Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit
Þriðjudaginn 14. nóvember 1989


     Anna Ólafsdóttir Björnsson:
    Virðulegi forseti. Mig langar að lýsa stuðningi mínum við meginefni þessa frv. og þá lagabreytingu sem hér er stefnt að að gera. Starf og verksvið Hollustuverndar ríkisins snerta eitt hið mikilvægasta eftirlitshlutverk sem farið er með hér á landi, mengunarvarnir. Það hlýtur því að styrkja stöðu eftirlitsaðila ef þeim er gert kleift að fylgja eftirliti sínu eftir á virkan hátt, dugi ekki hefðbundnar aðferðir. Ábyrgð okkar gagnvart umhverfinu er mikil og því nauðsynlegt að skapa öllum þeim sem þátt eiga í að tryggja ómengað umhverfi sem besta starfsaðstöðu.
    Með lagabreytingum þessum er síður en svo verið að veikja starfssvið heilbrigðisnefnda sveitarfélaga sem eftir sem áður gegna lykilhlutverki í eftirliti gegn mengun, hver á sínum stað, enda kemur fram í athugasemdum við frv. þetta að eftirlit Hollustuverndar varðar undantekningartilvik sem Hollustuvernd er annaðhvort gert að fylgjast með samkvæmt lögum eða eftir samkomulagi við heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga. Það ætti því að vera styrkur fyrir heilbrigðisnefndir sveitarfélaga að Hollustuvernd ríkisins hafi sem besta og raunhæfasta starfsaðstöðu. Engum skyldum, ábyrgð né frumkvæði er með þessum hætti létt af sveitarfélögum né af þeim tekin. Því tel ég jákvætt að málið fái sem fyrst góða afgreiðslu þingsins.