Guðmundur G. Þórarinsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil aðeins skýra örlítið nánar það sem ég kom inn á hér í fyrri ræðu minni ef það kann að hafa valdið misskilningi, vegna þess sem síðasti ræðumaður, hv. þm. Ingi Björn Albertsson, sagði um ársreikning Landsvirkjunar. Aðalatriðið í slíkum reikningi er að valda ekki skekkjum með gengisfærslunni, þ.e. að hrein eign breytist ekki. Ef gengistryggðar skuldir og gengistryggðar eignir eru nokkurn veginn þær sömu skiptir þessi munur á gengisfærslunni ekki öllu og í rauninni sáralitlu. Það sem skeður hjá Landsvirkjun er það að þó að fært sé á genginu í árslok, þá eru eignirnar færðar upp að 2 / 3 hlutum eftir erlendum kostnaði, þ.e. endurmatsstuðullinn er byggður þannig upp, og að 1 / 3 hluta eftir innlendum. Þess vegna hygg ég að vegna þess að stuðullinn er færður upp svona að 2 / 3 eftir erlendum kostnaðarbreytingum, þá verði þessi munur hjá Landsvirkjun mikið minni en ef eignirnar hefðu eingöngu verið færðar upp miðað við innlent verðlag. Ég hef ekki í kollinum hvort það sé rétt að þarna geti numið heilum milljarði kr. Ósjálfrátt kemur í huga minn að þar sé ekki tekið tillit til þess að eignir hafi verið metnar upp að 2 / 3 miðað við erlendan kostnað. Ég skal ekki segja um það en ef svo er, sem mér virðist vera, þá er þarna um minni mun að ræða. Ég tek hins vegar undir það sem síðasti ræðumaður sagði að aðalatriðið er auðvitað að þarna sé samræmd reikningsskilavenja. Það er gríðarlega mikilvægt. Því þurfum við að koma á. En það er mismunandi hversu mikilli skekkju þetta getur valdið og fer eftir því hvernig eignum fyrirtækjanna og eignauppfærslum er varið.