Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit
Þriðjudaginn 14. nóvember 1989


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Það hafa orðið nokkuð miklar umræður um þetta frv. sem í sjálfu sér er nú ekki mjög stórt í sniðum og gerir fyrst og fremst ráð fyrir því að Hollustuvernd ríkisins geti beitt hliðstæðum aðferðum við að ná fram úrbótum í starfsgreinum sem Hollustuvernd ríkisins er samkvæmt lögum falið að fylgjast með. Fyrir þessu gerði ég allítarlega grein í framsögu með frv. þegar það var hér á dagskrá síðast, en mig langar samt að lesa hér þær greinar sem vitnað er til, annars vegar 2. tölul. 17. gr. laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit og hins vegar 4. tölul. 13. gr.
    Í 1. tölul. 17. gr. segir m.a. svo um hlutverk eftirlitsins:
    ,,Stofnuninni skal skipt í fjögur svið: Heilbrigðiseftirlit, rannsóknastofu, mengunarvarnir og eiturefnaeftirlit, og skal starfa forstöðumaður fyrir hverri.``
    Síðan segir í 2. tölul. 17. gr.:
    ,,Heilbrigðiseftirlit hefur yfirumsjón með því að fylgt sé ákvæðum heilbrigðisreglugerðar eða reglugerða, sbr. 2. tölul. 2. gr., að svo miklu leyti sem slíkt er ekki falið öðrum sviðum stofnunarinnar, sbr. 3. og 4. tölul. 17. gr.
    Heilbrigðiseftirlit annast vöruskráningu og eftirlit með innflutningi matvæla og annarra neysluvara.
    Heilbrigðiseftirlit annast vöruskráningu innlendra vörutegunda á sviði matvæla og neysluvara samkvæmt tilkynningu frá heilbrigðiseftirlitssvæðum.``
    Þetta er eftirlit sem beint er falið Hollustuvernd ríkisins sjálfri, ekki heilbrigðisnefndum sveitarfélaganna og heilbrigðisfulltrúum.
    Í 4. tölul. 13. gr. þessara sömu laga segir:
    ,,Stofnunin fer því aðeins með beint eftirlit að um sérhæfð verkefni sé að ræða og lög mæli svo fyrir eða ráðherra ákveði það og að höfðu samráði við hlutaðeigandi heilbrigðisnefndir.``
    Hér er einnig talað um sérverkefni Hollustuverndarinnar þar sem henni er falið að hafa með eftirlitið að gera og það er ekki öðrum falið.
    Í 27. gr. þessara laga er síðan rætt um svokallað valdsvið og þvingunarúrræði og þar segir í 1. tölul. 27. gr., þar sem kveðið er á um þetta valdsvið og þvingunarúrræðin:
    ,,Til þess að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögum þessum, heilbrigðisreglugerð, mengunarvarnareglugerð, heilbrigðissamþykktum sveitarfélaga eða eigin fyrirmælum samkvæmt þessum ákvæðum, getur heilbrigðisnefnd beitt eftirfarandi aðgerðum:
    1. Veitt áminningu.
    2. Veitt áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta.
    3. Stöðvað viðkomandi starfsemi eða notkun að öllu leyti eða að hluta til með aðstoð lögreglu ef með þarf.``
    Í 2. tölul. 27. gr. segir:
    ,,Stöðvun skal því aðeins beitt að um alvarlegri

tilvik eða ítrekuð sé að ræða eða ef aðilar sinna ekki úrbótum innan tiltekins frests. Sé um slíkt brot að ræða getur heilbrigðisnefnd afturkallað starfsleyfi viðkomandi rekstrar teljist rík ástæða til.
    Og þá kemur að því af hverju þetta frv. er flutt. Hér í þessari grein um þvingunarúrræði og valdsvið er aðeins talað um heilbrigðisnefndir, ekki um hlutverk Hollustuverndar eða heimild Hollustuverndar ríkisins. Þetta eru ákvæði sem eru inni í lögunum nú þegar. Það er enginn að breyta þessum ákvæðum. Það er enginn að tala um það að breyta þessum þvingunarákvæðum sem slíkum, þau eru hér í lögunum. Það sem hins vegar er um að ræða er að það eru aðeins heilbrigðisnefndirnar sem hafa heimild til þess að nýta sér það. Hollustuvernd ríkisins getur ekki gert það varðandi þau eftirlitssvið sem henni eru þó falin samkvæmt lögum. Henni eru falin ákveðin verksvið og það sem hún á að fylgja, sem ég las áðan upp úr 13. og 17. gr. Og það sem hér er aðeins farið fram á er það að Hollustuverndin fái einnig þetta verksvið vegna þess að ef nauðsynlegt er, vegna þess að ekki er farið að settum reglum, þeim sem starfsleyfin gera ráð fyrir, ef ekki er farið að þeim settu reglum, þá hefur Hollustuvernd ríkisins ekki aðra aðferð til en að biðja heilbrigðisnefndir sveitarfélganna um að beita þessum úrræðum.
    Og þá er komið að því sem hv. 11. þm. Reykn. var að fjalla um. Hvar er þá ábyrgð? Hvar er t.d. skaðabótaábyrgð? Það er ekki eðlilegt að sveitarfélögunum og heilbrigðisnefndum þeirra sé falið það hlutverk að beita þvingunaraðgerðum eða úrræðum ef um er að ræða eftirlit sem tilheyrir Hollustuvernd ríkisins sjálfri beint samkvæmt lögunum. Þá er eðlilegt að það sé Hollustuverndin sem beitir þeim úrræðum og beri þá auðvitað ábyrgð á þeim aðgerðum sem Hollustuverndin telur sig knúna að grípa til.
    Varðandi ummæli hv. 2. þm. Vestf. þar sem hann segir að ráðherra hafi ekki talið ástæðu til að hlusta á umræður um hvort um mannréttindabrot væri að ræða, þá vil ég aðeins segja það sem kom fram í umræðum um þetta mál í
þingflokki Framsfl., þar sem þetta mál var að sjálfsögðu rætt eins og öll önnur frv. sem lögð eru fram af hálfu ríkisstjórnarinnar, þau eru auðvitað rædd í þingflokkum ríkisstjórnarinnar, að þar kom fram af minni hálfu að hér er um
að ræða þvingunarúrræði sem eru í lögum í dag. Það er ekki verið að taka hér upp nein ný þvingunarúrræði. Það er aðeins verið að tala um það að sá sem hefur með eftirlit að gera geti beitt þessum úrræðum, en ekki að það sé verið að fá einhvern annan, heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna, sem samkvæmt lögunum hafa þetta vald, fá hann til þess að beita þvingunarúrræðum vegna eftirlits sem ekki heyrir undir sveitarfélögin heldur undir Hollustuverndina beint.
    Varðandi síðan fyrirspurn frá hv. 1. þm. Reykv. um það hvernig mál eru unnin af hálfu stjórnarflokkanna, þá lýsti ég því að hluta til. Þau fara

auðvitað fyrir stjórnarflokkana og svo var með þetta frv. eins og önnur. Við ræddum það í okkar þingflokki og þar kom fram ágreiningur frá einum þingmanni og hann hefur þegar komið fram hér í þingsölum og við því er út af fyrir sig ekkert hægt að segja. Auðvitað verða menn hver og einn að hafa rétt til að hafa álit á hlutunum og ef þeir telja sig knúna til þess að koma með það hér fram og berjast gegn þessu, af því að þeir telja hér unnið gegn þeirra bestu vitund, þá verða þeir auðvitað að fylgja því eftir. Það vald verður ekki af þeim tekið, ekki einu sinni með því þó að þingflokkar ríkisstjórnar heimili framlagningu frv., þá hljóta einstakir þingmenn að hafa þennan rétt. A.m.k. treysti ég mér ekki til að taka hann af þeim og hef auðvitað engan möguleika eða heimild til þess. Ég vænti þess að þegar aðrir stjórnarflokkar, aðrir þingflokkar sem styðja ríkisstjórnina hafa heimilað framlagningu frv., þá séu þeir auðvitað líka sammála því að það fari hér inn í deildina, fari hér til umræðu og því sé vísað til nefndar.
    Að sjálfsögðu geri ég ráð fyrir því að í öllum þingflokkunum séu þingmenn sem vilja fá að skoða þetta frv. ítarlega í nefnd og telji þeir ástæðu til breytinga þá koma þær athugasemdir auðvitað þar fram. Það á bæði við um stjórnarþingmenn og stjórnarandstöðuþingmenn. Ég hygg að það sé ekkert óvenjulegt við vinnubrögð almennt hér í hv. þingi og ég sætti mig auðvitað við þau vinnubrögð og vonast til þess fyrst og fremst að nefndin fjalli um þetta mál á málefnalegan hátt, skoði það ítarlega hvað hér er um að ræða, átti sig á því að hér er verið að opna möguleika fyrir Hollustuverndina til að fylgja eftir þeim verkefnum sem henni eru að öðru leyti samkvæmt lögunum fengin og ég treysti því að nefndin vinni þetta verkefni bæði fljótt og vel.