Jarðgöng milli lands og Eyja
Mánudaginn 13. nóvember 1989


     Guðni Ágústsson:
    Hæstv. forseti. Hér hafa sex þingmenn Sjálfstfl. lagt fram mikla tillögu um könnun á jarðgöngum til Vestmannaeyja. Nú vill svo til að þetta mál hefur töluvert borið á góma á síðustu árum, ekki síst úti í Vestmannaeyjum. Auðvitað hafa þingmenn íhugað það og rætt sín á milli hvort það væri tímabært að flytja slíka tillögu af þingmönnum kjördæmisins hér á Alþingi. Niðurstaðan hefur þó orðið sú að flestum hefur sýnst að það væri ekki tímabært. En hér liggur fyrir tillaga þessara sexmenninga og hef ég ekki annað en gott um hana að segja, að hreyfa málinu með þessum hætti.
    Það er ljóst að mikil þróun hefur orðið á síðustu árum hvað þennan verkþátt í heiminum varðar. Tækninni hefur fleygt fram og þessar framkvæmdir eru orðnar á allt öðru verðlagi en fyrir nokkrum árum. Fyrsti flm. nefndi hér nokkrar þjóðir, m.a. Japana og við sjáum að þessi tækni færist nær okkur. Færeyingar, Danir og fleiri hafa gengið þessa leið.
    Ég minnist þess að Vestmanneyingar hafa um þetta rætt og hugsað því að ég sé það einmitt í ráðhúsi Vestmannaeyja á nýlegu skipulagi sem unnið var af Páli Zóphóníassyni að þar var gert ráð fyrir þessum göngum. Þeir teikna opið inn á skipulagið, enda hefur Vegagerðin dálítið unnið að málinu svo að þetta er ekki nýtt. Hugsjónamenn í Vestmannaeyjum hafa oft á tíðum á fundum þar sem ég hef verið rætt þetta mál og þeir eiga þar ákafa baráttumenn sem telja einmitt að þetta sé það sem verði í framtíðinni.
    Hitt er ljóst að þetta er auðvitað afskaplega dýr framkvæmd fyrir litla þjóð og áhættuþættirnir á þessari leið eru sennilega margir. Þetta er eldfjallasvæði, jarðskjálftasvæði. Á þessum stað er mesta misgengið á Atlantshafshryggnum, staður, sem alltaf er á hreyfingu að því er jarðfræðingar telja. Þarna er því vissulega margt eftir sem þarf að rannsaka.
    Mín skoðun er sú að jarðgöng á milli lands og Eyja séu ekki á dagskrá á næstu árum. Okkur skortir til þess peninga og einnig er óskaplega margt ógert í vegagerð á Íslandi sem menn munu sjálfsagt frekar telja að skili fjöldanum miklu. Ég hef því tilhneigingu til að slóra og hugsa í nútíðinni um samgöngumál Eyjamanna. Ég tek fram að ég styð það að Vegagerðin og vísindamenn fylgist með þessu svæði af fullum þunga með það í huga að kanna hvort þetta er framkvæmanlegt því að vissulega munum við standa frammi fyrir því einhvern tíma að þurfa að taka afstöðu til þess, sé það framkvæmanlegt. Ég legg því áherslu á ýmislegt annað í samgöngumálum Eyjamanna eins og nýtt skip, sem ég tel mjög brýnt, það er auðvitað brýnasta málið í dag, sem væri bæði hraðskreiðara, gæti tekið fleiri bíla og byggi við meira öryggi heldur en sá Herjólfur sem nú siglir á milli. Einnig er mjög mikilvægt að styrkja og bæta flugsamgöngur milli lands og Eyja.
    En svo er það hitt sem ég hef nú í haust verið með í undirbúningi. Ég hef verið að hugleiða að flytja

frv. hér í þinginu sem tæki á því ranglæti sem ég tel að íbúar Vestmannaeyja búi við í dag gagnvart öðrum landsmönnum og reyndar fólk í öllum öðrum eyjum í kringum landið. Við gerum okkur grein fyrir því að ríkið byggir og sér um viðhald vega. Í Vestmannaeyjum eru t.d. aðeins tæpir 4 km í frágengnum þjóðvegum. Fólkið sem býr í Vestmannaeyjum nýtir ekki með sama hætti þjóðvegakerfið og aðrir landsmenn. En mesta ranglætið er hversu dýrt það er fyrir Vestmanneyinga að komast til lands á þjóðvegina og um það ranglæti snýst það frv. sem ég hef verið að vinna að.
    Sjóleiðin frá Vestmannaeyjum til Þorlákshafnar er um 70 km ef ég man rétt. Setjum nú svo að hjón með tvö börn vilji komast upp á land til að aka eftir þjóðvegunum. Gera þingmenn sér t.d. grein fyrir því hvað það kostar fjölskylduna að komast upp í Þorlákshöfn með Herjólfi? Hjónin borga hvort 1000 kr. fyrir farið, börnin mismunandi eftir aldri, barn á 13. ári það sama og fullorðinn, frá 6--12 ára aldri 400 kr. og frítt undir 6 ára aldri. Hjónin borga í dag 1000 kr. fyrir fjölskyldubílinn. Samtals kostar svona ferð með Herjólfi aðra leiðina þessa fjölskyldu sem ég nefndi, hjón með tvö börn, 13 og 10 ára, og bíl, svona 4500--5500 kr. Að auki kojupláss því ýmsir þola illa velting og sjógang, ekki síst börn. Þessi hjón verða að borga um 10 þús. kr. fyrir að ferðast þessa leið fram og til baka. Það er mikill peningur.
    Samkvæmt ríkistaxta kostar ca. 2800 kr. að aka 140 km leið á fólksbíl, en venjulega kostar það í bensíni kannski 1000 kr. Sambærileg fjölskylda sem ákveður að skreppa í sunnudagsbíltúr héðan úr Reykjavík t.d. til Þingvalla og ferðast 140 km leið þann daginn eyðir kannski 15--20 lítrum af bensíni, eins og ég sagði um 1000--1200 kr. Þarna ríkir mikill og ósanngjarn munur á milli fólks. Þess vegna álít ég mikilvægast fyrir íbúa Vestmannaeyja í samgöngum að það verði fest og viðurkennt í löggjöf að það kosti svipað að ferðast þessa sjóleið og að ferðast sambærilega vegalengd á landi. Þetta réttlætismál minnist ég nú á hér því að ég tel að við þurfum fyrst og fremst að hugsa um nútíðina í samgöngumálum Vestmanneyinga og þetta hafa þeir margir við mig rætt og finnst það óheyrilega dýrt.
    Nú skulum við segja að þetta sjónarmið verði viðurkennt gagnvart íbúum
Vestmannaeyja þar sem þeir hafa enga aðra möguleika til að ferðast til lands en flug- eða sjóferð. Við verðum að líta dálítið sérstaklega á þessar ferjur sem ganga á milli staða sem ekki eiga aðra leið. Það þarf að viðurkenna sjóleiðina sem landvegur væri. Væri það t.d. regla að farmiði með Herjólfi kostaði að hámarki andvirði 10 lítra af bensíni eða 520 kr., barnamiði helming af því og flutningur á bíl aldrei meira en í dag mundi þessi ferð fjölskyldunnar lækka um helming en yrði þrátt fyrir það dýrari en sambærilegt ferðalag um jafnlangan veg á landi. Það sem mætti bæta við er að þó að þessi leið yrði farin er ekkert víst að það mundi kosta ríkið neitt því að ferðalög á milli þessa sérstæða staðar, Vestmannaeyja,

og lands mundu aukast á báða bóga.