Skráningarkerfi bifreiða
Mánudaginn 13. nóvember 1989


     Flm. (Árni Johnsen):
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um einkarétt og íslensk sérkenni í skráningarkerfi bifreiða. Það var komin allrík hefð á það gamla skráningarkerfi sem var við lýði þangað til núverandi kerfi var lögfest og það sérkennilega við það kerfi var fyrst og fremst að það hafði áunnið sér íslenskan blæ. Alveg eins og grannar vilja vita hver af öðrum, þá gátu menn fylgst með því nokkuð hvernig hreyfingin var á umferðinni í landinu eftir bílnúmerum og mönnum þótti það viðkunnanlegt. Akureyringi á A-bíl þótti viðkunnanlegt að sjá annan A-bíl, hvort sem það var á Austurlandi, Suðurlandi eða annars staðar. Það fannst mér sterkur þáttur í þessu skráningarkerfi, þáttur sem var svolítið persónulegur, og mér finnst ástæða til þess að stuðla að slíku, ekki hvað síst með tilliti til þeirrar alþjóðahyggju sem flæðir yfir í öllum áttum. Allt á að vera eins og litlaust og lítið landslag í mannlífi og öðrum þáttum sem við búum við. Þá finnst mér ríkari ástæða til þess að stuðla að persónulegum einkennum og halda því sem við getum kallað íslenskan stíl í ölduróti alþjóðanna.
    Það er auðvelt mál að bjóða þessa þjónustu. Það yrði jafnvel hægt að viðhalda því kerfi sem nú er, sem er að mörgu leyti mjög hagkvæmt varðandi endurskráningar bifreiða, því að í þeim tölvuuppsetningum sem öll skráning á sér nú stað í er mjög auðvelt að hafa grunnnúmerið, sem fylgir þá bílnum á meðan hann er á hjólum, og hins vegar sérnúmerið sem viðkomandi eigandi á hverju sinni. Viðkomandi eigandi þyrfti þá einfaldlega að borga fyrir þau spjöld, hvort sem þar yrði um að ræða nafn eða númer. Hann borgaði fyrir þá sérþjónustu aukreitis og hans væri völin í þeim efnum.
    Ég held að þetta sé mál sem allmargir hafa áhuga á, bæði í þéttbýli og dreifbýli, og ekki hvað síst í dreifbýlinu. Mér virðist þetta vera persónulegra mál í dreifbýlinu og full ástæða til þess að taka tillit til þess eins og hægt er þar sem það er svo auðvelt að tengja þetta saman.
    Ég legg til að að lokinni fyrri umr. verði þessu máli vísað til allshn. Sþ.