá þessum fyrirtækjum ella verður slíkur samanburður lítils virði. Í annan stað, fyrir þá sem eiga að meta veð einstakra fyrirtækja, tryggingar þeirra eða veita lán, er afar mikilvægt að um sambærilegar reikningsfærslur sé að ræða.
    Eitt þeirra atriða sem flm. benda sérstaklega á er meðferð á gengistapi hjá fyrirtækjum og vitna þeir þar í mismunandi færslur miðað við gengisbreytingarnar um síðustu áramót. Raunar benda þeir á eitt alvarlegt dæmi í sinni greinargerð. Þar þykir mér raunar skorta á í skýringum. Reikningsskilanefnd, sú sem vísað er til, segir í sínum niðurstöðum að rökin fyrir nýja genginu séu veigameiri í tilviki efnahagsreiknings og mælir þess vegna með því að nýja gengið sé notað um áramótin, eða fyrir uppgjörið 1988, en segir þó síðar í sínum niðurstöðum, með leyfi forseta: ,,Þrátt fyrir ofangreind sjónarmið telur nefndin rétt að geta þess að til greina gæti komið að styðjast við gamla gengið þó að hún mæli ekki með því, enda er unnt, eins og af ofanrituðu má vera ljóst, að líta svo til að það sé í samræmi við góða reikningsskilavenju að nota það, einkum ef litið er til fyrirmæla í erlendum stöðlum.``
    Þetta sýnir kannski enn á ný að þarna er á mörg atriði að horfa og ekkert í því einfalt.
    Mér kemur í hug umræða fyrir stuttu þegar hæstv. fjmrh. svaraði fsp. um hvaða fyrirtæki héldu sig innan ríkisreikninga. Ljóst er að uppgjör og reikningsskil á ríkisreikningi eru svo ógreinileg að sjálfur fjmrh. villtist í raun á aðalatriðum þar og ruglaði saman, vantaði annars vegar að meta inn heimildir vegna verðlagsbreytinga sem eru heimildir fyrirtækja og gat ekki gert greinarmun í sínu máli á raunverulegum rekstrarkostnaði og hins vegar greiðsluflæði. Það sýnir að sjálfur ríkisreikningurinn er óskýrt plagg og ekki auðvelt að lesa út úr hvort fyrirtæki halda sig innan

fjárlaga eða ekki. En þegar gengistap er fært eða gengisbreytingar hjá fyrirtækjum er auðvitað á það að líta líka að engan veginn það sama á við hjá fyrirtækjum. Hjá þeim fyrirtækjum þar sem gengistryggðar skuldir og gengistryggðar eignir eru mjög svipaðar má segja að mjög litlu málu skipti hvorum megin um er að ræða eins og til að mynda varðandi bankana. Hér er sérstaklega bent á ársreikning Landsvirkjunar. Ég hygg að Landsvirkjun endurmeti hjá sér virkjanir eða með endurmatsstuðli þar sem 2 / 3 eru metnir við erlendan kostnað en 1 / 3 miðað við innlendan, þannig að ekki er víst að þarna muni mjög miklu. Þegar kemur hins vegar að endurmati á fjármunum benda flm. enn á að þar sé mjög mismunandi aðferðum beitt.
    Stefán Svavarsson endurskoðandi gerir grein fyrir því í grein í Morgunblaðinu að í höfuðdráttum sé um að ræða þrjár aðferðir við endurmat fjármuna, þ.e. að fara eftir ákvæðum skattalaga í fyrsta lagi, í öðru lagi að nota kaupverð endurreiknað með verðlagsbreytingum og í þriðja lagi að reyna að meta endurkaupsverð. Ég hygg þó að það sé rétt sem í greinargerðinni kemur fram að þó að þetta séu svona rammalega séð þrjú meginatriðin, þá er innan hvers atriðis nokkuð mismunandi metið, e.t.v. hjá einum eftir lánskjaravísitölu og öðrum eftir byggingarvísitölu og eins og fram hefur komið í mínu máli metur Landsvirkjun 2 / 3 miðað við erlendan kostnað en 1 / 3 miðað við innlendan o.s.frv. Inn í þetta endurmat kann að þurfa að koma hvort fyrirtækið starfar aðallega eða eingöngu á erlendum markaði eða innlendum.
    Þetta vekur auðvitað spurningar um það hvort rétt sé að beita sömu aðferðum í öllum fyrirtækjum, óháð því við hvaða aðstæður þau starfa, og það flækir enn á ný málið og sýnir að ekki er um einfalda hluti að ræða.
    Hér er líka drepið á verðbólgureikningsskil en þegar nýjar skattareglur komu fram, þar sem gert er ráð fyrir verðbólgureikningsskilum, hófu menn náttúrlega að reyna að móta sér raunhæfar hugmyndir um eignamat og efnahagsreikning á grundvelli slíkra skattaskila. Í höfuðdráttum hafa tíðkast tvær aðferðir þar,
annars vegar beinlínis skattaaðferðin sem kveðið er á um í lögum og metur þá eingöngu stöðuna í árslok árið á undan. Hins vegar hafa endurskoðendur þróað hina svonefndu fráviksaðferð sem metur stöðuna í byrjun árs, jafnframt allar breytingar sem á árinu verða og stöðuna í árslok. Þessar aðferðir geta gefið umtalsverðan mun, sérstaklega ef um er að ræða verulega fjárfestingu á árinu. Þær gefa ekki mun gagnvart skattalegri meðferð en þær geta gert gríðarlegan mun ef meta á efnahagsreikning fyrirtækisins og hreina eign.
    Hér kemur líka fram þetta athyglisverða dæmi um mat á verði togara í efnahagsreikningi og þar má segja að e.t.v. komi fram þrjár meginaðferðir, í fyrsta lagi að meta togara á smíðaverði eða kaupverði, í öðru lagi að meta togarann á vátryggingarverði og í þriðja lagi að meta hann á markaðsverði, þ.e. að meta

kvótann sem skipinu fylgir, eignfæra kvótann. Það hefur verið gert í því dæmi sem flm. benda hér á og í rauninni virðist mér að reikningsskilanefnd löggiltra endurskoðenda hafi gert athugasemd við það.
    Hér er einnig --- virðulegi forseti, ég er rétt að ljúka máli mínu --- gerð athugasemd um það að eignfæra fisk í sjónum, óveiddan fisk. Það er enn á ný nokkurt matsatriði, ef útgerðarfyrirtæki kaupir kvóta sem veiða má á nokkrum árum, hvort gjaldfæra skuli á viðkomandi ári allt kaupverðið eða færa þennan kvóta til eignar yfir fleiri ár. Vandinn við þann mun sem þarna kemur fram er að það er unnt að færa þetta mismunandi, raunverulega, eftir sjálfri stöðu fyrirtækisins, og þá hefur það ekki bara áhrif á eignamat heldur líka skattagreiðslur.
    Það er athyglisvert sem hér kemur fram varðandi Seðlabankann, en það virðist vera almenn regla varðandi A-hluta fyrirtæki ríkissjóðs að gjaldfæra fjárfestingar. Eftir því sem ég kemst næst munu seðlabankar líklega alls staðar í heiminum beita þessari aðferð. Menn gætu spurt sig: Hvernig stendur á því að Landsvirkjun gerir það ekki á sama hátt? Og það hefði verið gaman að spyrja fjmrh. að því, ef hann hefði verið hér viðstaddur, hvort Alþingishúsið til að mynda væri eignfært í ríkisreikningi, en ég hygg að svo sé ekki.
    Um gengisjöfnunarsjóðinn væri margt unnt að segja en það hlýtur að stinga nokkuð í augu sú athugasemd sem hér kemur fram að þetta sé gert á mismunandi vegu af sömu endurskoðendum hjá fyrirtækjum í sömu grein. Það á ég ákaflega erfitt með að fella mig við þó að ég geri mér grein fyrir að þarna er um gríðarlega vandasamt mál að ræða, einmitt hvernig á að færa þetta gengismat þegar mismunandi gengissveiflur eru á milli ára. Aðalatriðið í þessu hlýtur að vera að það þarf að vera samræmi í reikningsskilum, alla vega mjög náið samræmi meðal fyrirtækja innan sömu greina. En ég ítreka það enn á ný að það sem e.t.v. stendur nú ekki síst nálægt okkur er að ríkisreikningurinn sjálfur er óskýr. Ég held þess vegna að það sé mjög mikilvægt að Alþingi láti þetta mál til sín taka. Það er ljóst að hér er nauðsyn á samræmingu, en ég ítreka enn á ný að verkefnið er vandasamt, þarf að vinnast af athygli og mikilli vandvirkni.