Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég ætla að fá að ljúka þeirri ræðu sem ég var hálfnaður með hér áðan. Hjá Hitaveitu Suðurnesja var tekið upp nýtt fyrirbrigði í reikningsskilum árið 1987 sem nefnt var gengisjöfnunarsjóður. Þessi sjóður var notaður til að minnka hagnað fyrirtækisins. Virðist sem gengi íslensku krónunnar hafi ekki verið rétt skráð það árið að þeirra mati. Þetta þykir mér afar athyglisvert og um leið hættulegt þegar menn eru farnir að hafa á því persónulegar skoðanir hvernig skrá eigi gengið og láta þá skoðun sína koma fram í ársreikningi þýðingarmikilla þjónustufyrirtækja sem skipta almenning á stóru svæði miklu máli. Með þessu móti var hagnaður Hitaveitu Suðurnesja minnkaður það árið um nokkuð á þriðja hundrað millj. kr. Ég leyfi mér að spyrja: Var það gert til þess að auðveldara væri að halda uppi töxtum fyrir heitt vatn á Suðurnesjum? Svari nú hver fyrir sig.
    Það hlýtur að vekja furðu manna að endurskoðandi Hitaveitu Suðurnesja sá ekki ástæðu til að beita gengisjöfnunarsjóðnum hjá öðrum stórum viðskiptavinum sínum þetta sama ár. Gengi krónunnar hlýtur að hafa verið jafnrangt skráð hjá þeim og hjá Hitaveitunni. Það er freistandi að varpa þeirri spurningu til hv. alþm. sem sæti eiga í stjórn Hitaveitu Suðurnesja, ég reikna reyndar með að enginn þeirra sé hér í salnum nú, sennilegast eru þeir á Norðurlandaráðsþingi, hvort hugmyndin um gengisjöfnunarsjóðinn hafi verið rædd og samþykkt í stjórn fyrirtækisins.
    Hæstv. forseti. Eitt dæmi enn. Afkoma Landsvirkjunar árið 1988 var með þeim hætti að þessi opinbera stofnun gat ekki borið í rekstri ársins gengistapið sem hlaust af gengisfellingunni þann 3. jan. 1989, enda nam það nálægt heilum milljarði kr. á sama tíma og skuldastaða Landsvirkjunar nam um það bil 29 milljörðum kr. Hjá Landsvirkjun hefur mönnum sennilega ekki líkað að sýna stórfellt tap. Því notuðu þeir gengi miðað við 31. des. 1988 og því var ársreikningur fyrirtækisins fyrir árið 1988 afgreiddur með 186 millj. kr.
hagnaði sem er í sjálfu sér hið besta mál.
    En hvað hafði Félag endurskoðenda gert í málinu? Jú, það hafði sent frá sér leiðbeiningar til félagsmanna sinna um að nota bæri gengið þann 3. jan. 1989, eftir 4--5% gengisfellinguna sem varð um áramót. Þær leiðbeiningar komu frá svonefndri reikningsskilanefnd Félags löggiltra endurskoðenda og þannig hittist á að formaður þeirrar nefndar, Stefán Svavarsson lektor, er einmitt endurskoðandi Landsvirkjunar og sem slíkur áritaði hann ársreikning Landsvirkjunar athugasemdalaust og þar með í berhögg við eigin leiðbeiningar og það ekki með neinum smáafleiðingum. Tapi upp á um það bil milljarð kr. var breytt í hagnað upp á um það bil 186 millj. kr. Það munar um minna.
    Hæstv. forseti. Það er auðvitað óhjákvæmilegt að spyrja þá hv. þm. sem sæti eiga í stjórn

Landsvirkjunar, og ef ég tók rétt eftir hér áðan, þá á hv. síðasti ræðumaður, Guðmundur G. Þórarinsson sæti í stjórn Landsvirkjunar, (Gripið fram í.) nei, þá hef ég tekið rangt eftir, veit þó að hv. þm. Ólafur G. Einarsson, Páll Pétursson og Birgir Ísl. Gunnarsson eiga þar sæti en þeir eru því miður ekki í salnum sem stendur. En það hefði verið athyglisvert að spyrja þá hvort þessi vinnubrögð hefðu verið samþykkt í stjórninni. Og einnig hvort það var tekið fyrir til afgreiðslu á stjórnarfundi hvort taka ætti tæpan milljarð kr. í viðbótargengistap eins og endurskoðandi Landsvirkjunar hafði hvatt aðra endurskoðendur til að gera eða hvort halda ætti sér við gengið 31. des. 1988 og sýna með þeim hætti 186 millj. kr. hagnað.
    Það er hægt að tína til fjölda dæma til stuðnings þessu máli. Ég læt þau sem ég hef hér nefnt nægja, en vilji hv. alþm. kynna sér málið betur, sem ég reyndar tel þeim skylt að gera, bendi ég þeim á að verða sér úti um skýrslu Ragnars Kjartanssonar og lesa hana með opnum huga. Sérstaklega vil ég þó benda þeim nefndarmönnum sem málið fá til umfjöllunar á skýrsluna og tel reyndar að formaður nefndarinnar eigi að sjá til þess að útvega nefndarmönnum eintak. Það er enginn vafi í mínum huga að sú könnun sem hér er farið fram á að framkvæmd verði á vinnubrögðum löggiltra endurskoðenda getur ekki leitt annað en gott af sér. Hér er um stórmál að ræða þegar grannt er skoðað og miklir hagsmunir í húfi.
    Ég vil, hæstv. forseti, þakka hv. síðasta ræðumanni, Guðmundi G. Þórarinssyni, fyrir hans innlegg í þessa umræðu sem var í alla staði mjög jákvætt og rökrétt eins og hans er von og vísa. Auðvitað er það hárrétt hjá honum að hér er um mjög vandasamt verk að ræða og flókið mál sem þarf að vinnast af mikilli vandvirkni. Hann kom aðeins inn á gengisþáttinn og gengisfærslurnar og það hvort rétt væri að nota gengi í lok árs eða byrjun árs eins og við höfum verið að benda hér á. Ég ætla ekki að leggja mat á það hvor aðferðin er rétt, en bendi enn á ný á það að samræmingar er þörf. Það má kannski minna á það að hér áður fyrr var fyrsta skráða gengi ársins notað og gat það jafnvel teygst upp í 1--2 vikur að gengisskráning færi fram. En þetta eru allt hlutir sem hv. þingnefnd tekur til endurskoðunar og væntanlega fær hún alla hagsmunaaðila sem málið varðar til að tjá sig um málið og kemst
vonandi að viðunandi niðurstöðu.
    Eins og menn vita er það ekki fyrir hinn almenna mann að lesa út úr ársreikningum fyrirtækja. Hinn almenni maður lítur gjarnan á niðurstöðutölur og lætur það nægja og dregur sínar ályktanir út frá því, en það er eins og menn vita mjög varasamt að gera slíkt. Þannig að öll samræming og einföldun sem hægt er að gera og góð kynning á slíku máli er öllum almenningi til mikils gagns.
    Ég vil að lokum segja það, hæstv. forseti, að ég er ekki að mæla hér beinlínis fyrir skýrslu Ragnars Kjartanssonar. Ég tel hins vegar að þar komi fjölmörg gagnrýnisatriði fram sem vissulega er vert að Alþingi

taki til endurskoðunar og kanni hvort rétt séu. Og ef svo er, þá leiðir það vonandi til nýrrar lagasetningar með reglugerðum sem yrði hagsmunaaðilum öllum til bóta.